Frelsi og frjósemi

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

02/12/1999

2. 12. 1999

Það er margt sem gerist á baksviði veffjölmiðlana og er tölvupóstur eitt hvassasta vopn okkar sem skrifa, og stundum lesa, efni það sem prýðir þessa miðla.. Til dæmis var ég nýverið borin þeim þungu sökum að hafa ekkert vit á hinni göfugu stefnu sem frjálshyggan er. Þetta stafar líklega af því hve frjálslega ég hef […]

Það er margt sem gerist á baksviði veffjölmiðlana og er tölvupóstur eitt hvassasta vopn okkar sem skrifa, og stundum lesa, efni það sem prýðir þessa miðla.. Til dæmis var ég nýverið borin þeim þungu sökum að hafa ekkert vit á hinni göfugu stefnu sem frjálshyggan er.


Þetta stafar líklega af því hve frjálslega ég hef farið með hugtök í skrifum mínum um eðli þessarar ágætu kenningu um æskilega samfélagsskipan. Til dæmis gerði ég það af einskærri illgyrni að rugla saman reitum frjálshyggju og hinnar frjálslyndu stefnu Wigganna bresku sem voru fulltrúar burgeisanna í bresku samfélagi. Ég skal því verða fyrstur manna til að benda á þennan hugtakarugling sem, ef grant er skoðað, er langt frá því að vera langsóttur eða ósanngjarn.

Jafnframt vil ég játa að líklega er mikið til í þeirri staðhæfingu að mig skorti þekkingu á frjálshyggjunni, enda hef ég alla mína þekkingu úr lestri Frelsisvefsins, sem við nánari íhugun virðist ekki vera áræðanleg uppspretta heimilda um frelsið, frjálshyggjuna eða kúgun kvenna.

Því fer þó fjarri að ég ætli að biðjast afsökunar á vanþekkingu minni eða svínslegum aðdrótunum mínum í garð frelsisvina vorra sem reka áðurnefndan vefmiðil. Mér finnst það nefnilega lítilvægur breiskleiki að misnota hugtök í samanburði við að nota frelsið sem réttlætingu á hverskyns misrétti.

Það sem er hinsvegar ljótt af mér er að væna unga Sjálfstæðismenn, eins og ég geri svo oft, um að vera hópur frelsisblindaðra fávitringa. Á því skal ég biðjast afsökunar. Innan þessara samtaka fyrirfinnast nefnilega hinir örgustu ríkisforsjárhyggjusinnar eins og aðalfundur Varðar, ungíhaldsklúbbs á Norðurlandi, er augljóst dæmi um. Undir slagorðinu „Ísland fyrir Íslendinga“ komust þessir forsvarsmenn frelsis og forsjárhyggju að því að best væri að meina útlendingum um íslenskt ríkisfang nema þeir stæðust sérstakt íslenskupróf.

Þeim sem ekki hefur lesið skrif frelsispennanna á frelsi.is kann að finnast að þess lags forsjárhyggja sé í hrópandi mótsögn við inntak frjálshyggjunar. Svo er þó ekki. Samkvæmt kenningunni er öllum frjálst að gerast Íslendingar. Þeir sem ekki hafa aðstöðu til að sækja námskeið, boðin út samkvæmt lögmálum frjálsrar samkepni, hafa ekki aðstöðu til að nýta sér þetta frelsi sitt. Það er þó ekki vandamál okkar hinna því frelsi þeirra takmarkast af lögmálum hins algilda frelsis.

Kenning frjálshyggjunar er full af mótsögnum, auk þess sem hún er röng. En bara þó kenning sé röng þýðir það ekki að henni beri að hafna. Öðru nær. Málsvarar vonlausra kenninga hafa löngum haft af því nokkuð gaman að smíða stöðugt fleiri kenningar til réttlætingar og varnar kenningum sínum og oft virðist sem umræðan, sem slíkar kenningar skapa, draga til fylgis við þær fleira fólk en við þær kenningar sem mark er á takandi. Fyrir mitt leiti vona ég að frjálshugaðir hugsuðir frelsisvefsins haldi áfram að hripa niður þanka sína enda má oft nota þær sér til hlátursauka í skammdeginu.

Deildu