Tillögur um skuldaniðurfellingu – fyrstu viðbrögð

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

30/11/2013

30. 11. 2013

Tillögur ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingu hafa litið dagsins ljós. Kynningin á tillögunum í Hörpu var flutt á ljóshraða og því missti ég af nokkrum glærunum þegar ég þurfti að blikka augunum. Það sem ég skrifa hér eru bara mín fyrstu viðbrögð. Nú á eftir að kryfja þessar tillögur og sjá hvaða vit er í þeim. Eitt […]

skuldTillögur ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingu hafa litið dagsins ljós. Kynningin á tillögunum í Hörpu var flutt á ljóshraða og því missti ég af nokkrum glærunum þegar ég þurfti að blikka augunum. Það sem ég skrifa hér eru bara mín fyrstu viðbrögð. Nú á eftir að kryfja þessar tillögur og sjá hvaða vit er í þeim. Eitt virðist þó nokkuð ljóst. Þessar tillögur eru ekki loforð Framsóknarflokksins. Hvergi var minnst á haglabyssur, hrægammasjóði eða kröfuhafa þó talað hafi verið um skatt á banka og fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Ríkissjóður ber ábyrgð. Algerlega óvíst er hvernig þessi skattlagningaræfing heppnast eða hvort hún standist yfirleitt stjórnarskrá. Talað er um 80 milljarða „leiðréttingu“ en ekki 300 milljarða, ef ég skil þetta allt rétt. En gott og vel.

Hluti „niðurfellingarinnar“ felst í skattleysi á útgreiðslu séreignasparnaðar sem skuldarar geta notað til að greiða niður lán. Það er ef þeir eru með séreignasparnað til að byrja með. Þessi leið er auðvitað engin niðurfelling skulda. Hér er fólk að nota eigin sparnað (sem ekki verður notaður tvisvar) til að greiða niður eigin skuldir. Sú upphæð sem fólk notar verður gerður skattfrjáls sem þýðir auðvitað að ríkissjóður verður fátækari fyrir vikið og því væntanlega erfiðara að fjármagna velferðarkerfið og greiða niður skuldir ríkisins í framtíðinni. Þeir sem eiga ekki húsnæði geta fengið sama skattaafslátt til að safna fyrir húsnæði ef ég skil tillögurnar rétt. Ég velti því fyrir mér hvort slík hvatning frá hinu opinbera til að fjárfesta í húsnæði muni ekki einfaldlega hækka húsnæðisverð.

Almennt um skuldaniðurfellingu
Nú er ég alls ekki á móti því að skuldugu fólki sé hjálpað með einhverjum hætti (sjá t.d. Hamstar í hjóli vilja skuldaniðurfellingu) en það er að mínu mati óeðlilegt og ósanngjarnt að öll áhersla sé lögð á að aðstoða fólk sem tók lán. Sérstaklega ef það er gert óháð tekjum fólks, greiðslugetu og eignastöðu að öðru leyti. Reyndar sýnist mér að í þessum tillögum sé áhersla sé lögð á þá sem skulda minna en 35 milljónir. Mest geta lánin lækkað um fjórar milljónir. Gleymum því samt ekki að hrunið bitnaði á öllum. Líka þeim sem eiga ekki neitt og þurfa líklegast að leigja húsnæði það sem eftir er ævinnar.

Mér finnst það líka umhugsunarverð hugmyndafræði að nota almannafé (skattfé) fyrst og fremst til að lækka húsnæðisskuldir en ekki til að lækka skuldir ríkissjóðs og/eða efla almannaþjónustu. Til dæmis velferðarkerfið sem tekjulágt fólk þarf fyrst og fremst að nýta sér. Af hverju má leggja á sérstaka skatta til að borga niður húsnæðislán en alls ekki hækka skatta og auðlindagjöld til að verja velferðarkerfið og aðra almannaþjónustu? Af hverju má veita ríflega skattaafslætti í nafni niðurfellingu skulda en ekki hækka persónuafsláttinn sem nýtist tekjulágum mest?

Áhugavert verður að fylgjast með umræðu um þessar tillögur næstu daga og að fá nánari útskýringar.

Deildu