Er hagkvæmt að hunsa náttúruna?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

07/07/1999

7. 7. 1999

Umræðan um náttúruna og umhverfisvernd hefur, eins og svo margt annað, oft á tíðum einkennst af upphrópunum fremur en yfirveguðum skoðanaskiptum. Sanntrúaðir umhvefissinnar tala eins og heimsendir sé í nánd á meðan sjálfskipuð sveit „sérfræðinga“ meðal öfga-hægri og íhaldsmanna heldur því fram að umhverfisváin sé hreint og beint bull eða jafnvel fölsun óheiðarlegra vísindamanna. Afleiðingin […]

Umræðan um náttúruna og umhverfisvernd hefur, eins og svo margt annað, oft á tíðum einkennst af upphrópunum fremur en yfirveguðum skoðanaskiptum. Sanntrúaðir umhvefissinnar tala eins og heimsendir sé í nánd á meðan sjálfskipuð sveit „sérfræðinga“ meðal öfga-hægri og íhaldsmanna heldur því fram að umhverfisváin sé hreint og beint bull eða jafnvel fölsun óheiðarlegra vísindamanna. Afleiðingin er sú að stór hluti almennings veit ekki hverju hann á að trúa. Stafar umhverfinu hætta af mengun frá okkur mönnunum? Stafar OKKUR hætta af eigin framferði í umhverfismálum? Hverju eigum við að trúa?


Stutt svar við síðustu spurningunni er: engu. Við eigum ekki að trúa neinu. Vísindalegar rannsóknir og niðurstöður virðast hins vegar benda til þess að full ástæða er að hafa áhyggjur af umhverfinu.

Tvær hættur hafa sérstaklega þótt stafa af umhverfinu. Í fyrsta lagi er það þynning ósónlagsins og í öðru lagi er það hækkun á meðalhita jarðarinnar vegna svokallaðra gróðurhúsaáhrifa.

Þynning ósónlagsins
Ósonlagið er örþunn* himna, í um 25 km hæð, sem umlykur jörðina og ver okkur fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar. Ósónlagið er, eins og nafnið bendir til, búið til úr sameindum sem kallast ósón.

Vegna áhrifa efnis sem kallast CFC (t.d. Freon) og notað er m.a. í loftræstikerfum og til þess að kæla ísskápa hefur magn ósons í ósónlaginu smám saman farið minnkandi. Um leið og ósónlagið þynnist fer meira magn af útfjólubláum geislum sólarinnar í gegn um lofthjúp jarðar. Útfjólubláir geislar skaða ónæmiskerfi líkamans og geta valdið húðkrabbameini. Auk þess hafa útfjólubláir geislar skaðleg áhrif á svokölluð plöntusvif (phytoplankton). Plöntusvif eru einfrumungar sem fljóta nálægt yfirborði sjávar og lifa á ljóstillífun. Rannsóknir hafa sýnt fram á allt að 25 prósent hnignun í fjölda plöntusvifja og ef hnignunin heldur áfram gæti það haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir fæðukeðju sjávar.

Þrátt fyrir þessar þekktu afleiðingar hafa ýmsir hægri-íhaldsmenn reynt allt sem þeir geta til þess að koma í veg fyrir að fjármagni verði varið til þess vernda ósónlagið. Þekkt er t.d. tillaga Donald Hodels, innanríkisráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórn Ronald Reagans, þar sem hann lagði til að í stað þess að draga úr notkun CFC þá ætti fólk frekar að venja sig á að ganga með sólgleraugu og hatt!

Gróðurhúsaáhrif
Hitnun á loftslagi jarðar vegna svokallaðra gróðuhúsaáhrifa hefur lengi verið umdeilt fyrirbæri. Ástæðan fyrir því er auðskilin þar sem að sú lofttegund sem er talin hvað mest valda gróðurhúsaáhrifum er koldíoxíð, sem verður til við bruna á kolum, olíu og gasi. Öll höft á notkun þessara orkugjafa geta augljóslega komið sér illa fyrir flestan iðnað.

Margir hægri-íhaldsmenn hafa verið duglegir við að gera lítið úr gróðurhúsaáhrifunum og sumir hafa í fáfræði sinni lýst því yfir að gróðurhúsaáhrif séu eintóm blekking. Vísindalegar niðurstöður benda þó flestar til þess að meðalhitastig jarðar geti hafa hækkað um 1-4 °C við lok 21. aldarinnar ef ekkert er að gert. Tölvumódel hafa reiknað út að á sama tíma gæti vatnsyfirborð sjávar hafa hækkað um 10 til 100cm. Þess ber einnig að geta að tíu heitustu árin frá 1860 áttu sér stað á 9. og 10. áratug þessarar aldar. Augljóslega er hér um grafalvarlegt mál að ræða sem ekki borgar sig að hunsa.

Flestir vísindamenn eru sammála um að afleiðing gróðurhúsaáhrifa og ósónþynningar af mannavöldum séu raunveruleg ógn við líf á jörðinni ef ekkert verður að gert. Vísindamennirnir gætu að sjálfsögðu haft rangt fyrir sér (annað eins hefur gerst). Ef þeir hafa rangt fyrir sér gætum við verið að sóa verðmætum og fjármagni til einskins. Ef þeir hins vegar hafa rétt fyrir sér og við bregðumst ekki rétt við, gæti öllum jarðarbúum stafað mikil ógn af umhverfi sínu.

Á hvaða aðgerðir finnst þér skynsamlegra að veðja á?

*þegar ég segi örþunn himna, þá meina ég örþunn himna. Reiknað hefur verið út að ef ósónlagið yrði „togað“ niður að yfiborði jarðar, að því hitastigi og þrýstingi sem þar er, þá myndi ósonlagið mælast sem u.þ.b. 3mm á þykkt.

Deildu