Um ristilskolanir og geðsjúka gagnrýnendur

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

14/06/2010

14. 6. 2010

„Þeir sem ástunda náttúrulækningar hafa sérstakt dálæti á að nota stólpípur til að losa eitur úr líkamanum. Svo virðist sem þeir telji að það sé „náttúrlegt“ að smeygja slöngu upp endaþarm og spúla hann með miklu magni af vatni. Um leið telja hinir sömu að það sé eitthvað „ónáttúruleg“ við það að taka inn lyf, […]

„Þeir sem ástunda náttúrulækningar hafa sérstakt dálæti á að nota stólpípur til að losa eitur úr líkamanum. Svo virðist sem þeir telji að það sé „náttúrlegt“ að smeygja slöngu upp endaþarm og spúla hann með miklu magni af vatni. Um leið telja hinir sömu að það sé eitthvað „ónáttúruleg“ við það að taka inn lyf, sem í mörgum tilfellum eru unnin úr efnum sem finnast í náttúrunni.„

Þetta segir meðal annars í bók Martin GardnerFads & Fallacies in the name of science“ (á íslensku gæti þetta útleggst: „Tískubylgjur og rökvillur í nafni vísindanna“) sem kom út árið 1952, eða fyrir tæpum 60 árum síðan.

Í ljósi umræðunnar síðustu daga um Detox Jónínu Ben er áhugavert að sjá hvað lítið hefur breyst frá því þessi áhugaverða bók kom út. Fyrir meira en hálfri öld voru náttúrulæknar sannfærðir um að ristilskolun væri langbesta leiðin til að lækna fólk af ýmsum kvillum eins og sýfilis, botnlangabólgu, og berklum.  Sögðu þeir um leið að lyfin gerðu oftar en ekki illt verra.

Bestu vopnin gegn allri vanheilsu voru stólpípa (ristilskolun), eimböð, sólböð, heitir bakstrar, innrautt ljós, titringur og ýmislegt fleira.  Lyf voru sögð að mestu skaðleg og að þau væru aðeins seld vegna mikils þrýstings frá „lyfjarisum“ og „læknasamtökum“.

Þá voru ekki til nein haldbær vísindaleg gögn sem sýndu fram á gagnsemi ristilskolunar. Ekki frekar en nú.

Þrátt fyrir þennan undarlega skort á vísindalegum rannsóknum heldur Jónína Ben því ennþá fram að ristilskolun sé allra meina bót og kallar meðferðina „læknismeðferð“.  Enginn gögn eru lögð fram en þess í stað er umræðan kaffærð með reynslusögum um gagnsemi ristilskoðunar, fúkyrðum og persónuárásum.

Á vefsíðu detox.is má þannig lesa „vitnisburð“ fólks sem telur sig hafa læknast af MS-sjúkdómnum, háum blóðþrýstingi, þunglyndi, sykursýki, exemi,  „óheilbrigðum“ ristli og mörgu fleiru. Hvergi kemur fram á vefsíðu Detox að taka beri sjálfsgreiningar með miklum fyrirvara. Þvert á móti eru reynslusögurnar kjarninn í málflutningi Jónínu Ben. Engin vísindaleg gögn, engar sannreyndar aðferðir kynntar heldur er áherslan lögð á „vitnisburð“ að hætti trúfélaga. Enda kemur í ljós að detox meðferðin er hálfgerð kraftaverkasamkoma ef marka má frásagnir skjólstæðinga Jónínu:

„Maður sá kraftaverkin gerast, blóðþrýstings- ofnæmis- og blófitulyf [sic] fengu m.a. að fjúka og ekki virtist neinum verða meint af, þvert á móti.“ – Tekið af detox.is

Um geðsjúka, þröngsýna og vanhæfa gagnrýnendur sem leggja Jónínu Ben í einelti
Nokkrir einstaklingar, þar á meðal undirritaður, hafa í gegnum tíðina fjallað um gagnrýnisleysið sem virðist yfirtaka fjölmiðla þegar kemur að umfjöllun um „óhefðbundnar“ lækningar.* Þegar kemur að gagnrýni á Detox Jónínu Ben hefur Svanur Sigurbjörnsson, læknir, verið hvað duglegastur. Hefur hann fjallað um ristilskolun af bæði yfirvegun og þekkingu. Rökin sem hann hefur beitt í umræðunni standa óhögguð. Eins og oft vill verða þegar fólk er rökþrota þá grípur Jónína Ben til persónuárása og skítkasts.

Ég lýk umfjöllun minni með því að vitana beint til orða Jónínu Ben. Viðbrögð hennar við gagnrýni segja allt sem segja þarf.

Bréf til landlæknis dagsett 9. september  2009:
„Matthías [Halldórsson – þáverandi landlæknir] þröngsýni þín segir mér að þú sért starfi þínu ekki vaxinn.“

Bréf til landlæknis dagsett 15. desember 2009:
„Mín skoðun, og fleiri, er að Svanur [Sigurbjörnsson] þarfnist geðrannsóknar við.“

„Ég legg til að þú kynnir þér hvað ég er að gera hér áður en þú eyðir orku þinni í svona bull.

Sjálf hef ég boðist til þess að útskýra fyrir þér þessa meðferð. Þú [Matthías Halldórsson – þáverandi Landlæknir] hefur ekki sýnt því nokkurn áhuga og ert að mínu viti ekki starfi þínu vaxinn. Endar ertu að hætta og það að níða það sem vel er gert í heilsugeiranum verður örugglega þitt síðasta verk !“

„Ef þú [Matthías Halldórsson] og þetta fólk heldur áfram þessu einelti á hendur mér, starfsfólki mínu og fyrirtæki mun ég kæra þig og þau til dómstóla fyrir ítrekaðan atvinnuróg. „

Ofstækisfullur málflutningur á Facebook
Jónína Ben fjallar einnig af stakri yfirvegun um Detox og gagnrýnendur á Facebook síðu sinni sem er öllum opin:

13. maí 2010 (tengist ekki detox en passar ágætlega inn í umræðuna)
„“Sannleikurinn mun gera yður frjálsa“ Joh. 8:32
Lifum lífi okkar samkvæmt því og leysum okkur sjálf og aðra úr eymd lýginnar og blekkingarinnar.“

31. maí 2010
„Getur þú ekki sofið á nóttunni ? Þarftu svefnlyf ? Detoxmeðfeðrin kemur svefninum í lag. Þú þarft að hreinsa þig í 14 daga.“

„Detoxmeðferðin vinnur gegn þunglyndi. Bóka sig núna !! 5128040.“

3. júní 2010
„Detox er málið og heilbrigði og hamingja fylgja fast á eftir. Ég átti ekki krónu með gati þegar ég fór fyrst í Detox.“

9. júní 2010
„Síminn minn er xxx xxx xxx xxxx Ef það er eitthvað sem ykkur liggur á hjarta og viljið ekki lyf við því :-)“

10. júní 2010
„Ég hvet læknasamtökin til þess að fara yfir öfgaskrif, níðskrif, blekkingarleik, lyfjasýki, trú-leysiisofstæki [sic], tengsl við Hreiðar Má, áráttuhegðun og lygar þessa manns. Ég og fleiri höfum fengið nóg af skrifum hans sem einkennast af ofsóknaræði. Hann er lyflæknir og matar landlækni á þvælu. Tékkið á tengslum hans við …þá sem ég hef verið að gagnrýna í viðskiptalífinu og þá sér fólk hvað liggur að baki þessu ef það er þá ekki hrein geðveila. Ég hef fengið kvartanir undan honum ítrekað.“

11. júní 2010
„Má borða hollan mat ? Vara að hugsa það áðan hvort að við íþróttakennarar ættum að banna Svani að kenna Crossfit ? Bara að hugsa upphátt.“

12. júní 2010
„Þegar ég horfði upp sá ég bottninn [sic]…………..en Guð leiddi mig í detox.“

„Það er ekki hægt að rökræða um Detoxmeðferðina frekar en um áhrif þess að vera á lyfjum.“

13. júní 2010
„20% afsláttur á ristilskolun ef þið bókið á morgun. Enginn notar sömu slönguna, allir fá sótthreinsun. Enginn sýkist. Landlæknir Matthías froðufellir og Svair [sic] geta ekki sungið. Bókið ykkur 5128040“

„Ristilskolun losaði mig við „vefjagigt“ sjúkdómur sem að setur hundruðir á örorkubætur án þess að vísindalegar ástæður liggja að baki.“

– – – – – – – – – –

Sjá einnig:
Greinargerð vegna svokallaðrar detoxmeðferðar
[Landlæknir]

Lyf eða ekki lyf? [Svanur Sigurbjörnsson]

Jónína Ben og Matthías Halldórsson fyrrverandi landlæknir á Bylgjunni 14. júní 2010

Jónína Ben og Detoxið gagnrýnd í kvöldfréttum [Kristinn Theódórsson]

* Nokkrar greinar sem tengjast óhefðbundnum lækningum og gagnrýnisleysi fjölmiðla

Detox læknar óttast að vera drepnir af lyfjafyrirtækjum

Ó nei, tunglið er fullt (umfjöllun um staðfestingahneigð)

Óhefðbundinn fréttaflutningur

Nýöldin á Stöð 2 – Ábyrgð fjölmiðlamanna

Vörumst skottulækningar

Opinberi meðferðarfulltrúinn Jesús

Skipholtsapótek selur snákaolíu

Deildu