Kostnaðarsöm afglöp stjórnmálamanna

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

29/11/1999

29. 11. 1999

Út um gluggann á skrifstofu minni í miðbæ Reykjavíkur sé ég það ráðuneyti sem verst hefur verið stjórnað undanfarna áratugi. Landbúnaðarráðuneytið. Að baki því, og í hvarfi frá mér, er annað ráðuneyti sem hefur einnig verið undir fremur dapurri stjórn. Sjávarútvegsráðuneytið. Skortur á framtíðarsýn Í báðum ráðuneytum hefur framtíðarsýn verið í algjöru lágmarki. Þegar þannig […]

Út um gluggann á skrifstofu minni í miðbæ Reykjavíkur sé ég það ráðuneyti sem verst hefur verið stjórnað undanfarna áratugi. Landbúnaðarráðuneytið. Að baki því, og í hvarfi frá mér, er annað ráðuneyti sem hefur einnig verið undir fremur dapurri stjórn. Sjávarútvegsráðuneytið.


Skortur á framtíðarsýn
Í báðum ráðuneytum hefur framtíðarsýn verið í algjöru lágmarki. Þegar þannig er farið er lítil ástæða til að ætla að góð verk streymi frá þessum ráðuneytum. Samt, og væntanlega þess vegna, er þörfin á öflugri stefnumótun og skýrri framtíðarsýn óvíða meiri en í þessum tveimur ráðuneytum.

Landbúnaðarráðuneytið hefur fylgt fáránlegri stefnu um margra áratuga skeið. Niðurgreiðslur og verndun íslensks landbúnaðar fyrir erlendri samkeppni hefur stórskaðað íslenska neytendur, íslenska skattgreiðendur og til lengri tíma litið íslenskan landbúnað.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur sloppið betur frá sínu. Þó er þar ýmislegt athugavert. Upp úr stendur þó sú umdeilda ákvörðun að úthluta veiðiheimildum til útgerða án þess að nokkur greiðsla komi í staðinn. Í Sovétríkjunum heitnum hefði þetta verið kallað kommúnismi, hér heitir þetta að ýta undir hagkvæmni í sjávarútvegi.

Undir hæl sérhagsmuna
Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytin eru þau ráðuneyti sem flestir geta verið sammála um að gangi erinda sérhagsmunahópa frekar en almennings. Bændasamtökin hafa óeðlilega mikil áhrif í landbúnaðarráðuneytinu, Landssamband íslenskra útvegsmanna í sjávarútvegsráðuneytinu.

Þannig hafa bæði þessi samtök átt auðvelt með að verja sérhagsmuni sína gegn hagsmunum almennings. Nú þarf enginn að velkjast í vafa um það að landbúnaðarkerfið sem við búum við skaðar mikinn meirihluta íslensku þjóðarinnar. Flestir hagfræðingar sem hafa tjáð sig um auðlindagjald hafa mælt með því, fæstir gegn því. Þó hefur þessum samtökum tekist að verja sérhagsmuni umbjóðenda sinna gegn hagsmunum almennings.

Hverra sök?
Þó er ekki hægt að gagnrýna þessi samtök fyrir að berjast fyrir hagsmunum umbjóðenda sinna. LÍÚ og Bændasamtökin berjast fyrir hagsmunum félagsmanna sinna rétt eins og verkalýðsfélög og félög ýmissa minnihlutahópa.

Það væri líka rangt að sakfella embættismenn hverra hlutverk er einfaldlega það að framfylgja stefnu stjórnvalda. Þó svo það megi deila um það hversu mjög þeir skuli leggja að sér við að leiðrétta stefnu stjórnvalda.

Sökin liggur því óumdeilanlega hjá stjórnvöldum almennt og ráðherrum sjávarútvegs- og landbúnaðarmála sérstaklega. Þessir aðilar hafa bruðgist skyldu sinni. Ráðherrar landbúnaðarmála algjörlega, ráðherrar sjávarútvegsmála litlu síður. Þannig hafa menn eins og Árni Matthiesen, Guðni Ágústsson, Þorsteinn Pálsson, Guðmundur Bjarnason, Halldór Blöndal, Steingrímur J. Sigfússon og Halldór Ásgrímsson gengið erinda fámennra sérhagsmuna hópa og virt almannahagsmuni að vettugi. Fleiri eiga sök að málum. Þannig má telja upp landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra lengra aftur. Þannig má bæta í hópinn forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddssyni. Það má teljast merkilegt að stærsti stjórnmálaflokkur landsins sem kveður sjálfan sig talsmanna frjálsra viðskipta og takmarkaðra ríkisafskipta skuli ekkert hafa gert til að kollvarpa núverandi landbúnaðarkerfi.

Úrræðaleysi stjórnmálamanna
Einhverra hluta vegna hafa mishæfileikasnauðir og huglausir stjórnmálamenn lengi komið sér hjá því að taka á vandanum í landbúnaði og vitleysunni í úthlutun veiðiheimilda. Sérhagsmunahópar hafa fengið að vaða uppi án þess að stjórnmálamenn hafi fundið til skyldu sinnar og gætt hagsmuna almennings. Í þessum málaflokkum hafa stjórnmálamenn brugðist algjörlega og eiga sér engar málsbætur.

Deildu