Tryggjum öllum öruggt húsnæði og sparnað í leiðinni

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

28/05/2018

28. 5. 2018

Íbúðir skulu leigðar ódýrt, langt undir fáránlega háu markaðsverði, til allra sem upplifa ákveðin skilyrði. Til þeirra sem hafa takmarkaða greiðslugetu, til þeirra sem standast ekki greiðslumat, ungs fólks, nema, öryrkja og annarra sem eiga mjög erfitt með að spara fyrir útborgun í íbúð. Hluti leigunnar er skyldusparnaður sem fólk getur tekið út að leigutíma loknum og nýtt sem útborgun í eigin húsnæði. Þannig gæti fólk verið í öruggu leiguhúsnæði í nokkur ár og sparað um leið.

Fátt eykur lífsgæði fólks meira en að eiga öruggt húsaskjól og möguleika til að spara. Pólitíkusar sem hafa einhvern áhuga á almennri velferð ættu að einhenda sér í að útvega öllum sem þurfa húsnæði á viðráðanlegu verði. Hægt væri að slá tvær flugur í einu höggi með því að innleiða skyldusparnað í leiðinni.

Hér er hugmynd. Sveitarfélög, í samvinnu við ríki og stéttarfélög bjóða út uppbyggingu á ódýrum en vistlegum fjölnota einingarhúsum víðs vegar um borgina og í öðrum sveitarfélögum eftir atvikum. Húsin eiga alls ekki að vera á einum stað því forðast skal að útbúa „fátæktarhverfi“.

Íbúðir skulu leigðar ódýrt, langt undir fáránlega háu markaðsverði, til allra sem upplifa ákveðin skilyrði. Til þeirra sem hafa takmarkaða greiðslugetu, til þeirra sem standast ekki greiðslumat, ungs fólks, nema, öryrkja og annarra sem eiga mjög erfitt með að spara fyrir útborgun í íbúð. Hluti leigunnar er skyldusparnaður sem fólk getur tekið út að leigutíma loknum og nýtt sem útborgun í eigin húsnæði. Þannig gæti fólk verið í öruggu leiguhúsnæði í nokkur ár og sparað um leið.

Engin krafa er gerð um að hætta að leigja og kaupa íbúð því fólk verður að hafa val um hvernig það býr. Raunveruleikinn er þó sá að nánast eina raunhæfa leið almennings til að „spara“ er að fjárfesta í steinsteypu. Fólk með lágar tekjur er fast á rugluðum leigumarkaði þar sem það borgar jafn mikið, reyndar oftast mun meira, í leigu en það þyrfti að greiða mánaðarlega í afborganir af eigin húsnæði. Húsnæði sem það getur ekki sparað fyrir af því það er ekkert eftir af laununum eftir að búið er að borga fyrir helstu nauðsynjar og himinháa leigu.

Úrræði sem þetta kostar töluverða fjármuni en er félagsleg leið til að aðstoða fólk sem hefur það verst í samfélagi okkar. Úrræði sem þetta gæti bætt lífsgæði fjölda fólks, veitt þeim öryggi og gefið þeim von um betri tíma.

Áður en fólk fullyrðir að aðgerð sem þessi sé allt of kostnaðarsöm skal hafa eftirfarandi í huga:

Fólk sem kæmist í leiguhúsnæði á þessum forsendum hefði þá væntanlega meira lausafé á milli handanna á hverjum tíma þar sem það borgar lægri leigu en hinum „frjálsa“ markaði. Allt þetta aukafé færi beint út í hagkerfið því ólíkt auðkýfingum sem vita ekki hvað þeir eiga að gera við peningana sína ver venjulegt fólk nánast öllum sínum peningum í nauðsynjar og jafnvel afþreyingu.

Með þessari aðgerð væri einnig hægt að draga úr fjölgun öryrkja, fjölda fólks á sem þiggur fjárhagsaðstoð og fjölda þeirra sem verða óvinnufærir vegna veikinda og vansældar sem fylgir því að búa í samfélagi sem veitir þeim enga von. Eins og kapítalistarnir segja þá „kostar að græða“. Til lengri tíma gætu aðgerðir sem þessar dregið úr útgjöldum hins opinbera.

Allir græða.

Deildu