Brynjar Níelsson svarar

Logo

28/07/2014

Höfundur:

28. 7. 2014

Kæri Sigurður Hólm. Þótt ég gleðjist þegar menn skrifa til mín verð ég að segja að þessi skrif þín um „frelsi öfgahægrimanna og skoðanafasisma vinstri manna“ eru þau undarlegustu ef frá eru talin skrif ljóðskáldsins ljúfa, Braga Páls Sigurðarsonar, til mín fyrr á þessu ári. Ég vil nú byrja á að leiðrétta þig með það […]

Kæri Sigurður Hólm.

Brynjar NíelssonÞótt ég gleðjist þegar menn skrifa til mín verð ég að segja að þessi skrif þín um „frelsi öfgahægrimanna og skoðanafasisma vinstri manna“ eru þau undarlegustu ef frá eru talin skrif ljóðskáldsins ljúfa, Braga Páls Sigurðarsonar, til mín fyrr á þessu ári. Ég vil nú byrja á að leiðrétta þig með það að ég hef aldrei minnst einu orði á „skoðanafasisma“ vinstri manna hvað þá að sífellt tal þeirra um hægri öfgamenn hafi eitthvað með kúgun vinstri manna að gera. Ég auðvitað skynja að margir sósíalistar hafa ekki náð fóstfestu eftir hrun hugmyndafræði þeirra og þá kann að vera nytsamlegra að uppnefna gömlu andstæðingana nú hægri öfgamenn í stað auðvaldsinna sem kúgi alþýðuna. Hljómar samt sérkennilega þetta öfgatal úr munni sumra sem sátu á árum áður í marxískum leshringjum um allan bæ og boðuðu sósíalíska byltingu og það blóðuga ef ekki vildi betur. Nú boða þeir sömu lýðræði, umburðarlyndi og frjálslyndi og trúa jafnvel að það sé að finna í ESB.

Ég hef ekkert verið að líkja vinstri mönnum í dag við nasista, Sigurður og ég er ekkert að banna mönnum að tala um öfgahægri. En margir vinstri menn í dag líta á alla þjóðernishyggju sem öfgafulla hægri stefnu. Gaf það mér tilefni til að minna fólk á að öfgafyllstu þjóðernishyggjumenn síðustu aldar voru sósíalistar. Þar að auki voru íslenskir kommúnistar lengst af miklir þjóðernishyggjumenn. Ef þú vilt tala um öfgahægrimenn ættirðu að beina spjótum þínum að anarkistum sem vilja helst ekkert ríkisvald og takmarkalaust frelsi einstaklingsins.

Þú vilt meina að þið vinstri mennirnir séu meiri frelsismenn en við hægri mennirnir. Ekki er það nýtt að vinstri menn telji sig menn frelsisins. Ég er það fullorðinn að ég man að byltingarboðskapur sósíalistanna var frelsisbarátta og sósíalisminn átti að gera manninn frjálsan. Ef frelsið felst í þessu eru þið miklu meiri frelsismenn en við hægri mennirnir. Ég skal viðurkenna að vinstri menn eru ekki sama afturhaldið og þeir voru á mínum yngri árum og ekki eins mikir sósíalistar. Samt er alltaf stutt í stjórnlyndið og frelsishugmyndir þeirra ná ekki mikið út fyrir eigin hugðarefni. Svo er alveg rétt hjá þér að til eru stjórnlyndir menn til hægri og eru stækt íhald. Getur því stundum verið stutt á milli hægri íhalds og róttækustu vinstri sósíalistanna þegar kemur að stjórnlyndinu.

Ekki voru það nú sósíalistar sem börðust fyrir trúfrelsi og tjáningarfrelsi enda allt slíkt barið niður þar sem fyrirmyndaríkjum sósíalismans var komið á. Þýðir því ekki að þvæla um að hægri menn séu á móti trúfrelsi. Hins vegar er ég ekki viss um að þú skiljir hvað í trúfrelsi felist og haldir að trúfrelsi sé þegar ríkisvaldið geri öllum trúarbrögðum jafn hátt undir höfði. En það er mikill misskilningur eins og sjá má á dómum Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu, sem hefur útskýrt bærilega hvað felst í trúfrelsi.

Réttindi samkynhneigðra þróuðust í hinum frjálsu vestrænu ríkjum sem stjórnað var af borgaralega sinnuðum öflum, þótt margir kristilegir íhaldsmenn drægu lappirnar, en réttindi samkynhneigðra voru engin í draumalöndum íslenskra vinstrimanna.

Hægrimenn tala um að allir í Palestínu eigi rétt á að lifa í friði og síður en svo réttlætt dráp á almennum borgurum. Þú ættir Sigurður, að hafa meiri áhyggjur að stuðningi vinstri manna og réttlætingu þeirra á aðgerðum Hamas manna í sinni hryðjuverkastarfsemi, sem er auðvitað meginástæðan fyrir falli almennra borgara á svæðinu, þótt Ísraelsmenn séu síður en svo saklausir af ábyrgð. Ekki er nýtt að íslenskir sósíalistar eru frekar velviljaðir slíkum samtökum en áður fyrr réttlættu þeir gjarnan hryðjuverkastarfsemi sem beindist að frjálsa vestræna lýðrðisríkinu(þar sem auðvaldið kúgaði alþýðuna), sem frelsisbaráttu gegn kúgun kapitalismans. Kannski hafa vinstri menn breyst minna en ætla mætti.

Hægrimenn tala ekki gegn útlendingum. Sumir þeirra vilja vernda þjóðríkið og hafa reglur um fjölda innflytjenda og skilyrði fyrir búsetu hér. Þú mátt kalla það þjóðernishyggju. Hún er alls ekki öfgafull og hefur ekkert með hatur á útlendingum að gera, eins þið vinstri menn haldið gjarnan fram. Mestu hægrimennirnir vilja enga takmörkun á flutningi fólks á milli landa.

Ég veit ekki hvaðan þú færð það að hægri menn hafi barist gegn afnámi barnaþrælkunnar, hækkun launa, styttingu vinnuvikunnar, atvinnuleysisbótum og velferðarkerfinu. Frá fullveldi landsins hafa iðulega verið stjórnir hægra megin við miðju, ef frá er talin stjórnin á síðasta kjörtímabili, og velferð einhver sú mesta í heiminum þrátt fyrir að vera aftast á merinni í upphafi. Við vitum hins vegar, ólíkt mörgum vinstri mönnum, að velferðin verður aldrei meiri en aflað er fyrir. Og að aukið frelsi eykur möguleikana á aukinni velferð. Við vitum líka að með því að taka meira og meira fé af einstaklingum og fyrirtækjum gegnum skattkerfið og úthluta svo eftir þörfum, eykur hvorki velferð né jöfnuð.

Þótt ég hafi gaman af að atast í vinstri mönnum og minna á fortíðina eru þeir alveg ómissandi, þó ekki væri nema til að rétta hjá manni kúrsinn. Að vísu oftast styttra í ofstækið hjá þeim en hægri mönnum, sem helgast sennilega af því að þeir trúa að réttlætið og sannleikurinn sé í vopnabúri þeirra. Skýrir kannski af hverju aðgerðarsinnar eru allflestir vinstri menn. Til að réttlæta ofstækið er það kallað borgarleg óhlýðni.

Kæri Sigurður. Þú mátt ekki líta á þessa umfjöllun og gagnrýni mína svo að hún eigi við alla sem telja sig til vinstri. Alhæfingar eiga aldrei við. Vinstri menn eru ekki síður gott fólk en hægri menn enda margir af mínum bestu vinum sem horfa til vinstri. Og kannski eru margir sem telja sig til vinstri alls ekki vinstri menn þegar betur er að gáð. Sama má kannski segja um svokallaða hægri menn.

Brynjar Níelsson

Sjá einnig:
Frelsi öfgahægri manna og skoðanafasismi vinstri manna

Deildu