Efast á kránni 26. febrúar 2018
Ég tók þátt í samtali um umskurð drengja með Bjarna Karlssyni presti á viðburði sem kallast Efast á kránni í gær. Ég var ekki með ritað erindi en kjarninn í minni framsögu var þessi.
Umskurður drengja er óþarfa, óafturkræf, sársaukafull og stundum hættuleg aðgerð.
Spurningin sem við þurfum að svara er hvort það sé siðferðilega rétt að leyfa slíkar aðgerðir. Mitt svar er nei.
Eitt mikilvægasta markmið stjórnvalda er að vernda þá sem eru veikastir fyrir og geta ekki varið sig sjálfir. Foreldrar og forráðamenn eru verndarar barna en ekki eigendur þeirra. Því verður aldrei hægt að réttlæta líkamlega né andlega misnotkun barna með þeim rökum að foreldrar ráði yfir börnum sínum.
Það eru ekki næganlega góð rök að það eigi ekki að vernda börn því það kunni að útiloka suma trúar- og menningarhópa. Höfum í huga að umskurður er alls ekki alltaf framkvæmdur vegna trúar heldur einnig í skjóli menningar og venju.
Mikilvægt er að tryggja trúfrelsi allra og virða ólíkar venjur. Ég fagna því að Ísland verði fjölmenningarlegra og fjölbreyttara samfélag. Í raun tel ég að það felist mikill félagsauður með því að á Íslandi búi fólk með ólíkar skoðanir, ólíkar siðavenjur og ólíkar hugmyndir um lífið og tilveruna. Við lærum og græðum mest á því að þurfa að takast á um og skilja ólíkar hugmyndir.
Þó trúfrelsi og virðing fyrir venjum sé mikilvæg þá trompa trúfrelsi og venjur aldrei almenn mannréttindi. Enginn hefur rétt á því að skaða aðra í nafni trúfrelsis.
Það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi um breytingu á almennum hegningarlögum er ekki fullkomið frekar en önnur mannana verk og líklegast á það eftir að taka einhverjum breytingum í þinglegri meðferð.
Að því sögðu tel ég að eðlilegt að banna með lögum óþarfar, óafturkræfar, sársaukafullar og stundum hættulegar aðgerðir á börnum.
Trúfrelsisrök duga ekki til að réttlæta umskurð barna. Réttur ómálgra barna til að eiga kynfæri sín í friði er mikilvægari en trúfrelsi foreldrana. Um leið má ekki gleyma því að það eru ekki aðeins fullorðnir sem eiga að njóta trúfrelsis. Börn hafa líka réttindi. Það er brotið á trúfrelsi barna með því að gera óafturkræfar aðgerðir á kynfærum þeirra því þau hafa þá ekki tækifæri á því að taka upplýsta ákvörðun um umskurð þegar þau verða fullorðin. Umskurður verður ekki aftur tekinn.