Valið er skýrt – Borgarstjórnarkosningar 2018

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

17/05/2018

17. 5. 2018

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei viljað í raun efla félagslega þjónustu enda hefur valdafólk þar óbeit á samneyslu. Það vill fyrst og fremst lækka skatta og að hver sjái um sig. Í kosningabaráttu þykjast þeir vera sósíalistar. Þeir segjast ætla að bæta hitt og þetta með sósíalískum aðferðum (með því að nota skattfé) en í reykfylltum bakherbergum ræða þeir lágmarksríkið, fullyrða að skattlagning sé ofbeldi, dásama brauðmolakenninguna og tilbiðja Ayn Rand.

Fylgist með því í komandi kosningabaráttu hvaða mál verða í brennidepli rétt fyrir kosningar í borginni (og í raun alls staðar á landinu). Ég spái því að lofað verður framkvæmdum fyrir opinbert fé og að og að ýmis velferðarmál verði sett í forgang (auk andstöðu Sjálfstæðisflokksins í borginni við Borgarlínu sem er í hróplegu ósamræmi við stefnu flokksins í öðrum sveitarfélögum).

Sjálfstæðisflokkurinn mun einnig boða skattalækkanir. Flokkurinn boðar alltaf skattalækkanir. Enda hagnast hinir ríku yfirleitt á þeim á meðan almenningur tapar. Skemmtileg þversögn þar sem nær allar umbætur kosta peninga.

Ekki falla fyrir gylliboðum Sjálfstæðisflokksins, og annarra íhaldsflokka, þegar kemur að velferð, bættri þjónustu og félagslegum umbótum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei viljað í raun efla félagslega þjónustu enda hefur valdafólk þar óbeit á samneyslu. Það vill fyrst og fremst lækka skatta og að hver sjái um sig. Í kosningabaráttu þykjast þeir vera sósíalistar. Þeir segjast ætla að bæta hitt og þetta með sósíalískum aðferðum (með því að nota skattfé) en í reykfylltum bakherbergum ræða þeir lágmarksríkið, fullyrða að skattlagning sé ofbeldi, dásama brauðmolakenninguna og tilbiðja Ayn Rand.

Fullkomnun næst sjaldnast í stjórnmálum og því væri fjarstæða að halda því fram að núverandi borgarstjórnarmeirihluti hafi staðið sig fullkomlega. Ef ég fengi einhverju ráðið yrði mun meiri áhersla lögð á velferðarmál. Tryggja öllum mannsæmandi kjör og öruggt húsaskjól í samstarfi við ríkisvaldið.

Þeir flokkar sem nú stýra borginni undir forystu Samfylkingarinnar hafa þó í alvörunni áhuga og vilja til þess að nýta samneysluna til að bæta líf hins almenna borgara og hafa gert það. Í veipfylltum bakherbergjum á fundum Samfylkingarinnar er talað um hvernig hægt sé að nýta samneysluna betur til að bæta kjörin og berjast fyrir aukinni mannúð í samfélaginu. Þar er hlegið að Ayn Rand og afsönnuðum brauðmolakenningum.

Eini möguleiki Sjálfstæðisflokksins til að ná völdum í borgarstjórn er í samstarfi við Miðflokkinn, Flokki fólksins og Viðreisnar (sem er reyndar meira umburðarlynt frjálshyggjuafl frekar en íhald). Núverandi stjórnarflokkar hafa sem betur fer engan áhuga á að vinna með Sjálfstæðisflokknum.

Valið fyrir borgarstjórnarkosningar í ár er því óvenju skýrt. Valið er í raun milli Sjálfstæðisflokksins í samvinnu við aðra íhaldsflokka annars vegar og velferðarstjórnar núverandi stjórnarflokka undir forystu Samfylkingarinnar.

Okkar er valið.

Deildu