Íslömsk bókstafstrú er galin hugmyndafræði

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

19/07/2013

19. 7. 2013

Bókstafstrú er stórhættuleg og galin hugmyndafræði. Skiptir þá engu máli hvort hinn bókstafstrúaði aðhyllist Kristni eða Íslam. Yfirlýsingar Ahmad Seddeq frá Menningarsetri múslima um konur og samkynhneigð ættu ekki að koma neinum á óvart. Sambærilegar yfirlýsingar hafa reglulega borist frá kristnum biblíuþrælum á Íslandi. Óvenjulegra er þó að trúbræður komi fram og gagnrýni slíka ofstækismenn […]

Kóraninn og biblíanBókstafstrú er stórhættuleg og galin hugmyndafræði. Skiptir þá engu máli hvort hinn bókstafstrúaði aðhyllist Kristni eða Íslam.

Yfirlýsingar Ahmad Seddeq frá Menningarsetri múslima um konur og samkynhneigð ættu ekki að koma neinum á óvart. Sambærilegar yfirlýsingar hafa reglulega borist frá kristnum biblíuþrælum á Íslandi. Óvenjulegra er þó að trúbræður komi fram og gagnrýni slíka ofstækismenn harðlega. Því fagna ég viðbrögðum bæði frá varaformanni og formanni  Félags múslima á Íslandi, þeim Salmann Tamimi og Sverri Agnarssyni. Sjaldan hafa hófsamir Kristnir menn komið fram í fjölmiðlum og gagnrýnt með eins afgerandi hætti fordómana og hatrið í kristnum bókstafstrúarmönnum.

Ég styð trúfrelsi og umburðarlyndi á Íslandi. Auðvitað eiga múslímar að fá, eins og annað trúað fólk, að byggja sín bænahús og menningarsetur á Íslandi. Um leið tel ég mikilvægt að halda uppi gagnrýnni og upplýsandi umræðu um trúarbrögð.

Eins og ég hef áður sagt þá er langflest trúað fólk gott og velviljað fólk sem bætir samfélagið með ýmsum hætti. Að sama skapi eru margar trúarhugmyndir stórhættulegar og fólk á ekki að vera feimið við að gagnrýna þær.

Trúfrelsið, tjáningarfrelsið og veraldlegt samfélag
Ef við ætlum að búa í frjálsu lýðræðislegu samfélagi þar sem býr fólk með ólíkar lífsskoðanir verðum við að tryggja eftirfarandi:

Trúfrelsi: Allir eiga að hafa rétt á að iðka sína trú eða lífsskoðun svo lengi sem sú iðkun skerðir ekki mannréttindi annarra.

Tjáningarfrelsi: Trúfrelsi er í raun angi af tjáningarfrelsinu en frelsi til tjáningar er lítils virði ef fólk nýtir sér það ekki. Það er hlutverk okkar allra að tala gegn fordómum, fávisku og hatri. Við eigum að gagnrýna fordóma gagnvart trúarhreyfingum og við eigum einnig að gagnrýna fordóma sem koma frá trúarhreyfingum. Við eigum ekki að vera hrædd við að gagnrýna hugmyndir fólks þó þær eigi sér uppruna í einhverjum trúarbrögðum. Engin hugmynd er það heilög að ekki megi ræða hana. Því þarf til dæmis að afnema lög um guðlast og reyndar öll lög sem takmarka tjáningu. Eina undantekningin er sú að stundum er nauðsynlegt að banna áróður sem beinlínis ýtir undir hatur eða ofbeldi.

Veraldlegt samfélag: Gífurlega mikilvægt er að við aðskiljum ríki og trúarbrögð. Trúarbrögð eiga ekki að fá stuðning frá hinu opinbera. Jafn mikilvægt er að allar opinberar stofnanir séu hlutlausar og lausar undan hvers kyns áróðri trúfélaga. Ekki síst þar sem að sumar hugmyndir trúarbragðanna ganga gegn almennum mannréttindum. Því er í raun fáránlegt að hið opinbera styrki með einhverjum hætti trúarsöfnuð sem boðar fordóma og hatur gagnvart öðrum hópum. Hér á ég ekki sérstaklega við Íslam.

Ýmsir hópar á Íslandi þar á meðal trúleysingjar, samkynhneigðir og konur hafa margsinnis þurft að upplifa fordómaþvælu frá kristnum trúarhreyfingum. Þar á meðal frá hinni svokallaðri Þjóðkirkju sem fær sérstakan stuðning hér á landi.

Sá sem trúir vitleysu er líklegri til að fremja voðaverk
Það er gömul saga og ný að sá sem trúir vitleysu er líklegri til að hafa fordóma og fremja voðaverk. Bókstafstrúarmenn af öllum gerðum trúa því að gamlar trúarbækur séu heilagar og uppspretta visku og sannleikans með stóru S-i.  Þar sem trúarrit eins og Biblían og Kóraninn eru uppfull af fordómum, ofbeldi og fávisku er ekki skrítið að bókstarfstrúarmenn hafi vafasamar hugmyndir.

Um leið og við virðum trúfrelsið og temjum okkur umburðarlyndi er mikilvægt að við sýnum tjáningarfrelsinu virðingu og nýtum það til að berjast gegn hvers kyns þvælu og mismunun. Enn fremur þurfum við öll að leggja áherslu á aðskilnað ríkis og trúar og tryggja að hér á Íslandi verði til veraldlegt samfélag fyrir alla þar sem mannréttindi eru virt.

Ítarefni:
Á síðunni Skeptic’s Annotated Bible / Quran / Book of Mormon má fræðast um fordóma, hatur og ofbeldi í trúarritum.

Ég hvet sem flesta til að kynna sér þessar síður og fá þannig innsýn inn í það hvers vegna bókstarfstrúarmenn eiga svona bágt með að umbera fjölbreytni og mannréttindi annarra. (Athyglivert er að samkvæmt þessum síðum virðist mun oftar vera fjallað neikvætt um samkynhneigð og konur í Biblíunni en í Kóraninum.)

Tengdar greinar:

 

Deildu