Menntun með markmið

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

30/05/1998

30. 5. 1998

Eftirfarandi er afrakstur menntanefndar ungra jafnaðarmanna sem hóf störf í maí 1998 I – Leikskólinn — II- Grunnskólinn — III – Framhaldsskólinn — IV – Nám á Háskólastigi „Við eigum ekki að hlusta á þá sem segja að aðeins hinir frjálsu eigi að njóta menntunar, heldur skulum við hlusta á heimspekingana sem segja að aðeins […]

Eftirfarandi er afrakstur menntanefndar ungra jafnaðarmanna sem hóf störf í maí 1998

I – Leikskólinn — II- Grunnskólinn — III – Framhaldsskólinn — IV – Nám á Háskólastigi
„Við eigum ekki að hlusta á þá sem segja að aðeins hinir frjálsu eigi að njóta menntunar, heldur skulum við hlusta á heimspekingana sem segja að aðeins hinir menntuðu séu frjálsir.“ -Epictetus

Um menntastefnu Sambands ungra jafnaðarmanna
Þessari menntastefnu er skipt upp í fjóra meginkafla sem fjalla um leikskólann, grunnskólann, framhaldsskólann og nám á háskólastigi. Hér er ekki um heilstæða menntastefnu að ræða, enda var það aldrei ætlun okkar að svo yrði. Hér er frekar um að ræða tillögur að bættri menntun með breyttum áherslum og rökstuðningur um hvers vegna þessar breytingar eru æskilegar. Sérstök áhersla er lögð á grunnskólann og framhaldsskólann í þessum tillögum þar sem höfundar hafa talið að fleiri og veigameiri grundvallarbreytinga sé þörf á þeim skólastigum.

Áherslubreytingar á skólastarfi
Þær áherslubreytingar sem Menntanefnd Sambands ungra jafnaðarmanna (MSUJ) leggur til eru í meginatriðum þrennskonar:

Í fyrsta lagi leggur MSUJ til að lögð verði áhersla á að menntun móti rökfasta og sjálfstæða einstaklinga sem eiga auðvelt með að tjá sig, leggja rök fyrir skoðunum sínum og vinna úr þeim fjölmörgu áreitum sem þeir verða fyrir á degi hverjum. MSUJ telur að slík menntun sé ávallt æskileg en lífsnauðsynleg á þeirri upplýsingaöld sem við búum á nú. MSUJ telur að ýmsar grundvallarbreytingar verði að eiga sér stað í núverandi skólakerfi til þess að þess konar menntun geti átt sér stað.

Í öðru lagi leggur MSUJ til að nám sé gert eins hnitmiðað og mögulegt er. Með öðrum orðum skal nám, og þar af leiðandi námsfög, snúast fyrst og fremst um það að undirbúa nemendur sína undir líf og störf í okkar samfélagi. Endurskoða skal tilverurétt þeirra námsgreina og námsaðferða, sem snúa ekki beint að þessu meginmarkmiði, í menntakerfi okkar. Enn fremur þarf að athuga hvaða námsgreinar og námsaðferðir eru æskilegar en eru ekki til staðar í núverandi menntakerfi.

Í þriðja lagi telur MSUJ að það þurfi að athuga gildi lýðræðislegra vinnubragða í íslensku menntakerfi. MSUJ telur að auka þurfi vægi nemenda og foreldra (þar sem það á við) í skólastarfi. Við búum í lýðræðisþjóðfélagi og sú staðreynd á að endurspeglast í menntastofnunum landsins. MSUJ telur lýðræðisþróun ekki aðeins æskilega heldur nauðsynlega á flestum stigum menntakerfisins.

Jafnrétti til náms
Menntun er án nokkurs efa það dýrmætasta sem við eigum. Án menntunar eru engar framfari. Án góðrar menntunar handa öllum myndast óumflýjanlega mikil stéttaskipting milli þeirra efnuðu og vel menntuðu, og hinna efnalitlu og illa menntuðu (eða jafnvel ómenntuðu). Koma þarf í veg fyrir að slík stéttaskipting myndist því stéttaskiptingar valda hverju samfélagi missætti og óhamingju.

MSUJ vill því að öll skólagjöld verði lögð niður. Þrátt fyrir að skólagjöld á Íslandi séu talsvert lægri en víðast hvar annars staðar kunna þau enga síður að hafa áhrif á ákvarðanatöku efnaminni fólks um hvort hefja eigi skólagöngu. Skólagjöld skulu vera að fullu greidd af sameiginlegum sjóðum landsmanna enda er menntun helsta framfaravopn hvers þjóðfélags.

Fötluðum einstaklingum skal ávallt tryggður sami réttur og aðrir hafa til menntunar. Góð menntun á alltaf að vera sjálfsagður réttur hvers einstaklings.

Launakjör og réttindi starfsmanna menntastofnanna
Eitt helsta frumskilyrði þess að hægt sé að byggja gott menntakerfi er vel menntað og áhugasamt starfsfólk. Forsendur þess að slíkt fólk veljist til starfa eru góð kennaramenntun og mannsæmandi launakjör. Það er löngu kominn tími til þess að viðurkenna hve mikilvægt og ábyrgðarmikið kennarastarfið er. Kennarar vinna við að færa nemendum sínum þá langverðmætustu auðlind sem til er, þekkingu. Það gildir einu um hvað við tölum. Iðnað, verslun, siðferði eða vísindi. Þekking er forsenda allra framfara. Hve miklu erum við reiðubúin til þess að fjárfesta í forsendu allra framfara? Allt fjármagn sem varið er í öflugt menntakerfi skilar sér margfalt til baka, þó það geti tekið nokkur kjörtímabil að skila sér.

Launakjör kennara og annarra fagaðila innan menntakerfisins skulu því ekki aðeins vera mannsæmandi, heldur eftirsóknarverð. Samstíga bættum kjörum kennara skal leitast við að auka aðhald að þeim og taka upp gæðamat í einhverri mynd.

Skólastigin fjögur
MSUJ hefur til einföldunar skipt almennri menntun niður í fjögur stig sem hvert um sig er fjallað um í fjórum sjálfstæðum köflum. Kaflarnir eru: Leikskólinn, Grunnskólinn, Framhaldsskólinn og Menntun á háskólastigi.

Kaflarnir um grunn- og framhaldsskólann eru líklegast að margra mati eftirtektarverðastir. Í þeim köflum fjöllum við nokkuð ítarlega um grundvallarbreytingar sem við teljum að gera þurfi á íslensku menntakerfi. Þær breytingar eru nokkuð umfangsmiklar og jafnvel byltingakenndar að mati sumra. Enga síður teljum við að þær breytingar séu byggðar á skynsemi og að þær séu nauðsynlegar ef byggja á upp þjóðfélag sem allir vilja og geta búið í.

Jaðarkaflarnir um leikskólann og menntun á háskólastigi eru meira almenns eðlis og töluvert styttri. Þó að ýmsar breytingar þurfi að gera á þessum tveim skólastigum, þá teljum við þær séu hvorki eins margar né eins byltingakenndar.

I – Leikskólinn — II- Grunnskólinn — III – Framhaldsskólinn — IV – Nám á Háskólastigi

I – Leikskólinn
Aðalmarkmið leikskólans er fyrst og fremst að veita þeim börnum sem í honum eru góða og örugga umönnun. Eitt helsta undirmarkmið leikskólans er hins vegar að veita börnum vissa grunnmenntun. Skólaganga flestra, en ekki allra, Íslendinga hefst í leikskólanum. Sú staðreynd að fólk er mismikið og mislengi í leikskóla hlýtur að hafa áhrif á það hvernig starfsemi leikskólans er uppbyggð. Vegna þess er erfitt að búa til námsskrá sem gerir ráð fyrir mikið af skipulagðri kennslu á til dæmis lestri eða einfaldri stærðfræði jafnvel þó að börn á forskólaaldri hafi alla getu til þess að læra slíkt. Mikið af þess konar kennslu í leikskólum gæti hins vegar ollið erfiðleikum þegar í grunnskólann er komið. Líklegt er að til yrði misvægi á milli kunnáttu þeirra barna sem hafa verið í leikskóla og þeirra sem ekki hafa verið í leikskóla.

Sú menntun sem á sér stað í leikskóla er því nær að kalla uppeldi til aðgreiningar frá þeirri skipulögðu kennslu sem er á efri skólastigum.

Uppeldisleg markmið leikskólans
Samkvæmt „Uppeldisáætlun fyrir leikskóla“ (menntamálaráðuneytið, 1994) eru uppeldismarkmið leikskólans þau að efla alhliða þroska barna. Með eflingu alhliða þroska er á átt við eflingu líkams- og hreyfiþroska, tilfinningaþroska, vitsmunaþroska, félagsþroska, fagurþroska og siðgæðisþroska.

Starfsaðferðir
Auk þeirra fjölmörgu starfsaðferða sem nú eru notaðar til uppeldi barna í leikskólum telur MSUJ að innleiða þurfi heimspeki sem hluta af uppeldisaðferðum leikskólanna. Með heimspeki er átt við skipulagðar umræður þar sem börnin taka virkan og mótandi þátt. Heimspekiumræður eru tilvaldar til þess að efla tilfinninga-, vitsmuna-, félags-, fagur-, og siðgæðisþroska svo eitthvað sé nefnt. Með heimspekiumræðum er hægt að hjálpa börnum til að setja sig í spor annarra, skilja og þroska eigin tilfinningar, efla rökhugsun sína og siðvit. Góð heimspekikennsla í leikskólum er að okkar mati traustur grunnur undir líf í okkar samfélagi þar sem mannleg samskipti og skýr hugsun eru svo mikilvæg.

Öfugt við það sem sumir halda þá er heimspekikennsla tilvalinn fyrir ung börn. Börn geta verið afar móttækileg fyrir kennslu af þessu tagi þar sem þau eru forvitin, óhefluð og fljót að læra.

Starfsmenn leikskólans og ytri aðstæður
MSUJ virðist sem að helsta ógn við góðum leikskóla séu frekar ytri enn innri aðstæður. Leikskólinn virðist byggja á nokkuð jákvæðri og heilsteyptri námsskrá en ytri aðstæður hindra að starfið gangi sem skyldi.

Vegna vægast sagt slakra launakjara eru margir leikskólar undirmannaðir og álagið því mikið. Stór hluti starfsmanna leikskóla eru ófaglærðir og starfstími sérhvers starfsmanns er oft undir einu ári. Aðalástæða þess hve starstími starfsmanna er stuttur og hve margir ófaglærðir vinna í leikskólum er enn og aftur hægt að rekja til slakra launakjara. Betri launakjör bjóðast næstum því alls staðar annarsstaðar.

Ofangreindar staðreyndir hljóta að vera áhyggjuefni þar sem ómögulegt getur verið að byggja góða starfsemi á vinnustað þar sem starfssemin er undirmönnuð og endalaust þarf að þjálfa nýja starfsmenn. Það hlýtur einnig, eðli sínu samkvæmt, að vera erfitt að byggja upp faglegt starf þar sem stór hluti starfsmanna vantar allan faglegan grunn.

MSUJ leggur eindregið til að yfirvöld endurskoði stefnu sína í launamálum leikskólakennara. Eins og áður hefur verið minnst á, þá telur MUSJ að ein af frumforsendum góðs menntakerfis á öllum stigum séu eftirsóknarverð laun. Kennarastarf verður að gera eftirsóknarvert á launalegum grundvelli. Það er eina leiðin til þess að tryggja að kennarastöður séu fullsetnar af hæfu og áhugasömu fólki.

I – Leikskólinn — II- Grunnskólinn — III – Framhaldsskólinn — IV – Nám á Háskólastigi

II- Grunnskólinn
Grunnskólakerfi það sem nú er við lýði er óásættanlegt kerfi, það er andlega bælandi og því mannskemmandi. Ástæðan fyrir því er sú að núverandi skólakerfi er, að miklu leyti, byggt upp á úreltum forsendum. Í þessum kafla viljum við kynna tillögur okkar um nýtt og betra skólakerfi og draga fram þá kosti sem við teljum það hafa umfram það kerfi sem er nú við lýði.

Við erum þess fullvissir að ef þú, lesandi góður, lest þennan kafla með opnu en jafnframt gagnrýnu hugarfari munir þú komast að sömu niðurstöðu og við (og fjölmargir aðrir) höfum komist að, að núverandi skólakerfi þarf að breyta verulega ef það á að skila af sér nemendum sem eru jákvæðir, umburðarlyndir og upplýstir einstaklingar sem kunna þær lífsleiðir sem stuðla að þeirra eigin hamingju og annarra.

Menntun, til hvers?
Grunnskólinn á að auka möguleika einstaklingsins til þess að öðlast hamingjusamt líf. Þetta reynir grunnskólinn í dag að gera með því að mennta einstaklinginn þannig að hann sé betur í stakk búinn til þess að starfa í nútímasamfélagi. Menntun þessi felst m.a. í því að kenna börnum að lesa, skrifa og reikna, auk þess sem börnin eru látin læra íslensku, stærðfræði, sagnfræði, ensku, dönsku, íþróttir, smíði, saumar, myndmennt, heimilisfræði og sitt hvað fleira sem almennt er talið að auki þroska og möguleika einstaklingsins.

Skólakerfið í dag vanrækir hins vegar það sem mikilvægast er og ætti að vera aðaltilgangur með námi. Það er að kenna börnum að vera manneskjur. Að kenna þeim að bera umhyggju hvert fyrir öðru (siðfræði), að hvetja þau til þess að leita sannleikans með því að hugsa sjálfstætt og um leið að vera gagnrýnið á eigin skoðanir (rökhugsun) og að hjálpa þeim til þess að geta tjáð skoðanir sínar og hugsanir á fimlegan og röklegan hátt jafnt sem hlustað á skoðanir annarra (tjáning). Skólakerfið vanrækir algjörlega að kenna börnum hvernig þau eiga verða að góðum manneskjum. Skólinn kennir börnum okkar ekki hvernig best sé að lifa.

Flest þau vandamál sem hrjá nemendur í núverandi skólakerfi, þ.e. agavandamál (í flestum skólum er a.m.k. einn bekkur í hverjum árgangi sem enginn kennari ræður við), áhugaleysi (allt of mörgum nemendum finnst leiðinlegt í skólanum og námið tilgangslaust), vanlíðan (mörgum börnum líður illa af ýmsum félagslegum aðstæðum), einelti (sem er allt of algengt og er oft hræðileg lífsreynsla fyrir þá sem í því lenda) og slakur árangur þeirra eru tilkomin vegna þess að núverandi skólakerfi leggur litla sem enga áherslu á að þroska og efla mannshugann með heimspekilegum aðferðum (rökhugsun, siðfræði, tjáning, o.s.frv.). Þess í stað sér núverandi skólakerfi aðeins um að mata einstaklinginn með misáreiðanlegri þekkingu, en gefur honum um leið nær engin tækifæri til þess að tjá sig um námsefnið og gagnrýna það.

Nýr grunnskóli
Menntun er eins og næring og nemendurnir eru eins og aldintré, ef aldintréð fær ekki næga næringu þá vaxa engir ávextir. Ef aldintréð fær næringu en ekki þá réttu þá gefur það ekki af sér þá heilbrigðu ávexti sem því var ætlað að gefa af sér. Því er ljóst að nauðsynlegt er að börn fái bæði rétta og næga næringu sem stuðlar að því að þau verði að sterkum einstaklingum sem kunna af þekkingu að takast á við lífið. Þessa næringu hefur núverandi skólakerfi mistekist að veita. Því er það ekkert nema eðlilegt að mörg börn verði við slíkar aðstæður að ráðvilltu ungu fólki sem kunna ekki að takast á við vandamál lífsins. Þetta er til að mynda öðru fremur ástæðan fyrir því að jafn mörg börn og unglingar falla fyrir hinum margumtöluðu vímuefnum (þar með talið áfengi) og raun ber vitni.

Í nýju skólakerfi leggjum við áherslu á að menntun sé byggð á skynsamlegum grunni. Til þess að læra að lesa þarf maður fyrst að kunna stafrófið. Til þess að geta lært þarf maður fyrst að kunna að hugsa. Því leggjum við til að allt nám verði byggt upp út frá heimspekilegum aðferðum. Þessum heimspekilega grunni verður svo skipt í tvær aðalgreinar: siðfræði og rökfræði.

Heimspeki – nýr grunnur að námi
Umræður, tjáning og gagnvirk samskipti nemenda við kennara þurfa að vera eins og rauðir þræðir í gegnum allt nám. Mötun sem byggist á því að nemendur sitji og þegi og gera lítið annað en að hlusta á kennarann, hlýða honum í einu og öllu og glíma síðan við mis markviss verkefni er aðferð sem samræmist engan veginn lýðræðislegum hugmyndum um jafnrétti, frelsi og bræðralag.

Fyrsta markmið hvers kennara ætti að vera að öðlast traust og vináttu nemenda sinna. Þegar þessu markmiði er náð er hægt að hefjast handa við að kenna börnunum. Kennari sem kennir börnum sem virða hann á mun auðveldara með að ná til þeirra en ef þessi virðing er ekki fyrir hendi. Gagnkvæm virðing er því ein af forsendum árangurríks náms.

Rökfræðin
Inn í hverju einasta mannsbarni leynast ómetanleg náttúruleg auðævi sem geta, ef þau eru rétt virkjuð, fært hvaða samfélagi sem er ómælda velmegun. Velmegun sem ekki aðeins lýsir sér í auknum veraldlegum þægindum, heldur einnig í formi ánægðra samfélagsþegna sem byggja, af þekkingu, réttlátt og skynsamlegt samfélag.

Ef við viljum að börnin okkar læri stærðfræði, raungreinar, málfræði, tungumál og aðrar greinar sem krefjast þess að notuð sé rökræn hugsun, þá er nauðsynlegt að kenna börnum okkar að hugsa sjálfstætt og rökrænt. Þetta er hægt að gera með því leggja tíma í það að kenna börnum að tjá skoðanir sínar og hugsanir. Þannig eru börnin virkjuð í heimspekilegum umræðum sem krefjast þess að þau færi rök fyrir skoðunum sínum og hlusti á rök og skoðanir annarra. Nauðsynlegt er að börn séu hvött til þess að spyrja spurninga og rannsaka allt sem fyrir þau er lagt með opnu en gagnrýnu hugarfari.

Mikilvægt er að áhersla sé lögð á að ýta undir áhugahvöt barnsins. Námsefnið verður að gera spennandi og skýra verður út fyrir nemendunum hvers vegna mikilvægt sé að viðkomandi námsefni sé kennt.

Með því að draga úr mötun áhugalítilla nemenda og þess í stað nýta tímann til þess að tala við börnin, en ekki einungis tala til þeirra, er hægt að auka skilning þeirra á eiginleikum og tilgangi námsefnisins. Best er að tengja námsefnið við reynsluheim nemendanna sem að sjálfsögðu er mismunandi eftir því á hvaða aldri/þroskastigi þeir eru. Það gengur einfaldlega ekki að kenna börnum lestur, skrift, stærðfræði, raungreinar, tungumál o.s.frv. „af því bara“, „vegna þess að allir þurfa að læra það“ eða „vegna þess að þetta er talin góð almenn menntun“ því að börn og unglingar vilja skilja af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru, rétt eins og við hin. Maðurinn er forvitinn að eðlisfari og það er gott því að forvitni gefur af sér þekkingu og þekking gefur af sér framfarir sem svo gefa af sér aukna hamingju. Því er það með öllu óverjandi þegar náttúruleg forvitni barna er bæld niður í skólum vegna þess að lítill sem enginn tími er úthlutaður til þess að svala henni.

Siðfræðin
Það að innræta börn okkar með siðferðisvitund hlýtur að vera eitt af höfuðmarkmiðum menntunar. Það að kenna börnum okkar hvernig á að koma fram við aðra og hvers vegna, er lykillinn að bjartri framtíð. Þetta hlýtur öllum þeim sem hafa kynnt sér sögu samfélaga að vera augljóst.

Siðfræði er hægt að kenna á ýmsa vegu. Hjá yngri deildunum væri t.d. hægt að kenna hana með því að kennarinn lesi upp dæmisögu, sem inniheldur miserfiðar siðferðisþrautir, fyrir börnin sem þau fá svo tækifæri til þess að glíma við. Dæmisögur þessar yrði vitanlega að sníða að hverjum aldurshóp fyrir sig og ættu siðferðisspurningarnar að þyngjast smátt og smátt þangað til að nemendurnir eru orðnir færir um að takast á við flóknar siðferðisþrautir á rökrænan hátt. Eftir að nemendurnir eru komnir á ákveðinn aldur verða tilbúnar dæmisögur óþarfar því að þá ættu þeir að fá tækifæri til þess að glíma við sannar „dæmisögur“ sem eru að finna í gegnum alla mannkynsöguna.

Siðfræðina verður því að samflétta við allar samfélagsgreinar og þá helst sagnfræðina.

Lærum af sögunni
Sagnfræðina er tilgangslaust að kenna, ef hún er ekki kennd út frá siðferðislegum forsendum. Sögukennsla er gulls ígildi aðeins ef tilgangurinn með henni sé að sýna orsakir og afleiðingar verka mannanna. Sögukennsla, ef hún er rétt notuð, er ein besta siðferðiskennsla sem völ er á. Sögukennarinn ætti að leggja allt kapp á það að gera nemendum sínum ljóst hvers vegna mennirnir gerðu afglöp sín og hvers vegna þeir stigu framfaraspor í gegn um tíðina, en ekki aðeins hverjir, hvar og hvenær. Mikilvægt er einnig að nemendur þekki raunverulegar hetjur mannkynssögunar, en ekki aðeins skúrkana. Varla getur talist eðlilegt að allir viti hverjir Alexander „mikli“, Napóleon „mikli“ og Hitler (ekki mikli af því hann tapaði) voru en hafi svo kannski aldrei heyrt um menn eins og Plato, Aristóteles, Voltaire, Thomas Paine og aðra þá sem hafa gert Jörðina að betri stað.

Helst þyrfti að kenna alla söguna, þ.e. allt frá upphafi siðmenningar til dagsins í dag þannig að nemendur fái heildarmynd yfir það hvernig samfélögin hafa þróast. Það að segja sannleikann verður að vera æðsta takmark sögukennslunnar og sagan verður því að vera sögð frá sjónarhorni heimsborgarans, Jarðarbúans, en ekki frá sjónarhorni Íslendinga, kristintrúarmanna, eða annarra sérhagsmunahópa, því slíkir hópar segja sögu sína á hlutdrægan og oft jákvæðari hátt en efni er til og leyna þar með sannleikanum. Ef við leynum sannleikanum er auðvitað ekki hægt að læra af honum. Ekki er hægt að byrgja brunnana þegar við vitum ekki hvar þá er að finna.

Íþróttir
Mikil virðing er borin fyrir íþróttum í okkar samfélagi. Ástæðan fyrir þessu er eflaust sú að menn telja að þeir sem stundi íþróttir stundi einnig almennt heilbrigðara líferni en þeir sem ekki stunda þær. Sannleikurinn er hins vegar sá að enginn verður heilbrigður á því að æfa líkamann eingöngu. Íþróttir einar og sér koma til að mynda engan veginn í veg fyrir það að börnin okkar leiðist út í óreglu. Ef hugurinn er ekki þjálfaður jafnt og líkaminn er allt unnið til einskis. Íþróttir eru jákvæðar aðeins ef þær stuðla að líkamlegu jafnt sem andlegu heilbrigði, en það gera því miður ekki allar íþróttir. Of oft kemur fyrir að börn og óharðnaðir unglingar séu innrædd á því að sigur sé allt sem skiptir máli. Sigurfíknin verður stundum svo mikil að siðferði leikmanna á það til að falla í skuggann af henni. Slík innræting getur því reynst stórhættuleg og þess vegna verður að leggja áherslu á gagn og skemmtanagildi íþróttaleikja en draga jafnframt úr mikilvægi sigurs og taps.

Íþróttakennsla í grunnskólum á fyrst og fremst að ganga út á að styrkja líkamann, kenna börnum rétta líkamsbeitingu, samhæfingu og samvinnu.

Kennsluaðferðir
Stór hluti kennslunnar verður að fara fram með gagnkvæmri tjáningu kennara og nemenda. Þetta er sú meginbreyting sem þessi menntastefna boðar. Umræður, spurningar og svör verða að vera daglegt brauð í skólastarfi en ekki undantekning frá hefðbundnu námi eins og nú er. Sú mötun sem viðgengst nú í skólunum er ekki aðeins ólýðræðisleg heldur er hún einnig óæskileg. Finnst til dæmis engum það skrítið að skólinn reynir að kenna börnum okkar hverjir merkustu afreksmenn okkar voru og eru en gerir um leið ekkert til þess að skapa nemendunum sjálfum það umhverfi sem ýtir undir sjálfstæða og gagnrýna hugsun þeirra. Umhverfi sem gefur af sér afreksmenn. Núverandi menntastefna heldur okkur því miður andlega fötluðum. Þessu verður að breyta.

Kennarinn
Ef kennarar eiga að bera ábyrgð á andlegri menntun nemenda sinna verða þeir að hafa vissa kosti og hæfileika. Auk þess að vera menntaðir í hinum hefðbundnu fögum verða þeir að vera menntaðir í rökfræði og siðfræði auk þess sem þeir verða að hafa gott lag á börnum og unglingum, þeir verða að geta tjáð sig við þau. Þetta eru kröfur sem við gerum óhikað til kennara, því þær eru bæði eðlilegar og sjálfsagðar. Ekki er nóg fyrir kennarann að vera vel menntaður í stærðfræði, ensku, íslensku o.s.frv. Ef hann getur ekki tjáð sig og hlustað á nemendur sína þá er hann ekki góður kennari. Megin starfssvið kennarans eru nemendurnir en ekki námsefnið.

Kennari þarf því fyrst og fremst að vera mannhyggjumaður sem er annt um nemendur sína, getur talað við þá, hlustað á þá, eflt forvitni þeirra og kennt þeim hvernig best sé að lifa.

Kennarastéttin er ein af ábyrgðarmestu fagstéttunum því framtíð okkar er að miklu leyti undir henni komin. Því þýðir það ekki að halda henni í láglaunastefnu eins og nú er. Ef fylgni á að vera milli launa og ábyrgðar þá er augljóst að laun kennara þurfa að vera mun hærri. Að sama skapi þarf að vanda valið á mönnum í ábyrgðastöður og mikið aðhald þarf að veita þeim sem í slíkum stöðum eru.

Kennaranum í dag er ekki um að kenna það slæma ástand sem við höfum dregið upp af núverandi skólastarfi, heldur er það sjálfu skólakerfinu (skólastefnunni, námsskránni) að kenna. Kennara ætti ekki að draga til ábyrgðar fyrir það að geta ekki stýrt ónýtu farartæki (núverandi skólakerfi) rétta leið. Kennara teljum við fyrst hægt að draga til ábyrgðar ef þeir geta ekki stýrt nýju og stýranlegra farartæki (nýju og betrumbættu skólakerfi) rétta leið.

Um námsgreinarnar
Helsta markmið með þeirri menntastefnu sem hér er kynnt er að breyta þeim grunni sem menntakerfið hvílir á. Það er hins vegar ekki ætlun okkar að setja fram heildstæða og ófrávíkjanlega námsskrá hér. Við teljum þó rétt að leggja hér nokkrar áherslulínur í einstökum greinum. Hér er um að ræða greinar sem hingað til hafa ekki verið kenndar í grunnskólum eða verið látnar mæta afgangi, enn fremur greinar sem mikil áhersla hefur verið lögð á í námsskrá en við teljum ekki í verkahring hins opinbera að kenna eða þá að vægi þeirra hafi minnkað.

Danska
Um leið og enska hefur öðlast sess sem alheimstungumál hefur vægi dönsku jafnt og þétt farið minnkandi. Nú er svo komið að ungir Norðurlandabúar tjá sig jafnt á ensku og dönsku. Þess vegna teljum við rétt að draga úr vægi dönsku í námsskrá, þannig að danska verði að valgrein sem annað tungumál.

Táknmál
Táknmál er í raun móðurmál heyrnarlausra (þó það sé ekki viðurkennt sem slíkt, enn sem komið er) og því við hæfi að nemendum standi til boða að læra þetta móðurmál fjölda Íslendinga. Rétt er að táknmál verði metið jafnrétthátt sem annað tungumál og tungumál erlendra þjóða.

Umhverfisvernd
Fáum dylst hvílík vandamál geta steðjað að jarðarbúum ef ekki er haldið rétt á þeim málum sem snerta umhverfið. Börnin eiga eftir að erfa Jörðina, það er óskynsamlegt að kenna þeim ekki hvernig best sé að umgangast hana.

Kristinfræði
Ríkið á ekki að skipta sér af trúmálum. Kristinfræðikennsla brýtur gegn ákvæðum um trúfrelsi og jafna stöðu trúfélaga. Þess vegna skal henni hætt, nema sem hluta af almennri trúarbragðakynningu þar sem öllum trúarbrögðum er gert jafn hátt undir höfði.

Siðfræði
Efling siðferðisvitundar barna skal vera eitt af höfuðmarkmiðum grunnskólans. Nemendum skal sýnt fram á hvernig góð samskipti, heiðarleiki og gagnkvæm virðing koma þeim til góðs.

Rökfræði
Taka þarf upp sérstaka kennslu þar sem nemendur þjálfast í rökhugsun með það að markmiði að þeir séu betur í stakk búnir að vega og meta þau áreiti sem þau verða fyrir á degi hverjum.

Tjáning
Börn eiga rétt á því að þeim sé kennt að tjá sig, hvoru tveggja í riti eða ræðu. Þannig eflist sjálfsvitund þeirra og möguleikar þeirra til að láta að sér kveða aukast.

Listgreinar
Hið opinbera á ekki að stýra menningarneyslu þjóðarinnar. Við leggjum ekki til að listakennslu verði hætt en að hún verði gerð fjölbreyttari og að valfrelsi nemenda verði stórlega aukið. Hver einstaklingur á að fá að ráða hvaða menningu hann velur sér.

Umhverfi og aðstæður
Augljóslega þarf að gera ýmsar breytingar á umhverfi og aðstæðum skólanna til þess að sú skólastefna, sem þetta rit leggur til, geti orðið að veruleika. Hér verður tæpt á þeim helstu breytingum sem þurfa að eiga sér stað.

Fjöldi nemenda í bekk
Ef skólastarfið á, eins og við leggjum til, að byggjast mikið til upp á heimspekilegum umræðum og mannlegum gildum, þá verður að takmarka nemendur í hverjum bekk við hámark 15 manns því nær ógerlegt er fyrir kennara að ná tökum á fleiri börnum í einu. Umræður taka tíma og allir verða að fá tækifæri til þess að taka þátt í þeim.

Heimanám unnið í skólanum
Leitast skal við að nemendur vinni „heimanám“ sitt að sem mestum hluta innan veggja skólans og á skólatíma (ekki eftir skóla). Nemendur skulu hafa aðgang að kennurum eða öðru starfsfólki skólans sem getur aðstoðað þá við námið. Þannig er tryggt að nemendur stundi „heimanám“ sitt og að þeir fái alla þá hjálp sem þeir þurfa á að halda. Reynslan hefur sýnt að núverandi fyrirkomulag skilar oft litlu þar sem aðstöðu-, tíma- og kunnáttuskortur getur komið í veg fyrir að nemendur fái hjálp heima við.

Endurskoðum einkunnakerfin
Endurskoða þarf núverandi einkunnakerfi í samræmi við markmið grunnskólans. Ef skólinn á að starfa út frá þeim mannlegu gildum sem hér hafa verið kynnt þá reynist nauðsynlegt að auka fjölbreytni einkunnargjafa. Þannig er vafasamt að gefa allar einkunnir í tölustöfum, leggja þarf mun meira upp úr umsögnum og uppbyggilegri gagnrýni. Ekki ætti að gefa einkunnir einungis fyrir árangur í prófum, þó að slíkt mat sé að sjálfsögðu nauðsynlegt. Auka þarf vægi námsþátta eins og þátttöku í umræðum, tillitsemi í garð annarra og annars konar þátttöku í tímum.

Þátttaka forráðamanna í skólastarfi
Æskilegt er að auka þátttöku foreldra og forráðamanna í skólastarfi. Við leggjum til að á hverri skólaönn verði nokkrir þemadagar þar sem foreldrar mæta með börnunum í skólann og taki virkan þátt í venjubundnu skólastarfi. Einnig væri æskilegt að foreldrar og nemendur þreyti saman námskeið þar sem gagnkvæm tjáning er aðal þemað. Slíkt samstarf heimila og skóla ætti að gera að föstum hluta af venjubundnu skólastarfi þannig að það muni þykja eðlilegt að á hverri skólaönn mæti foreldrar í nokkra daga til samstarfs. Þetta samstarf ætti að vera virkt öll grunnskólaárin tíu og stuðla þannig að bættum samskiptum foreldra og barna annars vegar en foreldra og skóla hins vegar. Þátttaka foreldra í starfi skóla verður að gera að reglu, ekki undantekningu.

Reglur í skólum
Reglur í skólum verða að samræmast þeim gildum sem skólinn gefur sig út fyrir að kenna. Öll þau vandamál sem koma upp í skólastarfi verður að leysa á rökrænan hátt. Agavandamál nemenda ætti t.a.m. aldrei að „leysa“ með óskynsamlegum refsingum (senda til skólastjóra, skamma eða lítillækka o.s.frv.). Allt hefur sína orsök og afleiðingu, líka hegðun barna! Ef við finnum orsökina og komum í veg fyrir hana, þá komum við í veg fyrir afleiðinguna. Óskynsamlegar refsingar geta hins vegar verið orsakavaldar að auknu agavandamáli þess sem verið er að refsa. Agavandamál nemenda eru því oft einnig agavandamál kennara.

Kostir mannúðlegs skólakerfis
Hér ætlum við að benda á hina ótvíræðu kosti mannúðlegs skólakerfis. Þeir sem lesa þennan kafla, með opnum hug og skynsemi að vopni, munu vonandi sannfærast um nauðsyn mannúðlegs skólakerfis sem byggir á heimspekilegum uppeldis- og kennsluaðferðum.

Flestir vita að börn okkar og unglingar eiga við ýmis félagsleg vandamál að stríða, enda er lífið flókin tilvera sem oft er erfitt að skilja og kljást við. Flest þessara vandamála er hins vegar auðveldlega hægt að koma í veg fyrir, eða að minnsta kosti er hægt að draga verulega úr þeim.

Lítum nú á þau helstu vandamál sem börn okkar og unglingar þurfa að kljást við.

Þrálát vandamál leyst með nýju skólakerfi
Áfengis og vímuefnanotkun, reykingar, einelti (andlegt og líkamlegt ofbeldi) og áhrifagirni eru meðal annars hættur sem steðja að ungu fólki í dag og orsök margvíslegs vanlíðan. Þessu gera sífellt fleiri sér grein fyrir þar sem umræður um þessi vandamál hafa verið algengar í okkar þjóðfélagi, enda ekki vanþörf á. Þessi vandamál hafa reynst þrálát og þrátt fyrir háleit markmið góðra manna um að útrýma þeim hefur það ekki tekist og mun ekki takast nema rótækari aðferðum verði beitt.

Allt á sér sína orsök og afleiðingu og ef við höldum áfram að bregðast rangt við þessu einfalda náttúrulögmáli þá munum við litlu sem engu áorka í baráttu okkar við fyrrnefnd vandamál.

Baráttan við vímuefnin
Hvers vegna gengur okkur svona illa að berjast við vímuefnavandann? Er það vegna þess að hann er ósigrandi andstæðingur? Nei, það er fyrst og fremst vegna þess að við erum ekki að nota þær aðferðir sem eru líklegar til þess að sigrast á honum!

Í dag beitum við fyrst og fremst tveim úrræðum: löggæslu og forvörnum. Með hertri löggæslu og þar með tollgæslu er reynt að hindra dreifingu fíkniefna annars vegar og innflutning þeirra hins vegar. Þessar aðgerðir gera því miður lítið gagn þar sem gróðavonin á vímuefnasölu og innflutningi á vímuefnum er það mikil að alltaf eru einhverjir einstaklingar til í að taka þá áhættu að verða handsamaðir. Það skiptir litlu máli hve margir eiturlyfjasalar eru handteknir og hve harða dóma þeir fá, alltaf koma nýir menn og halda áfram starfseminni. Þar komum við að hinu úrræðinu sem er forvarnir. Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að ef það á að koma í veg fyrir innflutning og sölu á vímuefnum að þá verður að eyða markaðinum, það er að koma í veg fyrir að fólk vilji kaupa eiturlyfin til að byrja með. Það er ef við komum í veg fyrir orsökina þá verður engin afleiðing.

Markmið forvarna er því að eyða eftirspurninni eftir vímuefnunum! Þetta markmið hefur greinilega ekki náðst og mun ekki náðst ef forvarnir halda áfram í þeirri mynd sem þær eru í nú. Hræðsluáróður virkar mjög takmarkað vegna þess að flestir vita nú þegar að vímuefni eru hættuleg bæði andlegri og líkamlegri heilsu en samt heldur fólk áfram að neyta þeirra. Áróður sem beinist að skynsemi manna er eðli sínu samkvæmt mun skynsamlegri leið til þess að halda ungu fólki frá fíkniefnum.

Áróður og fræðsla um fíkniefnin og afleiðingar þeirra er hins vegar engan veginn nóg til þess að koma í veg fyrir neyslu þeirra. Það er, í flestum tilvikum, ekki vegna vanþekkingar á eiturlyfjunum sem fólk neytir þeirra heldur er það öllu frekar vegna félagslegs vanþroska þeirra. Með félagslegum vanþroska meinum við óöryggi, lítið sjálfstraust, feimni og/eða aðrar vanlíðunartilfinningar sem eru gríðarlega algengar hjá ungu fólki. Þegar svona er komið fyrir fólki þá brýst eðlilega út þörf hjá því til þess að losna við þessar vanmáttartilfinningar og verða þá oft, því miður, áfengi og önnur vímuefni fyrir valinu sem lausn á vandamálinu eða sem einhverskonar veruleikaflótti.

Vandamálið er því í raun ekki að finna í vímuefnunum sjálfum né, að neinum stórum hluta, í vanþekkingu á þeim, heldur í félagslegum vanþroska þeirra sem freistast til þess að neyta þeirra. Því hlýtur það að vera skylda okkar (samfélagsins) að byggja upp mannúðlegt skólakerfi, eins og hér hefur verið skrifað um, sem kennir og hjálpar börnum okkar að takast á við lífið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Við fullyrðum hér með að Ísland verður ekki vímuefnalaust árið 2002, ekki frekar en það verður friður á Jörðu árið 2000, og í raun fullyrðum við að Ísland verður aldrei laust við vímuefnin með þeim aðferðum sem notaðar eru í dag. Ef við leggjum ekki áherslu á að kenna einstaklingnum að takast á við lífið með því að kenna honum siðfræði, rökhugsun og tjáningu eða mannleg samskipti, þá getum við alveg eins verið að moka sandi í botnlausa fötu.

Einelti, ofbeldi, fordómar
Einelti er andlegt og/eða líkamlegt ofbeldi sem margir verða því miður fyrir í gegnum skólagöngu sína. Að lenda í einelti getur verið allt frá því að vera smávægileg en óþægileg reynsla til þess að vera hræðileg lífsreynsla sem hefur áhrif á þolandann það sem eftir er ævi hans.

Ástæðu eineltis í grunnskólum má rekja til þeirra félagslegu vandamála sem nefnd voru í kaflanum hér fyrir ofan. Svo lengi sem börn eru óörugg og feimin og fá litla sem enga skipulagða kennslu í því hvernig þau eiga að koma fram við hvort annað, þá er einelti því miður aðeins rökrétt afleiðing. Í skóla þar sem stór hluti hvers einasta dags fer í skipulagðar umræður þar sem börn læra að hugsa rökrétt og hvernig á að koma fram við hvort annað þrífst ekki einelti, fordómar eða annað ofbeldi.

Varast ber að vanmeta það andlega tjón sem margir verða fyrir vegna eineltis. Það er löngu komin tími til þess að bregðast við af hörku gegn því böli sem einelti er. Auglýsingar, slagorð, örfáir þemadagar og endalaus nefndaseta gera lítið til þess að útrýma einelti. Skipulögð og samfelld kennsla um mannleg samskipti er okkar eini raunhæfi möguleiki gegn einelti!!!

Reykingar
Helsta ástæða þess að ungt fólk á grunnskólaaldri byrjar að reykja er ekki vegna þess að þau vita ekki hvað reykingar geta verið hættulegar og ekki er það heldur vegna þess að þau halda að það sé svo gott að reykja heldur er ástæðan enn og aftur félagslegum vanþroska þeirra að kenna. Ungt fólk veit fullvel að reykingar og önnur fíkniefni eru hættuleg, samt reykir stór hluti þeirra og margir a.m.k. prufa vímuefni. Hvað segir þetta okkur annað en það að við þurfum að leggja áherslu á að hjálpa börnum okkar að verða að sjálfstæðum og bjartsýnum einstaklingum en ekki hluta af ráðvilltum og stefnulausum hópi.

Vörn gegn áhrifagirni
Áhrifagirni er þegar einstaklingur lætur annan einstakling eða hóp manna hafa, gagnrýnislaust, áhrif á skoðanir sínar og aðgerðir. Því er oft talað um að einhver hafi leiðst út í „vitleysu“ vegna hópþrýstings eða slæms félagsskapar. Stundum er einnig talað um það að börn og unglingar verði fyrir slæmum áhrifum frá fjölmiðlum (aðallega sjónvarpi og tölvuleikjum) þannig er t.d. talið að ofbeldishneigð þeirra aukist vegna þess hve ofbeldi (sem oft er gert réttlætanlegt) er ríkur þáttur í fjölmiðlum. Einnig er talið að reykingar meðal ungmenna aukist vegna þess hve þær eru gerðar „cool“ í mörgum kvikmyndum, og svo mætti lengi telja.

Eina raunhæfa leiðin til þess að draga úr slíkri áhrifagirni einstaklingsins er að styrkja hann. Ef við þjálfum einstaklingin til að hugsa allt út frá siðferðilegum og röklegum forsendum og skoða allt sem fyrir hann kemur með opnu en gagnrýnu hugarfari, þá verður hann sjálfkrafa ónæmur fyrir óskynsamlegum áreitum.

Það að kenna börnum að bregðast af skynsemi við þeim fjölmörgu umhverfisáreitum sem þau verða fyrir á degi hverjum er án efa einn sá besti undirbúningur sem við getum gefið þeim undir það að lifa og starfa í, sífellt fjölbreyttara og flóknara, upplýsingasamfélagi.

Áhugaleysi
Áhugaleysi nemenda á skólastarfi er því miður algengt vandamál. Þessu ástandi verður að breyta. Við teljum að um leið og við gerum skólann að mannlegri stað, þar sem umræður eru algengar og vináttutengsl kennara og nemenda eru sterkari, að þá muni áhugi nemenda á skólastarfinu sjálfkrafa aukast. Í skólakerfi þar sem nemendur eru hvattir til þess að spyrja spurninga og taka þátt í kennslunni er líklegra að þeir verið áhugasamari um námið. Það einstefnukennslukerfi sem við búum við í dag er ekki líklegt til þess að auka áhuga nemenda á námi.

Skólinn verður í stórauknum mæli að undirbúa nemendur undir frekari nám og störf. Á síðustu grunnskólaárunum verður að leggja meiri áherslu á að kynna nemendum hvað bíður þeirra að loknu grunnskólanámi.

Heimili og foreldrar
Nú vilja eflaust margir spyrja hvort það sé ekki á verksviði foreldra og forráðamanna að kenna börnunum siðfræði, að hugsa rökrétt, að forðast vímuefnin og annað það sem hér hefur verið rætt um? Vitaskuld væri það æskilegt en sannleikurinn er einfaldlega sá að forráðamenn eru yfirleitt ekki í neinni aðstöðu til þess að sjá um andlega menntun barna sinna. Forráðamenn hafa í mörgum tilfellum einfaldlega ekki tíma, aðbúnað eða þekkingu til þess að sjá um þessa hluti. Við búum í þjóðfélagi þar sem meðalmaðurinn þarf að vinna langan vinnudag til þess að geta framfleytt sér og sínum á mannsæmandi hátt. Því gefst engan veginn nægur tími til þess að huga að andlegum þroska barnanna.

Að kenna rökfræði, siðfræði og tjáningu í grunnskólum hefur tvímælalausa kosti með sér. Grunnskólinn er samfélag barna og unglinga og er þar því eðlilegast að kenna þeim hvernig eigi að koma fram við hvort annað. Með því að gera umrædd efni að skyldu og meginmarkmiðum grunnskólanna geta forráðamenn barna, og aðrir áhugasamir, veitt menntastofnunum aðhald og þar með tryggt að þær séu að gera það sem námsskrá þeirra segir til um, þ.e. að hjálpa nemendum að verða að þroskuðum og sjálfstæðum manneskjum. Ekki er hins vegar hægt að tryggja að foreldrar og aðrir forráðamenn séu að gera slíkt hið sama. Við getum aðeins hvatt þá áfram og reynt að tryggja þeim betri aðstæður til almenns uppeldis, og það er vissulega sjálfsögð skylda okkar (samfélagsins) að gera.

Land heimsborgarans
Heimsborgari er manneskja sem leitar réttlætis í öllu fyrir alla, heimsborgarinn snýr baki við fordómum og dæmir ekki aðra útfrá þjóðerni, litarhætti, kyni, kynhneigð eða öðrum yndislegum mun sem blessunarlega er að finna á fólki. Samborgarar heimsborgarans eru allir jarðabúar hvernig sem þeir annars eru. Heimsborgaranum er jafn hugað um hag sjálfs síns, næstu nágranna sinna og þeirra sem búa hinumegin á hnettinum. Staðsetning einstaklinga hefur engin áhrif á samkennd heimsborgarans því hann veit að við erum öll háð hvort öðru.

Aldrei fyrr hafa íbúar Jarðarinnar verið jafn háðir hvor öðrum en einmitt nú. Hagur og menntunarstig einnar þjóðar getur haft mikil áhrif á aðrar þjóðir og jafnvel á alla jarðarbúa. Þessi staðreynd kemur glögglega í ljós þegar við lítum á mengun, styrjaldarbrölt, hungursneyðir, fólksfjölgun og sjúkdómsfaraldra svo eitthvað sé nefnt. Allar þessar hamfarir eru tilkomnar vegna þess getuleysis sem maðurinn virðist þjást af þegar um samhug og samvinnu er að ræða.

Ein stærsta plága sem hrjáir mannkynið er þjóðernishyggja. Þjóðernissinni hugsar aðeins um hag eigin þjóðar og öll hans siðferðiskennd (sem oft er þó nokkur) er staðbundin og á aðeins við þegar um hagsmuni eigin þjóðar er að ræða.

Með því að stuðla að því að börnin okkar verði að heimsborgurum erum við að veita okkur þá bestu tryggingu sem siðmenning getur veitt sjálfri sér, því með þannig menntun tryggjum við að komandi kynslóðir taki ábyrgar ákvarðanir um öll mál, hvort sem þau varða nánasta nágrenni þeirra eða alla heimsbyggðina.

Markmið okkar hlýtur því gera börn okkar og um leið okkur sjálf að heimsborgurum og þar með að mannvinum sem geta sagt það sama og, Thomas Paine (1737-1809), einn merkasti mannvinur allra tíma sagði: „Heimurinn er föðurland mitt og góðverk eru mín trúarbrögð“.

I – Leikskólinn — II- Grunnskólinn — III – Framhaldsskólinn — IV – Nám á Háskólastigi

III – Framhaldsskólinn
Meginmarkmið okkar í framhaldsskólamálum eru skýr. Framhaldsskólinn á að vera markviss, lýðræðislegur og um leið fjölbreyttur skóli. Við teljum að það þurfi að gera ýmsar breytingar á núverandi framhaldsskólakerfi til þess að ofangreind markmið geti orðið að veruleika. Hér munum við því ræða hvaða breytingar við teljum æskilegar og hvers vegna.

Tilgangur framhaldsskólans
Framhaldsskólinn á að taka við af grunnskólanum og halda áfram við að undirbúa nemendur sína undir lífið í sem víðasta skilningi. Framhaldsskólinn á að vera fyrir alla og allir eiga að geta fundið nám við sitt hæfi á framhaldsskólastigi.

Afurð framhaldsskólans skulu vera rökfastir og sjálfstæðir einstaklingar sem hafa skýra hugmynd um umhverfi sitt, aðstæður og framtíðarmöguleika hvort er í starfi og/eða í frekara námi. Framhaldsskólinn á að vera góður stökkpallur inn í framtíð einstaklingsins.

Námsefni og aðstæður framhaldsskólanna þurfa að vera í samræmi við ofangreind markmið.

Ýmsar nauðsynlegar breytingar
Tillögur okkar að breytingum í framhaldsskólakerfinu eru eingöngu byggðar á þeim forsendum sem við gefum upp í kaflanum hér á undan. Framhaldsskólinn skal fyrst of fremst þjóna hag nemenda sinna og þar af leiðandi hag þjóðfélagsins í heild.

Gera þarf framhaldsnám að aðgengilegri og áhugaverðari kosti fyrir ungt fólk og koma þarf í veg fyrir hátt brotfall nemenda úr framhaldsnámi. Auka þarf skynsamlegt aðhald að nemendum, en ekki síður að starfsmönnum skólanna. Gera þarf framhaldsskólann að lýðræðislegum vinnustað. Það þarf í auknum mæli að taka tillit til skoðana nemenda og kennara á þeim starfsaðstæðum sem eru í skólunum og þeim starfsaðferðum sem þar eru notaðar.

Framhaldsskólinn gerður markvissari
Við leggjum til að námsefni skóla á framhaldsskólastigi verið endurskoðað með það fyrir augum að gera námið markvissara. Með þessu meinum við tvennt. Í fyrsta lagi þarf stórlega að auka val og bundið val á kostnað kjarnagreina. Í öðru lagi þarf að auka framboð á hagnýtum námsgreinum sem undirbúa nemendur beint undir framtíðaráform og daglegt líf.

Við viljum skipta námsgreinunum upp í þrjá flokka. Kjarnagreinar, sérgreinar og valgreinar (bundið og frjálst val). Hér fyrir neðan ætlum við að ræða um eðli þessara flokka og hvernig við viljum sjá þá nýtta. Miðað er við 4ra ára nám upp á 140 einingar.

Kjarnagreinar (45 einingar)
Kjarnagreinar eru samkvæmt skilgreiningu þær greinar sem allir nemendur þurfa að taka. Í kjarna er það námsefni kennt sem menntamálayfirvöld telja að sé nauðsynleg undirstaða fyrir alla þá er fara í gegnum framhaldsnám.

Það sem við teljum að sé nauðsynlegt að kenna í kjarna er eingöngu byggt á þeim gildum sem við teljum fram í kaflanum hér að ofan um tilgang framhaldsskólans.

Því teljum við rétt að í kjarna séu eftirfarandi áfangar kenndir:
Íslenska (6 einingar). Tryggja þarf að nemendur séu með undirstöðuatriði íslenskrar stafsetningu og málfræði á hreinu, enda er slík þekking nauðsynleg af margvíslegum ástæðum. Margir reka hér eflaust upp stór augu þegar þeir sjá aðeins 6 eininga ætlaðar fyrir íslenskukennslu í stað þeirra 15 eininga sem nú eru í kjarna. Ástæðan fyrir þessari skerðingu er tvíþætt. Annars vegar teljum við að þeim tíma sem ætlaður er fyrir kennslu í skriflegri tjáningu og/eða ritgerðasmíð sé betur fundinn staður annarsstaðar innan kjarnans (sjá ýmislegt). Hins vegar teljum við að þeim mikla tíma (a.m.k. 6 einingar) sem varið er í að kenna íslenskar bókmenntir og listir sé ekki réttur staður valinn í kjarna. Slíkt námsefni er að okkar mati ekki nauðsynlegt fyrir framtíðar áform hins almenna nemenda og á það því frekar heima í flokki valgreina.

Stærðfræði (6 einingar). Auk þess sem glíman við stærðfræði örvar rökhugsun þá er góð þekking í hagnýtri stærðfræði nauðsynleg hverjum þeim manni sem býr í nútímasamfélagi þar sem tölur stærðfræðikunnátta spila mikilvæg hlutverk, til að mynda í fjármálum. Við leggjum sterka áherslu á að í kjarna sé kennd hagnýt stærðfræði sem gagnast öllum þeim sem ekki hafa sérstakan áhuga á stærðfræði sem slíkri eða stærðfræðitengdu námi (t.d. raunvísindum). Önnur stærðfræði á heima innan sérgreina raunvísinda og valgreina.

Samfélagsgreinar (9 einingar). Það að skilja þróun samfélaga og byggingu þess samfélags sem við búum við í dag er nauðsynleg forsenda þess að geta tekið þátt í að móta jákvætt framtíðarsamfélag sem kemur í veg fyrir mistök fortíðarinnar, en endurtekur þau ekki. Rétt eins og í grunnskólanum skal tryggt að sagnfræðin og félagsfræðitengt nám sé kennd út frá forsendum heimsborgarans en ekki útfrá forsendum sérhagsmunahópa.

Vísindi/Náttúrufræði (6 einingar). Mikilvægt er að nemendum sé kennd vísindaleg vinnubrögð og undirstöðuþekking um það sem „vitað“ er um heiminn í kringum okkur. Við teljum einnig að nýta þurfi þá náttúrufræðikennslu sem kennd er í grunnskóla og kjarna framhaldskóla til þess að vekja almennan áhuga á vísindum og hagnýtingu þeirra. Þyngra og fræðilegra nám á, að okkar mati, betur heima innan sérgreina náttúrufræðinnar og valgreina.

Erlend tungumál (9 einingar). Við teljum að aðeins sé nauðsynlegt að skylda nemendur til þess að læra ensku í framhaldsskóla. Ástæðan fyrir þessu er einföld. Þekking í ensku hefur náð mikilli útbreiðslu í heiminum og gríðarlega mikið er til af fróðleik á enskri tungu, hvort sem hann er að finna í bókum, á internetinu, á myndböndum eða ýmiskonar tölvuhugbúnaði. Kunnátta í ensku tryggir því nemendum aðgang að miklum upplýsingum sem svo mikilvægar eru á upplýsingaöld.

Við leggjum jafnframt til að önnur tungumál verði gerð að valfögum á öðrum brautum en málabraut. Rökin fyrir þessum breytingum eru tvíþætt. Í fyrsta lagi teljum við að það sé ekki nemendum nauðsynlegt að læra önnur tungumál en ensku ef þeir hafa ekki áhuga á því og/eða það hindrar þá ekki í öðru námi sem þeir hyggjast leggja á. Í öðru lagi hefur það sýnt sig að nám í erlendri tungu skilar litlum árangri ef nemandinn verður ekki stöðugt fyrir nauðsynlegu áreiti frá því tungumáli (til dæmis býr í landi þar sem viðeigandi tunga er töluð eða er algeng í menningu) eða enginn áhugi er fyrir hendi.

Ýmislegt (9 einingar). Þekking á íslensku þjóðfélagi og hæfni í mannlegum samskiptum, rökhugsun og tjáningu hvort er í máli eða riti er a.m.k. jafn mikilvæg þeirri bóklegu þekkingu sem við höfum talið upp hér að ofan. Við leggjum til að nemendum verði kennt heimspeki, ræðulist, ritgerðasmíð og ýmislegt það sem tengist stjórnskipulagi Íslands (sem sagt uppbygging Alþingis, stjórnarskrá Íslands o.s.frv.).

Sérgreinar (50 einingar)
Til sérgreina teljast þau fög sem eru nauðsynleg fyrir nemandann að klára til þess að hann geti útskrifast af tiltekinni braut eða sviði. Hlutur sérgreina í námi þarf að okkar mati að vera töluverður þar sem þær snúa beint að áhuga og/eða framtíðaráformum nemandans. Því teljum við rétt að ef nemandinn kjósi t.a.m. að ljúka námi af félagsgreinasviði að þá þurfi hann að ljúka við u.þ.b. 50 eininga nám sem snýr beint að þeirri braut. Æskilegt er að hafa mismunandi stóran hluta þessara 50 eininga í bundnu vali. Með því að auka hlut sérgreina stígum við stórt skref í átt að gera skólann markvissari.

Val (45 einingar)
Að lokum leggjum við til að fjöldi valgreina verði stórlega aukin. Með því að auka fjölda valgreina gerum við nemendum kleyft að víkka sjóndeildarhring sinn með því að kynna sér fög sem tengjast ekki beint þeirra námi. Mikill fjöldi valeininga gerir nemendum einnig kleyft að prufa sig nokkuð áfram áður en sérsvið er valið án þess að þeir þurfi að lengja nám sitt. Samfara auknum fjölda valeininga leggjum við til að framboð á hagnýtum námsgreinum verði stórlega aukið.

Hagnýtar námsgreinar
Framhaldsskólinn á að undirbúa nemendur sína undir lífið og því er nauðsynlegt að framboð sé aukið af hagnýtum námsgreinum sem allir geta nýtt sér. Hér erum við að tala um fög eins og hagnýta hagfræði, grunnnámskeið í viðhaldi á bifreiðum, skyndihjálp, kynfræðslu, réttindi og skyldur í íslensku þjóðfélagi, gagnasöfnun, námstækni o.s.frv.

Lýðræði
Það er okkar mat að lýðræðisleg vinnubrögð á sem flestum sviðum innan veggja framhaldskólanna, sem og annars staðar, séu nauðsynleg ef tryggja á eðlilega framþróun. Í lýðræðisþjóðfélagi er eðlilegt að nemandinn (neytandinn) geti haft áhrif á þá skólastofnun sem hann starfar í.

Mat á kennurum
Kennarar eru án efa mikilvægustu starfsmenn skólanna. Því ber að gæta þess að þeir fái eðlilegt aðhald. Við teljum að nemendur séu best til þess fallnir að veita kennurum sínum aðhald þar sem frammistaða kennara hefur bein áhrif á velgengni þeirra í skóla.

Því leggjum við til að nemendum gefist kostur á því að meta kennara sína, við lok hverrar skólaannar, með hjálp sérhannaðs matsblaðs. Slík könnun yrði að fara fram undir nafnleynd og niðurstöður hennar ættu að vera skoðaðar af sérskipaðri nefnd þar sem kennarar, skólastjórnendur og ekki síst nemendur hafa sína fulltrúa.

Slíkar kannanir hafa marga augljósa kosti með sér. Í fyrsta lagi fá nemendur tækifæri til tjá sig um frammistöðu kennara sína hvort sem þeim þykir hún góð eða slæm. Í öðru lagi fá kennarar upplýsingar um það hvernig nemendum þykja kennsluaðferðir þeirra, hvað þeim þykir hjálplegt og hvað atriði þeim finnst að mætti bæta. En slíkar upplýsingar eru ómetanlegar fyrir metnaðarfulla kennara, rétt eins og próf og önnur verkefni eru ómetanleg fyrir metnaðarfulla nemendur. Í þriðja lagi fá skólastjórnendur beinar upplýsingar um þá hlutfallslega fáu kennara sem nemendur (og oft aðrir kennarar) telja að séu beinlínis ekki starfi sínu vaxnir. Í fjórða lagi auka slíkar kannanir við almennt lýðræði í framhaldsskólum og því verður framhaldsskólinn betur til þess fallin að búa nemendur undir virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi, en það er einmitt eitt af skilgreindum hlutverkum framhaldsskólans.

Mætingaskylda
Endurskoða þarf reglur um mætingaskyldu nemenda í framhaldsskólum. Við teljum að mætingaskylda sé á ýmsan hátt úrelt fyrirbrigði sem leggja eigi af, með nokkrum undantekningum, og viljum við leggja ýmis rök fyrir þeirri skoðun okkar.

Í fyrsta lagi eru nemendur í framhaldsnámi á eigin vegum og eiga því að bera ábyrgð á námi sínu sjálfir. Ef nemandi telur sig ekki þurfa á því að halda að mæta í tiltekinn áfanga þá ættu skólayfirvöld ekki að reyna að þvinga hann til þess. Nemandinn verður að fá að taka ábyrgð á þeim afleiðingum sem slök mæting getur haft í för með sér.

Í öðru lagi virðist sem að viðveruskylda í formi punkta- eða prósentukerfis hafi ekki skilað tilætluðum árangri, þ.e. auknum viðverum nemenda í tímum. Þvert á móti virðast nemendur margir hverjir nýta sér punkta- eða prósentukerfið sem einhverskonar kvóta á „skróp“, og eins og flestir vita þá er kvóti verðmætastur fullnýttur. Hugmynd skólayfirvalda með mætingarskyldu er vitaskuld meðal annars sú að fá nemendur til þess að mæta í nógu marga tíma til þess að þeir læri eitthvað af kennsluefninu (a.m.k. nóg til þess að ná áfanganum). Hugsunarháttur þeirra nemenda sem mætingakerfinu er ætlað að „þjóna“ virðist hins vegar oft á tíðum vera töluvert frábrugðinn þar sem oft vill bregða við að þeir mæti tíma, ekki vegna þess að þeir telja sig þurfa á frekari kennslu að halda, heldur vegna þess að þeir vilja ekki falla á mætingu. Þetta getur, og hefur að okkar mati, haft þau áhrif að sumir nemendur hafa meiri áhyggjur af mætingaeinkunnum sínum en námi.

Í þriðja lagi eru kostir frjálsar mætingar þó nokkrir. Afburðarnemendur og þeir sem ekki stefna að hæstu einkunn í viðkomandi áfanga geta nýtt tíma sinn á öðrum vettvangi og um leið fá þeir nemendur sem mæta í tímana og vilja fá aðstoð aukna athygli kennarans.

Nemendafélög
Samfara þeirri viðleitni framhalsskólanna að undirbúa nemendur undir störf í lýðræðisþjóðfélagi teljum við að stuðla eigi að því að nemendafélög framhaldsskólanna verði að hagsmunasamtökum nemenda en þau starfi ekki einungis sem skemmtinefndir eins og virðist vera aðaltilgangur þeirra víðast hvar í dag

Við leggjum einnig til að kosnir fulltrúar nemenda fá setu- og kosningarétt á skólastjórnarfundum um þau mál er varða hagsmuni nemenda.

Slíkt fyrirkomulag styrkir lýðræðiskennd nemenda og hvetur þá til þess að láta að sér kveða og hafa áhrif á eigin aðstöðu í gegnum lýðræðisleg vinnubrögð.

Fallskattur
Um leið og við teljum að mæting í skólum eigi að vera frjáls og á ábyrgð einstaklingsins, þá teljum við að nauðsynlegt sé að nemendur borgi einhverskonar fallskatt ef þeir falla í áföngum, en þó ekki fyrr en eftir að nemandinn hefur fallið í 5-10% þeirra faga sem í skólagöngu hans eru. Í 140 eininga námi væri hér því um að ræða fallskatt eftir að hafa fallið í 7-14 einingum. Eðlilega geta allir gert mistök og því verður að reikna með því. Ef hins vegar nemendur eru staðnir að því að falla sí ofan í æ, og fara þar með yfir 5-10% markið þá teljum við að rukka ætti þá um svokallaðan fallskatt. Slíkur fallskattur ætti að draga úr því að nemendur falli vegna leti og áhugaleysis.

Nemendur sem falla vegna námsfatlanna (til dæmis lesblindu) ættu ekki að þurfa að borga fallskatt.

Námsver
Með tilkomu fallskatts verður að tryggja það að þeir sem eiga við raunverulega námsörðugleika að stríða lendi ekki í því að borga aukalega fyrir sitt nám vegna þess. Þess vegna verður að tryggja öllum nemendum val á aukalegri aðstoð utan tíma í svokölluðum námsverum. Námsverum þessum er að okkar mati best fundin tími jafnt á miðjum skóladegi sem og á eftir skóla. Ekki búa allir yfir þeirri gæfu að hafa tíma eftir venjulegan skólatíma til að leita sér námsaðstoðar og því verður að koma til móts við þá aðilla með því að hafa vandað námsver, þar sem bæði kennarar og eldri nemendur veita nemendum aðstoð, á venjulegum skólatíma.

I – Leikskólinn — II- Grunnskólinn — III – Framhaldsskólinn — IV – Nám á Háskólastigi

IV – Nám á Háskólastigi
Mannshugurinn er sú verðmætasta og jafnframt sú hreinasta auðlind sem til er, en eins og er með aðrar auðlindir þá skilar hún engum ágóða nema hún sé virkjuð. Fjármunir sem eru lagðir í virkjun mannshugans eru fjárfesting sem ávallt skila sér margfalt til baka, hvort sem litið er til nánustu framtíðar eða til langs tíma. Aukin þekking og öflugt vísinda- og rannsóknastarf eru nauðsynlegar forsendur framfara á flestum sviðum þjóðfélagsins. Því ber hverju þjóðfélagi að stefna að því að byggja öflugt nám á háskólastigi. Þekking og skynsemi eru lyklarnir að velgengni í upplýsinga- og tækni samfélagi framtíðarinnar og því er að afar mikilvægt að stjórnvöld leggi allt sitt afl á vogaskálarnar til þess hér byggist upp öflugt menntakerfi. Níska hvað varðar fjárútlát til menntamála er líklegast sú vitlausasta sparnaðaraðferð sem hægt er að hugsa sér.

Raunverulegt jafnrétti til náms
Stjórnvöld skulu ávallt tryggja öllum þegnum sínum fullt jafnrétti til náms. Hér er ekki aðeins um að ræða lagalegt jafnrétti til náms. Það eitt og sér getur orðið lítils virði ef búseta og fjárhagur koma í veg fyrir að fólk geti notfært sér rétt sinn.

Engin skólagjöld
Þess vegna höfnun við skólagjöldum, sama hvaða nafni þau nefnast, á öllum skólastigum. Skólagjöld, þó þau séu tiltölulega lág í dag, geta sett ýmsar skorður við möguleikum fólks til náms. Búast má við að ef haldið verður áfram á þeirri braut, sem viss öfl í þjóðfélaginu hafa markað, að auka greiðslubyrði nemenda muni menntun verða með þeim hætti að margir hrökklist frá námi vegna fjárskorts. Það má ekki gerast því það er missir einstaklingsins en ekki síður missir þjóðfélagsins. Enda kemur það í veg fyrir að á Íslandi búi „vinnandi stétt menntaðra manna“.

Dreifbýlisstyrkir
Þar sem framhaldsnám, þó sérstaklega á háskólastigi, kemur um fyrirsjáanlega framtíð helst til með að standa til boða í stærstu byggðakjörnum er rétt að stjórnvöld komi til móts við þarfir fólks sem býr fjarri menntastofnunum. Fjarnám hefur marga kosti í för með sér en er þó ófullnægjandi sem heildarsvar við þörfum nemenda í dreifbýli og smærri byggðakjörnum. Teljum við rétt að hið opinbera bjóði upp á dreifbýlisstyrki, sem dugi hið minnsta fyrir flutningskostnaði, en taki einnig mið af öðrum aðstæðum sem búseta fjarri menntastofnunum mótar.

Lánasjóður íslenskra námsmanna
Forsenda þess að nám á háskólastigi verði það útbreitt að það sé þjóðinni til sóma og framdráttar er að hér verði rekinn öflugur lánasjóður námsmönnum til aðstoðar. Lán skulu nægja námsmönnum til framfærslu á meðan á námi stendur, en ýmislegt bendir til þess að núverandi lán dugi í mörgum tilfellum ekki til framfærslu nemenda. Námslán eiga ekki að skerðast, nema í versta falli að takmörkuðu leyti, vegna launa námsmanna. Núverandi kerfi þar sem árstekjur sem nema sumarstarfi í þrjá mánuði á lágmarkslaunum verða til að skerða námslán er ekki aðeins vafasamt, þar sem það hvetur til undanskota frá skatti og letur fólk frá vinnu, heldur er það þeim sem að því standa til háborinnar skammar.

Aðstæður til náms
Stjórnvöld skulu sjá til þess að nemendur búi við góðar vinnuaðstæður og góðan tækjakost. Forsendur þess að nemendur geti lært er að góðar aðstæður séu fyrir hendi þar sem nemendur geta lesið og leyst önnur þau verkefni sem nám þeirra krefst. Tölvur og ýmis annar tækjakostur er nauðsynlegur fyrir nám á háskólastigi. Því ber að tryggja að nemendur hafi aðgang að góðum tölvum og öðrum tæknibúnaði.

I – Leikskólinn — II- Grunnskólinn — III – Framhaldsskólinn — IV – Nám á Háskólastigi

Deildu