Markmið menntunar

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

30/06/1999

30. 6. 1999

Gild rök eru fyrir því að endurskoða þurfi það rándýra menntakerfi sem hér er við lýði og greitt er af skattgreiðendum. Ekki endilega vegna þess að menntakerfið er of dýrt í rekstri heldur frekar vegna þess að það er ekki að skila þeim árangri sem það gæti skilað. Menntun kostar samfélög vissulega mikla peninga, en […]

Gild rök eru fyrir því að endurskoða þurfi það rándýra menntakerfi sem hér er við lýði og greitt er af skattgreiðendum. Ekki endilega vegna þess að menntakerfið er of dýrt í rekstri heldur frekar vegna þess að það er ekki að skila þeim árangri sem það gæti skilað. Menntun kostar samfélög vissulega mikla peninga, en fáfræði kostar hins vegar margfalt meira og því er fjárfesting í góðri menntun ávallt skynsamleg.

Margyfirlýst markmið menntunar eru að undirbúa nemendur undir líf og störf í lýðræðissamfélagi. Undirritaður fullyrðir hins vegar að árangurinn er ekki í samræmi við yfirlýst markmið. Ástæðan er einfaldlega sú að hvorki það námsefni né þær starfsaðferðir sem nú eru iðkaðar í skólastofnunum landsins er til þess fallnar að móta rökfasta einstaklinga. Einstaklinga sem geta tjáð sig og rökstutt skoðanir sínar og, það sem mikilvægara er, vegið og metið skoðanir annarra.

Í því samfélagi sem við búum við í dag þar sem auglýsingar, áróður, freistingar og upplýsingar eru alls staðar í kringum okkur, hvort sem við viljum það eða ekki, er líklega ekkert mikilvægara einstaklingnum en sjálfstæð og gagnrýnin hugsun. Miðlægar menntastofnanir geta aldrei miðlað til nemenda sinna öllum þeim mikilvægu upplýsingum sem þeir þurfa á að halda. Góð menntun er hins vegar sú sem hjálpar nemendum að vinna úr öllum þeim áreitum sem þeir verða fyrir á degi hverjum.

Undirritaður leggur því til að heimspeki verði lögð til grundvallar íslensku menntakerfi. Með heimspeki á ég við skipulagða kennslu í rökfræði, tjáningu og siðfræði. Slík menntun er raunhæft móteitur gegn áhugaleysi, vanlíðan og öðrum félagslegum vandamálum óhugnanlega margra ungra einstaklinga. Menntun sem mótar rökfasta einstaklinga er, augljóslega, einnig mikilvæg vítamínsprauta fyrir hvert það lýðræðissamfélag þar sem fordómaleysi og velmegun vill ríkja.

Deildu