Jól og borgaraleg ferming: Dæmisaga um bjálkann og flísina

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/04/2018

25. 4. 2018

Orðið jól er alls ekki kristilegt hugtak heldur að öllu leyti heiðið heiti sem Kristnir tóku síðar upp (stálu?) yfir hátíð sem með réttu kallast Kristsmessa. Heiðingjarnir sem héldu upp á jólin, löngu fyrir meinta fæðingu Jesú, gerðu sér glaðan dag 25. desember. Þeir gáfu gjafir, hengdu upp mistilteina og skreyttu tré. Kannist þið við þessar „kristnu“ hefðir?

Á hverju ári þarf fjöldinn allur af fólki að gagnrýna Siðmennt fyrir að nota orðið „ferming“ í borgaralegri fermingu. Siðmennt er sakað um að „stela“ kristilegu hugtaki yfir athafnir sínar. Þetta er beinlínis rangt eins og ég kem að síðar. Það sem er merkilegra er að sama fólk gagnrýni kirkjuna aldrei fyrir að nota heiðna heitið „jól“ yfir Kristsmessu.

Talandi um bjálkann og flísina…

Um orðið ferming
Orðið ferming er ekki bara kirkjulegt. Þeir sem halda slíku fram fara einfaldlega með rangt mál. Ferming er dregið af latneska orðinu „confirmare“ sem táknar m.a. að styrkja eitthvað. Hugtakið ferming á sér langa sögu áður en kristnir menn byrjuðu að nota það til að lýsa athöfn sem við þekkjum öll vel í dag. Stálu kristnir orðinu „ferming“. Nei, ekki beinlínis. Þeir nýttu gamalt hugtak til að lýsa eigin athöfn.

Í stuttu máli má segja að með borgaralegri fermingu sé verið að styrkja þann sem vill vera siðferðilega sterkur og ábyrgur borgari. Eins má segja að með kristilegri fermingu sé verið að styrkja þann sem vill vera siðferðilega sterkur og ábyrgur í sinni trú. Yfirleitt hafa viðbrögð fólks við hugtakinu borgaraleg ferming verið mjög jákvæð. Erlendis er ferming, öðru nafni „konfirmation“, notað yfir borgaralega athöfn. Þannig hefur „borgerlig konfirmation“ hefur sem dæmi tíðkast í Danmörku frá árinu 1913.

Niðurstaða:
Ferming er ekki kristilegt hugtak og það er ofureðlilegt að aðrir noti hugtakið.

Um orðið „jól“
„Jól“ er heiðið heiti sem kristnir tileinkuðu sér síðar og notuðu yfir hátíð sem með réttu ætti að kallast Kristsmessa. Reyndar notar enskumælandi fólk rétt hugtak, Christmas.

Kristnir „stálu“ ekki aðeins þessu orði heldur líka hátíðinni sem slíkri. Hvergi er talað um jól eða Kristsmessu í biblíunni. Jólin (Kristsmessa) er alfarið byggð á gamalli heiðni hátíð. Það var árið 46 f.o.t. sem Júlíus Sesar rómarkeisari ákvað að taka upp júlíaníska dagatalið í Rómarveldi. Vetrarsólstöðurnar og nýtt ár hófst þannig þann 25. desember og lýsti Sesar þann dag sem „Dag hinnar ósigruðu sólar“. Kristnir tóku síðar upp þessa hátið og breyttu síðar nafni dagsins í „Dag hins ósigraða sonar“.

Mun síðar, árið 354, er talið að Líberíus biskup í Róm hafi ákveðið að 25. desember yrði gerður að opinberum fæðingardegi Jesús enda vissi enginn hvenær Jesú átti að hafa fæðst. Því var talið heppilegt að hafa fæðingardaginn á sama tíma og vinsælar sólstöðuhátíðir sem þegar voru haldnar.

Í Rómarveldi var ár hvert haldin stórhátíð á vetrarsólstöðum. Sú hátið var kölluð Saturnalia og var kennd við Satúrnus, guð landbúnaðarins. Hátíðarhöldin stóðu almennt yfir frá 17. til 24. desember. Þann 25. desember var síðan haldin mikil veisla sem kölluð var Brumalia og var hápunktur hátíðarinnar.

Heiðingjarnir sem héldu upp á jólin, löngu fyrir meinta fæðingu Jesú, gerðu sér glaðan dag 25. desember. Þeir gáfu gjafir, hengdu upp mistilteina og skreyttu tré. Kannist þið við þessar „kristnu“ hefðir?

Niðurstaða:
Orðið jól er alls ekki kristilegt hugtak heldur að öllu leyti heiðið heiti sem Kristnir tóku síðar upp (stálu?) yfir hátíð sem með réttu kallast Kristsmessa.

Þegar kristið fólk ætlar næst að gagnrýna að Siðmennt bjóði upp á borgaralega fermingu skal það líta í eigin barm og huga að orðum Jesú:

Hvernig færð þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð ekki bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns. Lúk 6.36-42

 

Deildu