Skólinn og vímuefnin

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/05/1998

21. 5. 1998

Meðlimir ritstjórnar viðra hugmyndir sínar um hvernig má taka á vímuvandanum með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Hvers vegna gengur okkur svona illa að berjast við vímuefnavandann? Er það vegna þess að hann er ósigrandi andstæðingur? Nei, það er fyrst og fremst vegna þess að við erum ekki að nota þær aðferðir sem eru líklegar til þess að sigrast á honum!


Hver eru viðbrögðin?
Í dag beitum við fyrst og fremst tveimur úrræðum: löggæslu og forvörnum. Með hertri löggæslu og þar með tollgæslu er reynt að hindra dreifingu vímuefna annars vegar og innflutning þeirra hins vegar. Þessar aðgerðir hafa hins vegar ekki skilað tilætluðum árangri. Innflutningurinn heldur áfram og alltaf eru einhverjir reiðubúnir að halda vímuefnainnflutningi og –sölu áfram þó svo aðrir séu handteknir. Hitt úrræðið er forvarnir, þar sem reynt hefur verið að útrýma markaðnum með fræðslu um hætturnar sem fylgja vímuefnanotkun.

Þetta markmið hefur greinilega ekki náðst og mun líklega ekki nást ef forvarnir halda áfram í þeirri mynd sem þær eru í nú. Hræðsluáróður virkar mjög takmarkað. Flestir vita að vímuefni eru hættuleg bæði andlegri og líkamlegri heilsu en samt heldur fólk áfram að neyta þeirra. Fræðsla sem beinist að skynsemi manna er eðli sínu samkvæmt mun skynsamlegri leið en hræðsluáróður til þess að halda ungu fólki frá vímuefnum.

Áróður og fræðsla um vímuefnin og afleiðingar þeirra er hins vegar engan veginn nóg til þess að koma í veg fyrir neyslu þeirra. Það er eins og áður hefur verið sagt, í flestum tilvikum, ekki vegna vanþekkingar á vímuefnunum sem fólk neytir þeirra heldur er það öllu frekar vegna félagslegs vanþroska þess. Eigum við þá við óöryggi, lítið sjálfstraust, feimni og/eða aðrar vanmáttartilfinningar sem eru gríðarlega algengar hjá ungu fólki. Þegar svona er komið fyrir fólki þá brýst eðlilega út þörf hjá þeim til þess að losna við þessar vanmáttartilfinningar. Þá verða áfengi og önnur vímuefni því miður oft fyrir valinu sem „lausn“ á vandamálinu eða sem einhverskonar veruleikaflótti.

Vandamálið er því ekki endilega að finna í vímuefnunum sjálfum né, að neinum stórum hluta, í vanþekkingu á þeim, heldur í félagslegum vanþroska þeirra sem freistast til þess að neyta þeirra. Því hlýtur það að vera skylda okkar (samfélagsins) að bregðast við með öðrum hætti en hingað til hefur verið reynt.

Hvernig á að bregðast við?
Við teljum rétt að skólakerfið verði stokkað upp og áherslum breytt frá því sem nú er. Skólinn á að auka möguleika einstaklingsins til þess að lifa hamingjusömu lífi. Þetta reynir skólinn í dag aðallega að gera með því að mennta einstaklinginn þannig að hann sé betur í stakk búinn til þess að starfa í nútímasamfélagi. Menntun þessi felst m.a. í því að kenna börnum að lesa, skrifa og reikna, auk þess sem börnin eru látin læra sagnfræði, ensku, dönsku, íþróttir, smíði, saumar, myndmennt, heimilisfræði og sitt hvað fleira sem almennt er talið að auki þroska og möguleika einstaklingsins.

Skólakerfið í dag vanrækir hins vegar það sem mikilvægast er og ætti að vera einn aðaltilgangurinn með námi. Það er að kenna börnum að vera manneskjur. Að kenna þeim að bera umhyggju hvert fyrir öðru (siðfræði), að hvetja þau til þess að leita sannleikans með því að hugsa sjálfstætt og um leið að vera gagnrýnið á eigin skoðanir (rökhugsun) og að hjálpa þeim til þess að geta tjáð skoðanir sínar og hugsanir á fimlegan og röklegan hátt jafnt sem hlustað á skoðanir annara (tjáning). Skólakerfið vanrækir algjörlega að kenna börnum hvernig þau eiga verða að góðum manneskjum. Skólinn kennir börnum okkar ekki hvernig best sé að lifa.

Skólakerfið í dag bregst að stórum hluta því hlutverki sínu að búa nemendur undir lífið. Lítil sem engin áhersla er lögð á sjálfstæði nemenda. Nám í tjáningu mætir afgangi. Oft finnst okkur sem lýsa mætti núverandi skólastefnu þannig að hún einkennist af sestu-niður-haltu-kjafti hugsun. Það er ekki ætlast til að börn sýni frumkvæði og þau eru of sjaldan hvött til að leita svara við spurningum sínum.

Við teljum nauðsynlegt að þessu verði breytt. Sjálfstæðir og rökfastir einstaklingar sem skilja afleiðingar, og orsakir, gerða sinna eru líklegri til að standast vímuefnin en að falla fyrir þeim. Það er oft rætt um áhrifagirni barna, að þau lendi í slæmum félagsskap og villist af leið. Minna hefur hins vegar verið gert til að bregðast við þessu. Með því að breyta skólakerfinu þannig að meiri áhersla sé lögð á mótun og styrkingu einstaklingsins, andlega jafnt sem líkamlega, tökumst við á við vandann og eygjum raunverulegan möguleika á að sigrast á honum.

Við getum notað skólakerfið til að efla sjálfsvitund barnanna okkar. Það væri fráleitt að gera það ekki.

Spurning til menntamálayfirvalda
Er það raunverulegur vilji yfirvalda að vernda börn okkar og unglinga fyrir vímuefnum, reykingum, ofbeldi og áhrifagirni með því að gera þau að sterkari og hamingjusamari einstaklingum? Ef svo er þá verða yfirvöld að byggja nýtt skólakerfi þar sem tjáning, rökfræði og siðmennt er daglegt brauð. Núverandi slagorðapólitík skilar engu.

Sigurður Hólm Gunnarsson
Brynjólfur Þór Guðmundsson

Deildu