Landbúnaður á villigötum

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

04/07/1999

4. 7. 1999

Við búum við furðulegt landbúnaðarkerfi sem leggur byrðar á skattgreiðendur sem fá reikninginn fyrir víðtæku styrkjakerfi. Það íþyngir neytendum sem verða að greiða hærra vöruverð en ella vegna innflutningshindrana. Síðast en ekki síst grefur það undan þeim fjölda fólks sem vinnur í landbúnaði og hefur dregist aftur úr öðrum stéttum í launaþróun á síðustu árum. […]

Við búum við furðulegt landbúnaðarkerfi sem leggur byrðar á skattgreiðendur sem fá reikninginn fyrir víðtæku styrkjakerfi. Það íþyngir neytendum sem verða að greiða hærra vöruverð en ella vegna innflutningshindrana. Síðast en ekki síst grefur það undan þeim fjölda fólks sem vinnur í landbúnaði og hefur dregist aftur úr öðrum stéttum í launaþróun á síðustu árum.


Á ári hverju eyðum við milljörðum króna í landbúnaðarkerfi sem skilar litlu. Við eyðum milljörðum í skatta til að greiða ýmis konar ríkisstyrki. Við glötum milljörðum til viðbótar vegna of hás vöruverðs sem er haldið uppi í krafti ofurtolla á erlendar landbúnaðarafurðir. Við töpum framlagi margra þeirra sem starfa í landbúnaði en ynnu betur, fyrir sjálfa sig og aðra, í öðrum störfum.

Við höldum uppi atvinnu í landbúnaði með því að setja peninga í kerfi sem drepur niður frumkvæði. Við setjum í þetta peninga sem annars myndu nýtast í ýmis þörf verkefni. Peninga sem ella rynnu til annarra, arðbærra, atvinnugreina. Peninga sem mynda leiða til aukins vaxtar og farsældar. Þess í stað nýtast þeir afar illa í kerfi sem er sniðið að fáránleika kjördæmakerfis sem nú er sem betur fer að hverfa í nokkrum skrefum.

En hvað er til ráða?
Ein hugmynd er sú að fella niður ríkisstyrki við fyrsta tækifæri og fella niður þá ofurtolla sem eru lagðir á erlendar landbúnaðarafurðir. Við þetta myndi það vinnast að útgjöld ríkissjóðs minnkuðu verulega og verð á landbúnaðarafurðum myndi lækka til muna. Eftir stæði hins vegar að starfsfólk í landbúnaði væri komið á vonarvöl.

Önnur leið er að fella niður ríkisstyrki og fella niður ofurtolla í áföngum. Þannig myndi fólk í landbúnaði fá góðan aðlögunartíma. Einnig þyrfti að auðvelda þeim sem velja að bregða búi vistaskiptin og bjóða þeim upp á ýmis námskeið sem kynnu að auðvelda þeim að finna ný störf. Með þessu myndu ríkisútgjöld dragast saman og vöruverð á landbúnaðarafurðum lækka verulega þegar til lengri tíma er litið. Fólk sem hefur starfað í landbúnaði stæði mun betur að vígi við að framfleyta sér og fjölskyldum sínum, hvort sem er við landbúnaðarstörf eða önnur störf. Þegar peningur sem ella hefði farið í að halda uppi óarðbæru landbúnaðarkerfi og glatast vegna of hás vöruverðs færi í annað mætti svo búast við talsverðum vexti og fjölda nýrra og betri starfa.

Við eigum ekki að eyða peningum í að halda fólki í óarðbærum störfum. Þess í stað eigum við að undirbúa fólk fyrir ný störf. Sjálfbær störf þar sem fólk fær tækifæri til að nota hæfileika sína sjálfum sér og öðrum til framdráttar.

Deildu