Er í lagi að kennarar kunni ekki að kenna?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/02/1996

21. 2. 1996

Hvenær fáum við að gefa kennurum einkunnir í samræmi við árangur? FLESTIR námsmenn hafa sennilega lent í því á einum eða öðrum tíma að vera í „kennslu“ hjá kennurum sem virðast ekki kunna að kenna. Námsmenn hafa margir hverjir lent í því að hafa kennara sem drepa niður allan áhuga nemenda á námsgrein sem þeir […]

Hvenær fáum við að gefa kennurum einkunnir í samræmi við árangur?
FLESTIR námsmenn hafa sennilega lent í því á einum eða öðrum tíma að vera í „kennslu“ hjá kennurum sem virðast ekki kunna að kenna. Námsmenn hafa margir hverjir lent í því að hafa kennara sem drepa niður allan áhuga nemenda á námsgrein sem þeir voru áður mjög áhugasamir fyrir. Sumir hafa jafnvel lent í því að kennarar hafi hæðst að þeim og gert lítið úr þeim fyrir framan „bekkinn“.


Spurningin sem við hljótum að spyrja okkur hlýtur að vera sú hvort það sé í lagi að kennarar kunni ekki að kenna. Nemendum eru lagðar margar skyldur á herðar. Það eru gerðar kröfur um að nemendur sinni námi sínu, skili verkefnum, mæti í tíma og nái tilskildum lágmarksárangri.

Kennarar og kröfur til þeirra
Nú spyrjum við: Eru gerðar kröfur til kennara? Ef svo er: Hverjar eru þær og hvers vegna er þeim ekki framfylgt?

Kennarar fá greitt fyrir undirbúningsvinnu. Það þýðir að þeir eigi að kynna sér efnið sem þeir eru að kenna og hafa tilbúnar glósur (eða einhver svipuð hjálpartæki). Okkur virðist það einnig vera sjálfsögð krafa að kennarar séu æfðir í því að koma efni því sem þeir eru að kenna skýrt og skilmerkilega frá sér.

Kann kennarinn þinn, einhver vina þinna eða barna efnið sem hann er að kenna? Er hann með skipulagðar glósur? Kemur hann efninu skýrt og skilmerkilega frá sér? Gerir hann lítið úr nemendum sínum?

Við gerum okkur grein fyrir því að kennsla er erfitt starf. Þess vegna er mikilvægt að til starfsins ráðist hæfir einstaklingar. Með þessum orðum okkar erum við ekki að segja að það eigi að hreinsa út í kennarastéttinni. Það sem við viljum að verði gert er að kennurum sem hafa átt í vandræðum með kennslu sína verði boðið tækifæri til að bæta það sem er ábótavant. Með þessu meinum við að kennurum sem gengur illa að koma efninu frá sér verði boðið upp á námskeið til að bæta það. Við viljum að kennurum sem eiga í vandræðum með að gera skipulagðar glósur verði boðin hjálp við að lagfæra það. Við viljum að kennarar sem ekki kunna efnið sem þeir kenna verði skyldaðir til að kynna sér það.

Ef þessi þrjú atriði verða ekki bætt er það okkar mat að kennarinn og viðkomandi skólayfirvöld verði að hugsa alvarlega um framtíð þess aðila í starfi. Það er sagt að menntun sé ein mesta auðlind þjóðarinnar. Hún er okkur dýrmætari en svo að við getum leyft okkur að stofna henni í hættu vegna ónógra hæfileika þeirra sem eiga að uppfræða nemendur, fólkið sem á eftir að fara út á vinnumarkaðinn, stofna fyrirtæki, taka þátt í uppbyggingu landsins og jafnvel taka við stjórnartaumum íslenska ríkisins.

Ef þú rekur fyrirtæki og færð kvartanir frá neytendum vegna starfsmanns athugar þú hvort kvartanirnar séu á rökum reistar og ef svo er gefur þú honum (vonandi) tækifæri til að bæta sitt ráð. Ef kvartanirnar halda áfram að berast þrátt fyrir aðgerðir þínar kemur því miður aðeins eitt til greina: Það er að láta hann fara. Ef þú gerir það ekki getur þú átt von á að missa viðskiptavini og þar af leiðandi minnkandi hagnað fyrirtækisins. Þess vegna spyrjum við: Hvað er kennari annað en starfsmaður, nemandi annað en neytandi og góð menntun annað en hagur þjóðarinnar?

Hvað er hægt að gera?
Hvaða leiðir eru færar til að komast að því hvaða kennarar þurfa að taka sig á og á hvaða sviðum? Í Háskóla Íslands, jafnt sem í mörgum öðrum háskólum í hinum siðmenntaða heimi, er sú venja höfð að nemendur fái að gefa kennurum sínum einkunn eftir frammistöðu. Skólayfirvöld skulu síðan meta til hvaða ráðstafana skuli gripið. Með þessu vinnst minnsta kosti tvennt. Í fyrsta lagi fá nemendur tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri. Í öðru lagi fá skólayfirvöld með þessu aukna þekkingu á frammistöðu kennara sem þau geta nýtt sér við úthlutun kennslustunda næstu annar.

Of margir kennarar, sem ekki eru starfi sínu vaxnir, starfa nú þegar við skóla landsins og er það alger óvirðing við nemendur að kvörtunum þeirra sé að miklu leyti sópað undir ríkisteppið án þess að nokkuð sé að gert.
Einnig er rétt að benda á það að nám íslenskra nemenda í framhaldsskólum landsins kostar íslenskan skattgreiðanda tugi þúsund á ári hverju og er það því sjálfsögð krafa að peningum hans sé varið skynsamlega, og er eina leiðin til þess aukið gæðaeftirlit.

Árás eða ábending?
Við eigum rétt á betri kennslu og við eigum möguleika á að ná fram umbótum á kennslumálum hérlendis. Það eina sem við þurfum er vilji og samtakamáttur. Fyrir nokkru voru stofnuð Samtök áhugamanna um bætta kennslu. Samtökin hafa það að markmiði að vinna að hærri gæðastuðli kennslu í skólum landsins.
Fyrsta skrefið í áttina að því markmiði er undirskriftaherferð sem hófst nýlega í framhaldsskólum landsins þar sem nemendur krefjast þess að þeir fái að gefa kennurum einkunnir í samræmi við frammistöðuna.

Það er vilji aðstandenda samtakanna að sem flestir taki þátt í starfi samtakanna. Áhugasömum aðilum er bent á að hægt er að senda inngöngubeiðnir og fyrirspurnir til samtakanna í pósthólf 3223, 123 Reykjavík.

Brynjólfur Þór Guðmundsson, afgreiðslumaður
Sigurður Hólm Gunnarsson, nemi, eru í Samtökum áhugafólks um bætta kennslu.

Þessi grein var birt í Morgunblaðinu þann 21. febrúar 1996.

Deildu