Ó nei, tunglið er fullt!

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

06/08/2004

6. 8. 2004

Verður fullt tungl þessa helgi? Ef marka má fréttastofu Stöðvar 2 ætti fólk að fylgjast vel með stöðu tunglsins áður en það hættir sér út á lífið um helgina. Í umfjöllun stöðvarinnar um þjóðhátíð í Eyjum sagði orðrétt: “Metfjöldi fíkniefnamála var upplýstur á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þrjár líkamsárásir voru kærðar og ein nauðgun tilkynnt neyðarmóttöku. […]

Verður fullt tungl þessa helgi? Ef marka má fréttastofu Stöðvar 2 ætti fólk að fylgjast vel með stöðu tunglsins áður en það hættir sér út á lífið um helgina. Í umfjöllun stöðvarinnar um þjóðhátíð í Eyjum sagði orðrétt: “Metfjöldi fíkniefnamála var upplýstur á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þrjár líkamsárásir voru kærðar og ein nauðgun tilkynnt neyðarmóttöku. Tungl var fullt í gær og fangageymslur fullar, en þjóðhátíðin þykir samt sem áður hafa farið vel fram.”


Kannski var þetta húmor af hálfu fréttamannsins en ef sú var raunin var það engan veginn augljóst. Í umræddi frétt var ekki minnst einu orði á að tengsl fulls tungls og glæpa hafa verið rannsökuð margoft og er niðurstaðan nánast alltaf sú sama. Það eru engin tengsl. Það er meðal annars svona fréttamennsku að kenna að stór hópur manna trúir þessari vitleysu. Margir vitna reyndar í eigin reynslu trú sinni til staðfestingar:

“Manstu eftir afmælinu hans Palla? Við fórum í bæinn og það logaði allt í slagsmálum. Ég hef aldrei lent í öðru eins. Þá var líka fullt tungl!”

Þegar efasemdamenn voga sér að benda á að um tilviljun hafi líklegast verið að ræða er yfirleitt önnur reynslusaga matreidd sem hljómar einhvern veginn svona:

“Vinkona mín hefur unnið á slysadeild í tíu ár og hún segir að það sé marktækt meira um slys og ofbeldi þær helgar sem fullt tungl er á lofti. Læknarnir og hjúkrunarkonurnar tala meira að segja um þetta í kaffitímunum.”

Reynslusögur sem þessar hafa ekkert vísindalegt gildi og segja ekkert til um það hvort raunveruleg tengsl séu á milli fulls tungls og aukinnar glæpatíðni. Helsta ástæða þess að fólk telur sig skynja þessi tengsl er hugsanavilla sem við getum kallað staðfestingarhneigð (confirmation bias).

Staðfestingarhneigð er sú tilhneiging fólks til að taka frekar eftir atvikum sem staðfesta þeirra eigin trú. Sem dæmi taka þeir sem trúa á tengsl tungls og glæpa sérstaklega eftir því þegar margir glæpir eru framdir undir fullu tungli en taka hins vegar ekkert eftir því þegar það er fullt tungl og lítið um glæpi (eða taka eftir því en gleyma því fljótlega aftur). Að sama skapi tekur fólk ekki eftir óvenjulegum glæpahrinum sem eiga sér stað þegar tunglið sést ekki á himni o.s.frv.

Eina örugga leiðin til þess að rannsaka tengsl sem þessi er að safna nákvæmum og hlutlausum gögnum um stöðu tunglsins og tíðni glæpa og skoða síðan hvort tengsl séu þar á milli. Eins og áður segir þá hefur þetta einmitt verið gert margoft. Tengslin eru ekki til staðar. Kannski að ábyrgar fréttastofur ættu að taka þessar einföldu staðreyndir til skoðunar næst þegar þær flytja “fréttir”.

p.s. ef þið rekist á svartan kött um helgina er ekkert að óttast. Þið getið alltaf hent salti yfir vinstri öxlina ykkar. 🙂

Ítarefni:
Metfjöldi fíkniefnamála upplýstur – Stöð 2 02. ágúst
Full moon and lunar effects

Deildu