Frelsi til lífs

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/11/1999

25. 11. 1999

Í pistli mínum í dag langar mig til þess að fjalla örlítið um fóstureyðingar. Tilefnið er málflutningur ,,Frelsarans“ á Frelsi.is, opinberri vefsíðu Heimdallar, síðastliðinn mánudag. Þar segir ,,Frelsarinn“ að það sé alltaf fullkomlega réttlætanlegt að eyða fóstri allan meðgöngutímann. Forsendur ,,Frelsarans“ fyrir þessari öfgafullu niðurstöðu eru allar rangar og leyfi ég mér því að gera […]

Í pistli mínum í dag langar mig til þess að fjalla örlítið um fóstureyðingar. Tilefnið er málflutningur ,,Frelsarans“ á Frelsi.is, opinberri vefsíðu Heimdallar, síðastliðinn mánudag. Þar segir ,,Frelsarinn“ að það sé alltaf fullkomlega réttlætanlegt að eyða fóstri allan meðgöngutímann. Forsendur ,,Frelsarans“ fyrir þessari öfgafullu niðurstöðu eru allar rangar og leyfi ég mér því að gera alvarlegar athugasemdir við slíkan málflutning.

Það sem ,,Frelsarinn“ segir um fóstureyðingar
Rökstuðningur ,,Frelsarans“ fyrir því að fóstureyðingar séu alltaf réttætanlegar á öllum stigum meðgöngu er eftirfarandi:

,,Allar persónur hafa rétt til lífs og það að lífláta persónu er morð. Því eru fóstureyðingar ekki morð því fóstur er ekki persóna. Það er því réttlætanlegt fyrir konu að krefjast fóstureyðingar á öllum stigum meðgöngu á þeirri forsendu, að hún hafi fullan umráðarrétt yfir líkama sínum og geti því réttilega ákveðið, hvað hendir hann, að svo miklu leyti sem það er í hennar valdi.“

Aðal ástæðan fyrir því að fóstur er ekki persóna að mati „Frelsarans“ er sú að fóstur geti ekki lifað óháð móður sinni. Niðurstaða „Frelsarans“ er því sú að þar sem fóstur geti ekki lifað óháð móður sinni sé það ekki persóna, og þar sem fóstur er ekki persóna þá er ekki morð að eyða því. Önnur ástæða fyrir því að fóstur er ekki persóna, að mati „Frelsarans“, er sú að fóstur hugsar ekki og er án skynsemi.

Rökstuðningur ,,Frelsarans“ er í stuttu máli eintóm vitleysa. ,,Frelsarinn“ veit greinilega ekkert um fóstur sem er líklega vegna þess að hann hefur ekki kynnt sér málin. Eina heimildin sem kemur í ljós að ,,Frelsarinn“ hefur kynnt sér er verk eftir John Locke sem dó árið 1704. Síðast þegar ég vissi þá er í dag árið 1999 og hefur þekking um fóstur margfaldast á síðastliðnum 300 árum. Vill ég benda á tvær alvarlegar rök-/staðreyndavillur í málflutningi ,,Frelsarans“.

Í fyrsta lagi þá er það rangt að fóstur geti aldrei á meðgöngutímanum lifað óháð móður. Fjölmörg dæmi eru um fyrirburafæðingar þar sem allt niður í sjö mánaða fóstur hafi lifað af utan við móðurkvið og með núverandi tækni er í raun mögulegt að halda lífi í jafnvel yngri fóstrum. Í öðru lagi er það heldur ekki rétt að fóstur hugsi ekki eins og „Frelsarinn“ heldur fram. Eftir þrítugustu viku meðgöngu hefur taugavefur heilans í fóstri þroskast það mikið að heilabylgjur frá fóstrinu mælast sem svipar til heilabylgna sem mælast í fullorðnu fólki. Ýmsar rannsóknir benda einnig til þess að utanaðkomandi áreiti eins og rödd móður og tónlist hafi áhrif á eldri fóstur. Hverju sem því líður þá er fáránlegt að halda því fram að börn hugsi ekki fyrr en sekúndunni eftir að þau skjótast úr móðurkviði. Hægt er þó að fullyrða að fóstur hugsi ekki fyrir tuttugustu og fjórðu viku meðgöngu enda er heilavefurinn einfaldlega ekki orðinn nógu þroskaður þá.

Hvenær er fóstureyðing réttlætanleg?
Nú vona ég að lesendur mínir skilji mig ekki þannig að ég sé alfarið á móti fóstureyðingum. Því fer fjarri. Mér leiðast hins vegar órökstuddar fullyrðingar. Öfgasjónarmið þeirra sem segja að eyðing á fóstri á öllum stigum sé kaldrifjað morð og þeirra sem finnst ekkert sjálfsagðara en að eyða nær fullburða fóstri eru beinlínis hættuleg þar sem þau letja fólk til þess að taka ábyrga afstöðu sem byggir á rökum fremur en óbeisluðum tilfinningum.

Afstaða undirritaðs er sú að taka verði tillit til þroska miðtaugakerfis í fóstri þegar leyfi til fóstureyðingar er ákvarðað og hygg ég að svo sé reyndar gert í dag. Við getum flest verið sammála um að mannleg hugsun og tilfinningar geta ekki átt sér stað án virks heilavefjar. Virkur taugavefur byrjar ekki að myndast í fóstri fyrr en á sjötta mánuði meðgöngu og því sé ég ekkert athugavert við það að eyða fóstri fyrir þann tíma. Eftir þann tíma tel ég vafasamt að leyfa fóstureyðingu nema heilsa móður sé í hættu*.

Óábyrgur málflutningur
Mér þykir það mikið ábyrgðaleysi að kasta fram algjörlega óathuguðum fullyrðingum fram um eins viðkvæmt mál og fóstureyðingar eru í nafni stjórnmálasamtaka. Það er meðal annars vegna svona óvandaðs málflutnings sem fjöldi fólks (bæði hérlendis og erlendis) fylkir sér bak við öfgafull samtök sem krefjast þess að fóstureyðingar verði algjörlega bannaðar.

Það er álíka öfgafullt að fullyrða að persóna verði til um leið og sæði og eggfruma sameinast og að fullyrða að persóna verði ekki til fyrr en eftir fæðingu. Báðar fullyrðingarnar eiga það sameiginlegt að þeim fylgja engin haldbær rök. Öfgafullar upphrópanir eru ekki líklegar til þess að skila af sér neinni skynsamlegri niðurstöðu og því hvet ég menn til ábyrgari málflutnings.

*Martin Lúter stofnandi mótmælendatrúar sagði t.a.m eftirfarandi um barnshafandi konur: „Ef þær verða þreyttar eða jafnvel deyja við fæðingu þá skiptir það ekki máli. Látum þær deyja vegna frjósemi þeirra – það er tilgangur þeirra“. Enn þann dag í dag telja ýmsir öfgahópar það enn ekki réttlætanlegt að eyða fóstri þótt mæðurnar séu í lífshættu.

Deildu