Frelsi öfgahægri manna og skoðanafasismi vinstri manna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/07/2014

25. 7. 2014

Brynjar Níelsson og skoðanabræður hans á Facebook kvarta sáran yfir „skoðanafasisma“ vinstri manna sem uppnefna suma hægri menn öfgamenn. Langar greinar og athugasemdir eru skrifaðar um þessa meintu kúgun vinstri manna. Nánast án undantekninga er fjallað um þessar kvartanir, án nokkurar gagnrýni, í fjölmiðlum. Vinstri menn eru samkvæmt þessu fólki „stjórnlyndir“ og þeir hata frelsið. […]

girl with raised hands and broken chainsBrynjar Níelsson og skoðanabræður hans á Facebook kvarta sáran yfir „skoðanafasisma“ vinstri manna sem uppnefna suma hægri menn öfgamenn. Langar greinar og athugasemdir eru skrifaðar um þessa meintu kúgun vinstri manna. Nánast án undantekninga er fjallað um þessar kvartanir, án nokkurar gagnrýni, í fjölmiðlum.

Vinstri menn eru samkvæmt þessu fólki „stjórnlyndir“ og þeir hata frelsið. Frelsið sem hægri mönnum er svo annt um. Fordómar vinstri manna eru víst svo miklir að þeir gleyma því algerlega að þeir eru allir á móti frjálsum viðskiptum, elska Sovétríkin sálugu, dýrka Pútín og að Nasistar voru fyrst og fremst sósíalistar, eins og þeir sjálfir. Það er semsagt bannað að tala um öfgahægri en sjálfsagt og eðlilegt að líkja vinstri mönnum við nasista.

Þessir sömu hægri menn, sem telja sig vera hinu einu sönnu boðbera frelsisins í heiminum, geta samt ekki útskýrt af hverju fólk sem er til vinstri í pólitík er í raun, oftast, miklu frjálslyndara en þeir sjálfir.

Af hverju eru það yfirleitt hægri menn sem eru á móti fullu trúfrelsi en vilja að hið opinbera styðji ein trúarbrögð umfram önnur? Af hverju eru það yfirleitt hægri menn sem láta sér detta það í hug að banna sum trúarbrögð (eins og Gústaf Níelsson hefur lagt til)?

Af hverju eru það hægri menn sem eru líklegastir til að berjast gegn réttindum samkynhneigðra  á meðan vinstri menn eru að biðja um frelsi til handa öllum?

Af hverju eru það frekar hægri menn sem styðja stjórnvöld í Ísrael og réttlæta dráp þeirra á saklausum borgurum á meðan vinstri menn tala meira um frelsi allra á svæðinu til að lifa í friði, án ofbeldis og einangrunarstefnu í boði ríkisvalds?

Hvernig stendur á því að flestir sem tala opinberlega gegn útlendingum og annari menningu skilgreina sig sjálfir sem hægri menn og styðja svokallaða hægriflokka (jafnvel hægri öfgaflokka)?

Af hverju voru það íhaldssamir hægri menn sem voru helst fylgjandi aðskilnaðarstefnunni í Bandaríkjunum, síðar í Suður Afríku og nú í Ísrael?

Af hverju hafa íhaldsmenn og hægri menn í gegnum tíðina staðið gegn því að afnema barnaþrælkun, hækka lágmarkslaun, stytta vinnuvikuna, setja reglur um öryggi á vinnustöðum og gegn atvinnuleysisbótum fyrir þá sem hafa misst vinnuna eða geta ekki unnið? Af hverju hafa hægri menn talað mest gegn velferðarkerfinu? Á sama tíma hafa það mestmegnis verið „stjórnlyndir“ vinstri menn sem hafa barist fyrir þessum réttindum og þar með frelsi fólks frá óþarfa fátækt og ömurleika?

Af hverju hafa sumir hægri menn í gegnum tíðina barist gegn því að allir, ríkir sem fátækir, heilbrigðir sem veikir, hafi greiðan aðgang að menntun og þar með aukið frelsi og aukna möguleika til að taka þátt í samfélagi sem annars væri einungis í boði fyrir þá sem eru svo heppnir að fæðast inn í vel stæðar fjölskyldur?

Og af hverju virðast svo margir íhaldssamir hægri menn ekki skilja eitt grundvallarfrelsið, tjáningarfrelsið? Hvernig stendur á því að sumir þeirra kalla gagnrýni skoðanakúgun, skoðanafasisma, ofbeldi, einelti eða loftárásir? Hvernig stendur á því að þeir skilja ekki að tjáningarfrelsið snýst alls ekki um að virða allar skoðanir heldur að virða rétt allra til að hafa skoðanir og um leið rétt annarra til að gagnrýna þær?

Í fljótu bragði er ekki hægt að sjá að hægri menn berjist með nokkrum hætti meira fyrir frelsi en þeir sem eru til vinstri í pólitík. Ekki nema hægt sé að skilgreina baráttu þeirra gegn allri skattlagningu og gegn öllu því sem hið opinbera gerir til að draga úr misskiptingu, fátækt og fáfræði sem frelsisbaráttu.

Þeir mega eigna sér slíka frelsisbaráttu mín vegna.

Kveðja,
Stjórnlyndur skoðanafasisti

Deildu