Bréf til Brynjars Níelssonar um veraldlegt samfélag

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

02/01/2014

2. 1. 2014

Kæri Fésbókarvinur, Brynjar Níelsson Eftir að hafa lesið hugvekju sem þú fluttir í Seltjarnarneskirkju á fyrsta degi ársins 2014 efast ég stórlega um að þú skiljir hugtök á borð við trúfrelsi, veraldlegt samfélag og gagnrýni. Kannski ertu bara að tala gegn betri vitund. Hvað veit ég? Hverjar sem ástæðurnar fyrir málflutningi þínum eru þá hef ég […]

Brynjar NielssonKæri Fésbókarvinur, Brynjar Níelsson

Eftir að hafa lesið hugvekju sem þú fluttir í Seltjarnarneskirkju á fyrsta degi ársins 2014 efast ég stórlega um að þú skiljir hugtök á borð við trúfrelsi, veraldlegt samfélag og gagnrýni. Kannski ertu bara að tala gegn betri vitund. Hvað veit ég? Hverjar sem ástæðurnar fyrir málflutningi þínum eru þá hef ég áhyggjur af honum. Ég er meira að segja farinn að óttast að þú viljir að hið opinbera reyni að stjórna trúarlífi almennings á Íslandi. Þar sem þú talar mikið um frelsi einstaklingsins kemur málflutningur þinn mér verulega á óvart.

Hér fyrir neðan gagnrýni ég nokkur atriði sem þú fjallaðir um í hugvekju þinni. Ég vona að þú lítir ekki á gagnrýni mína og spurningar sem ófrægingarherðferð heldur sem upphaf af uppbyggilegri samræðu.
(Sjá hugvekju Brynjars í samhengi).

1) Gagnrýni er ekki það sama og rægingarherferð eins og þú gefur í skyn. Sá sem gagnrýnir trúarbrögð er ekki að rægja neinn (rógur: ærumeiða; rægja; baknaga; ófrægja) heldur að nýta tjáningarfrelsi til að koma skoðunum á framfæri og hafa áhrif á samfélagið. Gagnrýni er jákvætt hugtak (að rýna til gagns*). Mundu að besta leiðin til að bera virðingu fyrir skoðunum annarra er að ræða þær á gagnrýnan máta. Heilagar hugmyndir sem ekki má gagnrýna eru yfirleitt slæmar hugmyndir sem þrífast í myrkri fáfræðinnar en þola illa upplýsta umræðu.
(Ítarefni: Misskilningurinn um tjáningarfrelsið og gagnrýni)

2) Að banna trúboð og trúboðsgjafir í opinberum skólum er ekki það sama og banna trúuðu fólki að boða trú sína. Í frjálsu samfélagi má trúað fólk iðka og boða trú sína á eigin forsendum,  á eigin tíma, á götum úti og í eigin húsum svo lengi sem athafnir þeirra skerða ekki beint réttindi annarra. Ef boða á trú meðal barna er auðvitað sjálfsagt að það sé gert með leyfi foreldra eða forráðamanna.  Eins og þú veist er skólaskylda á Íslandi sem þýðir að foreldrar eru skyldaðir til að senda börn sín í skóla. Lágmark er að þegnar landsins séu lausir við trúarlegan áróður í opinberum stofnunum.
(Ítarefni: Fyrirsjáanleg og afhjúpandi umræða um trúboð í skólumSkóli og trú)

3) Að óska eftir veraldlegu samfélagi er ekki það sama og að stuðla að upplausn samfélagsins. Baráttan fyrir veraldlegu samfélagi er barátta fyrir frelsi og jafnrétti.  Veraldlegt samfélag táknar einfaldlega samfélag þar sem hið opinbera, ríkisvaldið, skiptir sér ekki beint af trúarskoðunum fólks. Ekki frekar en af stjórnmálaskoðunum. Hvorki með því að boða ákveðna lífsskoðun, né með því að banna lífsskoðanir (sem skaða ekki aðra með beinum hætti). Erum við ekki sammála um þetta?
(Ítarefni: Sóknarprestur misskilur hugtökin trúfrelsi og veraldlegt samfélag, Ríki og trú)

4) Forsendan fyrir æðruleysi, kærleik og fyrirgefningu er ekki kristin trú. Menn þurfa ekki að vera mjög víðlesnir í sagnfræði, trúarbrögðum eða heimspeki til að átta sig á þessu. Það er þó rétt hjá þér að við fæðumst ekki með þessar dyggðir. Þær þarf að læra og rækta. Hafir þú áhyggjur af ræktun dyggða á Íslandi hvet ég þig til að berjast með mér fyrir því að þjálfun í gagnrýnni hugsun og tjáningu verði ríkari þáttur í skólastarfi. Slík þjálfun kæmi sér til dæmis afar vel inn á Alþingi.
(Ítarefni: Trúarbrögð og siðmenning, Heimspeki, Gagnrýnin Hugsun)

Að lokum vil ég spyrja þig:

5) Ert þú að leggja til að hið OPINBERA hlutist til um trúariðkun landsmanna? Telur þú hlutleysi hins opinbera í trúmálum vera það sama og að „afkristna þjóðina“? Ég vona ekki. Ert þú ekki sammála mér, þó ekki væri nema í nafni frelsisins, að hlutverk hins opinbera í trúmálum sé fyrst og fremst að vernda rétt okkar allra til tjáningar- og trúfrelsis?

Þinn Fésbókarvinur,

Sigurður Hólm Gunnarsson

*Ekki viðurkennd orðabókarskilgreining á hugtakinu samkvæmt gagnrýnisröddum. 🙂

Deildu