Af frelsi og frjálshyggju

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

22/11/1999

22. 11. 1999

Ungir sjálfstæðismenn hafa tekið í fóstur þankagang Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar sem lýðnum er kunnur sem helsti málsvari félagslegs Darwinisma á Íslandi. Auðvitað heitir þetta „frjálshyggja“ í orðabókum íhaldsins en megin inntakið er enn hið sama. Hinn stóri misskilningur stuttbuxna strákanna í Heimdalli er hinsvegar sá að halda að einhver samnefnari sé á milli frjálshyggju og […]


Ungir sjálfstæðismenn hafa tekið í fóstur þankagang Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar sem lýðnum er kunnur sem helsti málsvari félagslegs Darwinisma á Íslandi. Auðvitað heitir þetta „frjálshyggja“ í orðabókum íhaldsins en megin inntakið er enn hið sama. Hinn stóri misskilningur stuttbuxna strákanna í Heimdalli er hinsvegar sá að halda að einhver samnefnari sé á milli frjálshyggju og frelsis.


Frjálshyggjan er tvennt í senn. Hún er úreldur hagfræðilegur hugsunarháttur sem jafnvel lötustu hagfræðingar veigra sér við að beita enda byggir hún á of miklum einföldunum, og hún er pólitísk hugsjón sem helst hefur verið tengd við ógnarveldi járnfrúarinnar Margrétar Thatcher og stefnu breska íhaldsflokksins undir hennar stjórn.

Ennfremur er frjálshyggjan sagnfræðilegt skrípi Hún er stefna frjálslyndra Breta, frá tímum Jóns Mills, sem börðust af hörku fyrir hagsmunum iðnvæddra framleiðenda gegn valdamiklum landeigendum annars vegar, og alþýðunni hins vegar. Ég er ekki sannfærður um að menn, konur og börn sem unnu 18 tíma á dag, 7 daga vikunnar, 52 vikur á ári í kolanámum og verksmiðjum hafi skynjað frjálshyggjuna sem boðbera frelsis.

Það sem þessir félagslegu Darwinistar virðast telja frelsi er hið fullkomna afskiptaleysi. Vissulega má til sanns vega færa að töluvert frelsi hlýst af slíku afskiptaleysi, en það er þó engu að síður aðeins frelsi frá afskiptum og af því hlýst margskonar annarskonar ófrelsi. T.a.m. er það aðeins fyrir milligöngu ríkisins að þessir ágætu piltar geta skrifað og þannig komið sínum annarlegu þönkum í umræðu. Enn fremur er það fyrir tilstilli ríkisins að Hólmsteinninn getur óhindraður spekúlerað í gæðum afskiptaleysis án þess að vera hamlað af hversdagslegum hindrunum svo sem heiðarlegri vinnu.

Mótsagnir frelsis og frjálshyggju koma klárlega í ljós í skrifum Ívars Páls Jónssonar á frelsisvefnum. Þar kemst hann að þeirri einföldu niðurstöðu að vegna líkamlegra annmarka, s.s. þeirra að vera það kyn sem gengur með börn, séu konur verr settar á vinnumarkaði. Það vafðist lítið fyrir samtíðamönnum Mills að láta þungaðar konur vinna í námum.

Það eru hinsvegar þær niðurstöður sem hann dregur af þessari „tímamóta“ uppgötvun sinni sem eru eitthvað annarlegar. Jú, Ívar reiknar það út eftir reglum frjálshyggjunnar að þetta sé einfaldlega birtingarmynd frelsis kvenna, þ.e. að vinnumarkaðurinn hafni einfaldlega jafnrétti og af því leiði að jafnrétti samsvari ófrelsi.

Nú virðist Ívari vera lítt umhugað um frelsi kvenna. Það er í hans huga fullkomlega ásættanlegt að konur þurfi að þola ófrelsi svo markaðurinn geti notið frelsis. Ef Ívar hefði einhverja hugmyndafræðilega víðsýni þá yrði honum fljótlega ljóst að hann er í mótsögn við sjálfan sig.

Nú hefur um langan aldur verið mikil vakning meðal kvenna. Þessi vakning hefur smám saman smitast yfir til allflestra karla sem er í raun umhugað um frelsið. Vissulega er það rétt að líffræðilegar forsendur hamla frelsi kvenna en það er þó markmið okkar sem unna frelsinu svo mjög að bæta úr þessu óréttlæti náttúrunnar. Til dæmis hefur sumum dottið í hug að ef karlmenn fá fæðingarorlof þá hafi þeim verið veitt frelsi til að taka virkari þátt í fjölskyldulífinu.

Etv. er það megin markmið frjálshyggjunar að veita okkur frelsi frá þeirri þrúgandi stofnun sem fjölskyldan er. En fyrir þá okkar sem njóta samveru með okkar nánustu þá eru þessir líkamlegu annmarkar kvenkynsins einnig uppspretta ófrelsis fyrir okkur karlpeninginn.

Frjálshyggjan mun opna dyr og gjöra yður þannig frjálsa. Ef þér eruð af einhverjum orsökum ófær um að ganga um þær dyr þá getið þér best bölvað Guði og gæfunni. Það er nefnilega þannig að hinir einföldu hugsuðir frjálshyggjunar gera sér ekki grein fyrir því að frelsi einstaklingsins felst í því að nýta sér þá möguleika sem eru í boði. Það er ekki bara nóg að möguleikarnir séu fyrir hendi. Þannig vilja þeir svipta fólk tækifærinu til að bera ábyrgð á eigin örlögum því aðrir þættir hafi úrslita áhrif s.s. afkoma foreldra eða félagsleg staða. Þetta er einhverskonar félagsleg forlagatrú og eins og öll forlagatrú endurspeglar hún aðeins hámark ófrelsisins.

Afnám vistabandsins, þrælahalds, einokunar og viðurkenning borgararéttinda eru allt atburðir sem þurftu nokkurra ríkisafskipti til að verða að veruleika. Engum dylst hugur um að þetta voru mikilvæg skref í átt til frelsis. Þess vegna finnst mér það lítið ófrelsi og takmörkuð kúgun að afnema misrétti kynjanna og það ófrelsi sem það hefur í för með sér fyrir okkur öll. Jafnvel þó nokkur ríkisafskipti þurfi til.

Deildu