Sóknarprestur er sammála Siðmennt

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/07/2013

25. 7. 2013

Sóknarpresturinn Gunnar Jóhannesson fjallar enn um trúfrelsisstefnu Siðmenntar í Fréttablaðinu 18. júlí síðastliðinn. Það sem vakti mest athygli mína við nýjustu grein Gunnars er að hann virðist algjörlega sammála grundvallarstefnu Siðmenntar sem hann er þó að gagnrýna: „Ég tek sannarlega undir það að hinu opinbera skuli ekki stjórnað á tilteknum trúarlegum forsendum sem bindandi séu […]

Siðmennt - lógóSóknarpresturinn Gunnar Jóhannesson fjallar enn um trúfrelsisstefnu Siðmenntar í Fréttablaðinu 18. júlí síðastliðinn. Það sem vakti mest athygli mína við nýjustu grein Gunnars er að hann virðist algjörlega sammála grundvallarstefnu Siðmenntar sem hann er þó að gagnrýna:

„Ég tek sannarlega undir það að hinu opinbera skuli ekki stjórnað á tilteknum trúarlegum forsendum sem bindandi séu fyrir alla þegna, að því gefnu að með „trúarlegum forsendum “ sé ekki eingöngu átt við lífsskoðanir sem byggja á guðstrú heldur einnig þær sem grundvallast á guðleysi, enda eru þær í eðli sínu trúarlegar.“

Hér endurtekur Gunnar í raun það sem ég sagði í minni síðustu grein (Sóknarprestur misskilur hugtökin trúfrelsi og veraldlegt samfélag) þar sem ég lagði sérstaka áherslu á að í veraldlegu samfélagi fer hvorki fram boðun á trú né lífsskoðun í opinberu rými:

„Með veraldlegu samfélagi er reynt að tryggja að opinberar stofnanir séu ekki grundvallaðar á ákveðinni trú eða lífsskoðun. Í veraldlegu samfélagi fer ekki fram boðun á ákveðinni trú eða lífsskoðun á vegum hins opinbera eða í opinberu rými.“

og

„Í veraldlegu samfélagi eru opinberar stofnanir hlutlausar þegar kemur að lífsskoðunum. Þar hanga ekki upp á vegg boðorðin tíu og ekki heldur stefnuskrá Siðmenntar. Þar starfa ekki einstaklingar sem hafa það hlutverk að kristna einstaklinga og ekki heldur guðleysingjar frá Siðmennt sem vinna við að sannfæra fólk um gildi trúleysis og húmanisma. Í opinberum skólum fer fram fræðsla um ýmislegt. Þar á meðal um trúarbrögð og lífsskoðanir en ekki boðun.“

Við Gunnar erum því alveg sammála. Það eina sem ég vil gagnrýna er þörf Gunnars til að stimpla veraldlega lífsskoðun Siðmenntar sem „trúarlega“. Trúleysi er ekki trú frekar en að safna ekki frímerkjum er áhugamál.

Satt best að segja veit ég ekki hvað Gunnar er ósáttur við í stefnu Siðmenntar. Hann segist geta lesið „út úr yfirlýsingu Siðmenntar“ eitthvað sem „gengur þvert á allar hugmyndir um frelsi manna til sannfæringar, skoðana, trúar og tjáningar“.  Ég hef ekki hugmynd um hvað Gunnar er að vísa í hér og grunar mig helst að þessi lesskilningur hans sé litaður af fyrirfram skoðun á Siðmennt og stefnu félagsins.

Að lokum hvet ég sem flesta til að kynna sér stefnu Siðmenntar en hana er að finna á vefsíðu félagsins.

Höfundur er stjórnarmaður í Siðmennt

*Þessi grein var einnig birt á vefsíðu Vísis.

Deildu