Það virðist hlakka í Vigdísi Hauksdóttur og fleirum í hagræðingahópi ríkisstjórnarinnar. Enda er það blautur draumur frjálshyggju- og íhaldsmanna að skera niður hið ógurlega bákn. Sérstaklega þegar niðurskurðurinn hentar stjórnvöldum. Þar liggur RÚV vel við höggi.
Vitanlega má hagræða og draga úr sóun hjá hinu opinbera en það er ekki skynsamlegt á krepputímum að draga úr umsvifum hins opinbera og fækka opinberum störfum. Ekkert réttlætir slíkar aðgerðir nema hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Niðurskurðarleiðin (austerity) er ekki til þess fallin að hjálpa venjulegu fólki.
Ef stjórnvöldum er umhugað um að draga úr atvinnuleysi og auka kaupmátt hins almenna borgara væri nær að auka umsvif hins opinbera til skamms tíma og koma þannig hjólum atvinnulífsins af stað.
Niðurskurður bitnar yfirleitt mest á fátæku fólki sem þarf að nýta sér þjónustu samélagsins. Sérstaklega þegar allt er undir niðurskurðarhnífnum.
Almennar skattalækkanir skila sér minnst til lágtekjuhópa. Minnst til þeirra sem verja mest af sínum peningum til að kaupa vöru og þjónustu.
Hjól atvinnulífsins hjóla ekki sjálf af stað. Þau þurfa eldsneyti og það eldsneyti er fyrst og fremst kaupmáttur þeirra sem eru í lægri tekjuhópunum.
Skynsamlegra væri að bæta stöðu ríkissjóðs með því að skattleggja arð, taka almennilegt gjald af auðlindum og draga úr dekri við ríkt fólk sem hagnast fyrst og fremst af rentu og fjármálagjörningum en ekki af því að framleiða nokkurn skapaðan hlut.