Hvað getum við lært af hryðjuverkunum í Útey?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/07/2014

23. 7. 2014

Í gær voru þrjú ár liðin frá því 69 ungmenni voru myrt í Útey. Átta til viðbótar létu lífið í sprengjuárás í Osló. Mikilvægt er að við gleymum aldrei þessum hræðilega atburði en ekki síður að við reynum að læra af honum. Fordómar, ranghugmyndir og hræðsluáróður öfgasinna getur, eins og dæmin sanna, haft hræðilegar afleiðingar. Voðaverkin […]

Útey-wikipediaÍ gær voru þrjú ár liðin frá því 69 ungmenni voru myrt í Útey. Átta til viðbótar létu lífið í sprengjuárás í Osló. Mikilvægt er að við gleymum aldrei þessum hræðilega atburði en ekki síður að við reynum að læra af honum. Fordómar, ranghugmyndir og hræðsluáróður öfgasinna getur, eins og dæmin sanna, haft hræðilegar afleiðingar.

Voðaverkin í Útey snertu mig nokkuð persónulega því fyrir ekki svo mjög mörgum árum tók ég tvisvar þátt í alþjóðlegum ráðstefnum ungs fólks og ungra jafnaðarmanna. Báðar ráðstefnunar voru haldnar í Búdapest árin 2001 og 2004. Rétt eins og í Útey kom þar saman ungt fólk til að fjalla um samfélagsmál og félagslegt réttlæti . Minningar af þessum ráðstefnum eru mér dýrmætar. Ég kynntist ólíku fólki sem allt átti það þó sameiginlegt að vilja berjast fyrir friði og umburðarlyndi. Þarna var gott fólk með hjarthlýjar hugsjónir.

Sama má segja um unga fólkið í Útey árið 2011. Þar var samankomið ungt fólk sem vildi aðeins gera heiminn betri. Hvernig gat nokkrum manni dottið í hug að ráðast gegn slíku fólki og myrða það?

Þeirri spurningu verður ekki auðsvarað en það er þó mikilvægt að við reynum að svara henni. Það er skylda okkar læra af sögunni og reyna að koma í veg fyrir að voðaverk sem þessi endurtaki sig.

Hryðjuverkamaðurinn sem framdi ódæðin, og ég ætla ekki að nefna á nafn, var og er að mínu mati vanheill maður sem ég tel að þurfi að fá aðstoð og umhyggju eins og aðrar manneskjur sem eiga bágt. Stundum er kærleikur og umburðarlyndi bestu fyrstu viðbrögð við hatri og ofbeldi.

En jafnvel þó við séum sum þeirra skoðunar að viðkomandi sé vanheill þá er mikilvægt að átta sig á því að hryðjuverk og annað ofbeldi á sér sjaldan stað í tómarúmi. Ef fólk trúir vitleysu er það líklegra til að fremja voðaverk.

Hryðjuverkin í Útey voru framin í samfélagi þar sem frjálslyndi og umburðarlyndi ríkir að mestu. Noregur er þó ekki, ekki frekar en Ísland, laust við fólk með vondar, fordómafullar og hatursfullar hugmyndir. Of margir þjást af raunverulegum og sterkum ótta. Ótta gagnvart útlendingum, ótta gagnvart ólíkum trúarbrögðum, ótta gagnvart kynhneigð, ótta gagnvart hugmyndum sem þykja framandi.

Mikill ótti getur í senn verið lamandi og hættulegur. Því er mikilvægt að við öll vinnum að því að draga úr ótta. Þetta gerum við meðal annars með uppbyggilegri en um leið gagnrýnni umræðu. Það er sjaldnast skynsamlegt eða gagnlegt að banna vondar hugmyndir. Vondar hugmyndir verður að afhjúpa með gagnrýnu hugarfari og samtali.

Munum að það ber engum skylda til að virða skoðanir annarra. Sumar skoðanir eru ekki virðingarverðar. Öll eigum við þó rétt á að hafa skoðanir og þann rétt verðum við að virða. Í frjálsu lýðræðisríki er mikilvægt að við nýtum tjáningarfrelsi okkar til að gagnrýna og afhjúpa málflutning sem elur á ótta og hatri. Ef við gerum það ekki sjálf getum við ekki ætlast til þess að aðrir geri það.

Hryðjuverkin í Útey voru ekki bara framin af einhverjum vitleysingi sem hægt er að afskrifa sem einstakt tilvik. Svo lengi sem hatursorðræða byggð á ótta og fáfræði fær einhvern frið er alltaf hætta á að fleiri voðaverk verði framin.

Ef það er eitthvað sem við getum lært af hryðjuverkunum í Útey þá er það þetta:
Mikilvægt er að við hikum ekki við, eða séum hrædd við, að gagnrýna vondar hugmyndir. Skiptir þá engu máli hvort þær hugmyndir koma frá einstaklingum eða samtökum. Pistlahöfundum eða pólitíkusum.

Ein af raunhæfari leiðum til að draga úr ofbeldi og ótta er að sem flestir temji sér gagnrýnið hugarfar og taki virkan þátt í upplýstri umræðu um samfélagsmál.

Að sama skapi er mikilvægt að við höldum áfram að gera það sem ungmennin í Útey voru að reyna að gera. Að skapa réttlátara samfélag. Samfélag jöfnuðar og öryggis. Samfélag þar sem allir, óháð uppruna eða annarra sérkenna, fá að njóta sín og fá tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi.

Sjá einnig:
Erindi sem Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar, flutti fyrir hönd félagsins á minningarathöfn sem Ungir jafnaðarmenn héldu um voðaverkin á Úteyju árið 2011.

Deildu