Hvert er hlutverk RÚV?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/07/2013

23. 7. 2013

Umræðan um tilvistarrétt Ríkisútvarpsins er áhugaverð. Sumir vilja nánast leggja ríkisfjölmiðilinn niður, aðrir vilja styrkja hann og enn aðrir gera töluverðar breytingar á starfseminni. Sjálfur hef ég nokkrum sinnum gagnrýnt RÚV og bæði verið sakaður um frjálshyggju og kommúnisma. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að það sé afar mikilvægt að hið opinbera tryggi að til […]

Rúv EfstaleitiUmræðan um tilvistarrétt Ríkisútvarpsins er áhugaverð. Sumir vilja nánast leggja ríkisfjölmiðilinn niður, aðrir vilja styrkja hann og enn aðrir gera töluverðar breytingar á starfseminni.

Sjálfur hef ég nokkrum sinnum gagnrýnt RÚV og bæði verið sakaður um frjálshyggju og kommúnisma.

Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að það sé afar mikilvægt að hið opinbera tryggi að til staðar sé hlutlaus og vönduð fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu. Mikilvægt er að almenningur hafi greiðan aðgang að fréttum, gagnrýnni umfjöllun um málefni líðandi stundar og um mál er varða sjálft lýðræðið í landinu.

Að sama skapi á ég erfitt með að átta mig á því af hverju hið opinbera er að keppa við einkamiðla um almenna afþreyingu. Mín vegna má leggja slíkan fjölmiðil niður.

Hvers vegna í dauðanum er hið opinbera að sýna erlendar sápuóperur, framhaldsþætti og glænýjar kvikmyndir? Hvaða mögulegu lýðræðislegu rök eru fyrir því að hið opinbera keppi við einkaaðila um að sýna frá erlendum íþróttaviðburðum?

Hvaða tilgangi þjónar ríkisrekinn fjölmiðill sem sendir öflugasta fréttaskýringarþátt landsins í sjónvarpi, Kastljósið, í langt sumarfrí en sýnir á sama tíma glænýja bandaríska spennuþætti?

Það eru til góð rök fyrir því að hið opinbera veiti öllum aðgang að menntun. Þau eru ómerkilegri rökin sem hníga að því að ríkið eigi að tryggja öllum ókeypis miða í bíó. Það eru góð rök fyrir því að hið opinbera eigi að tryggja öllum aðgang að fréttum, fræðslu og lýðræðislegri umræðu. Um leið hafa engin sérstök rök verið færð fyrir því að hið opinbera eigi að tryggja öllum aðgang að sápuóperum.

Getum við ekki öll sameinast um að styrkja og styðja lýðræðislegt hlutverk RÚV en draga um leið úr afþreyingarhlutverkinu sem hlýtur að eiga betur heima hjá einkaaðilum?

Deildu