Óviðunandi þjónusta við gamalt fólk á Íslandi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

11/07/2013

11. 7. 2013

Nú vita þeir sem hafa staðið í því að hjálpa öldruðum vini eða ættingja að komast inn á hjúkrunarheimili að það getur reynst þrautinni þyngra. Flækjustigið er allt of mikið og oft erfitt að átta sig á því hvernig nokkur maður kemst inn á hjúkrunarheimili án þess að eiga aðstandendur með nægan frítíma og að […]

EirNú vita þeir sem hafa staðið í því að hjálpa öldruðum vini eða ættingja að komast inn á hjúkrunarheimili að það getur reynst þrautinni þyngra. Flækjustigið er allt of mikið og oft erfitt að átta sig á því hvernig nokkur maður kemst inn á hjúkrunarheimili án þess að eiga aðstandendur með nægan frítíma og að minnsta kosti fimm háskólagráður.

Ég reyndi að hjálpa ömmu minni og afa í föðurætt að komast inn á hjúkrunarheimili fyrir nokkrum árum (fyrir hrun), síðar afa í móðurætt og nú síðast ömmu í móðurætt (eftir hrun). Ég hef ekki tölu á þeim fjölda símtala til ólíkra aðila sem við aðstandendur þurftum að hringja. Eða á öllum þeim gögnum sem þurfti að sækja út í bæ, fylla út og skila (ekki hægt að skila neinu í gegnum tölvu!), eða á öllum þeim viðtölum sem umsækjendur hafa þurft að fara í og þá með aðstoð ættingja.

Biðin eftir plássi er verst og undarlegt að heyra að það þurfi einfaldlega að bíða eftir að einhver annar deyi til þess að komast að og því ómögulegt að gefa upp einhver tímamörk. Það er skelfilegt að horfa upp á aldraðan ættingja sinn gráta vegna óöryggis eða vegna þess að viðkomandi saknar maka síns sem þegar er kominn inn á hjúkrunarheimili.

Ég velti því oft fyrir mér hvað verður um gamalt fólk sem á ekki aðstandendur sem er viljugt eða fært til að veita aðstoð. Hver sækir um pláss á hjúkrunarheimili? Hver nær í öll gögnin út í bæ, fyllir þau út og skilar þeim aftur? Hver hringir öll símtölin til að athuga með gang mála og þrýsta á að eitthvað gerist?

Hvernig getur staðið á því að á Íslandi, einu ríkasta landi heims, getur tekið marga mánuði að komast inn á hjúkrunarheimili? Hvernig stendur á því að ferlið er svona flókið og upplýsingagjöfin misvísandi? Hvers vegna segja heilbrigðisstarfsmenn aðstandendum að þeir þurfi að vera duglegir við að hafa samband og þrýsta á að ættingi sinn fái pláss? (og hvað með þá sem eiga enga ættingja sem eru færir um að beita slíkum þrýstingi?)

Auðvitað eru flestir sem vinna í þessu kerfi ágætis fólk sem vill vel. Ég er ekki að gagnrýna starfsmenn á plani.

Að mínu mati er þjónusta við gamalt fólk á Íslandi einfaldlega óviðunandi. Ég einfaldlega krefst þess að fólk fái að lifa hamingjusömu og eins áhyggjulitlu lífi og mögulegt er í ellinni. Ef eldri borgari saknar maka síns eða treystir sér ekki til að vera einn heima þá á hann að komast inn á hjúkrunarheimili strax. Mér er nánast sama hvað það kostar. Það eru almenn mannréttindi að fá að lifa í sæmilegu öryggi í ellinni.

Deildu