Siðmennt: vandræðafólk eða þarfaþing?

Logo

Kristinn Theodórsson

Kristinn Theodórsson er fæddur árið 1977 í Reykjavík. Hann er verslunarmaður og vel kvæntur þriggja barna faðir. Kristinn er varamaður í stjórn Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á ÍslandiNetfang: kiddithe@skodun.is

02/12/2013

2. 12. 2013

Hvað er þetta Siðmenntarfólk að vilja upp á dekk? Má fólk ekki trúa í friði lengur? Oft byrja umræður um Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi – á nótum sem þessum. Fólk annað hvort skilur ekki félagsskapinn, eða skilur hann og er svona hjartanlega ósammála því að hann þjóni nokkrum tilgangi. Starfsemi Siðmenntar Siðmennt […]

IMG_6032

Hvað er þetta Siðmenntarfólk að vilja upp á dekk? Má fólk ekki trúa í friði lengur?

Oft byrja umræður um Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi – á nótum sem þessum. Fólk annað hvort skilur ekki félagsskapinn, eða skilur hann og er svona hjartanlega ósammála því að hann þjóni nokkrum tilgangi.

Starfsemi Siðmenntar

Siðmennt er 23 ára gamalt félag sem hefur frá upphafi boðið upp á borgaralega fermingu sem valkost við kirkjulega fermingu. Með árunum hefur starf félagsins vaxið og hlutverkum þess fjölgað. Í dag býður Siðmennt einnig upp á hjónavígslur, útfarir og nafngjafir. Félagið býður með öðrum orðum upp á veraldlegar athafnir af flestu tagi og hefur þannig fjölgað valkostum í þeim efnum fyrir fólk sem af einhverjum ástæðum kýs að notast ekki við þjónustu trúfélaga.

Fyrir utan athafnaþjónustuna hefur starf Siðmenntar falist í baráttu fyrir mannréttindum á borð við trú- og tjáningarfrelsi auk þess að berjast fyrir því að starfsemi hins opinbera byggi á veraldlegum upplýsingum; byggi á bestu þekkingu hvers tíma, en ekki trú á yfirnáttúru eða mikilvægi trúarrita. Þessi báráttumál fara að vissu leyti saman.

Að standa utan trúfélaga en vilja eiga hlutdeild í félagslegum hefðum

IMG_6237

Hafi maður efasemdir um heimspeki trúarbragðanna; um trúarritin og um siðfræðilegar forsendur kristninnar og annarrar guðfræði, er ekki óeðlilegt að manni líði hálf undarlega með að fara með bænir og taka þátt í sálmasöng til dýrðar slíkum hugmyndum. Líðandi þannig getur manni jafnvel þótt það vera hræsni að staulast í gegnum faðirvorið og postullegu trúarjátninguna í athöfnum í kirkju.

En kjósi maður að standa utan kerfisins sem myndast hefur í kringum trúariðkun hefur maður til skamms tíma verið hálfgert olnbogabarn í samfélaginu hvað það snertir að eiga sér hefðir og umgjörð fyrir stórar félagslegar stundir á borð við hjónavígslur og nafngjafir.

Enn fremur hefur það að taka víkjandi afstöðu til trúarbragða í gegnum tíðina gjarnan haft það í för með sér að vera ætlað að skorta siðfræðilegan grunn og vera haldin/nn tómhyggju, sem hljómar fremur kuldalega. Enn þann dag í dag leyfir stöku fólk sér að tala með slíkum hætti um aðrar lífsskoðanir en þá trúarlegu. Sem dæmi sagði starfandi prestur nýverið við stjórnarmann í Siðmennt, þegar þeir voru saman komnir í útvarpsviðtal: „Það er aumasta trú sem til er, það er trúin á manninn“.

Hófsamleg trú á manninn

IMG_6055Húmanismi er vissulega í sumum skilningi trú á manninn. Hann er sú afstaða að við mannkynið séum búin að koma okkur upp nokkuð áreiðanlegri þekkingarfræði sem kristallast í vísindum og að sú þekkingarfræði leiði okkur frá trúarbrögðunum frekar en til þeirra. Hann er sú afstaða að við séum fær um að vera siðlegar og sanngjarnar verur og að það séu eiginleikar sem við getum ræktað með okkur á grundvelli samkenndar og skynsemi, án þess að leita til trúarbragða og yfirnáttúru. Hann er sú afstaða að trúleysi þurfi ekki að vera tómlegt eða kuldalegt, heldur megi einmitt skapa nýjar hefðir og nýjar leiðir til að fagna og minnast hins sammannlega með hátíðlegum og töfrandi hætti.

Þess vegna er Siðmennt til. Við viljum að fólk hafi frelsi til að trúa ekki til jafns við frelsi til að trúa, og það án þess að segja sig með því frá hátíðlegum hefðum eða hugmyndum um siðfræði sem nær lengra en til hagsmuna einstaklingsins, fjölskyldunnar, þjóðarinnar eða jafnvel jarðarbúa. Húmanisminn er upphafning hins sammannlega og vonarinnar um að við munum hafa vit á því að vera almennileg við hvert annað og hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi hverju sinni.

Húmanisminn er hugsanlega skammsýnn, en við erum opin fyrir breytingum

Siðmennt er þó ekki eins konar trúfélag um óendanlega visku mannsins eða þá hugmynd að við séum eina vitsmunalífið sem um ræðir og ekkert skáki okkur í greind eða ógni veldi okkar. Siðmennt er einmitt ekki trúfélag, heldur lífsskoðunarfélag sem reynir að byggja hugmyndir sínar einungis á fremur jarðbundnum ályktunum um eðli heimsins.

Við útilokum ekki að á þessu verði breytingar. Komi snjallar geimverur fljúgandi úr fjarlægu horni alheimsins munum við mennirnir vonandi læra að lifa í sátt og samlyndi við þær verur og þá verður líklega rétt að fara að kalla húmanismann eitthvað annað í ljósi þess að við verðum ekki lengur ein um að böggla saman siðfræðinni.

Við teljum að þetta séu gagnleg og jákvæð sjónarmið og þessvegna teljum við að Siðmennt sé ekki vandræðafólk, heldur þarfaþing.

Höfundur hefur starfað með Siðmennt frá 2010 og fermdist sjálfur borgaralega árið 1991.

Greinin birtist áður í Kvennablaðinu.

Deildu