Að alast upp sem auka barn

Logo

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir er fædd 1986 á Akranesi, á þrjá syni, tvo ketti en bara einn mann. Hún starfar sem félagsráðgjafi og hefur áhuga á samskiptum, samfélögum, manneskjum, pólitík og öðrum lífsins gæðum.

25/07/2013

25. 7. 2013

Síðustu daga og mánuði hafa réttindi foreldra sem fara með sameiginlega forsjá mikið verið rædd. Ég fagna þeirri umræðu mjög. Þar stíga fram foreldrar sem berjast fyrir því að fá frekari réttindi hvað varðar uppeldi og ábyrgð barna sinna. Slík umræða þykir mér vera vísbending um að foreldrar vilji hafa jöfn tækifæri á að taka […]

Síðustu daga og mánuði hafa réttindi foreldra sem fara með sameiginlega forsjá mikið verið rædd. Ég fagna þeirri umræðu mjög. Þar stíga fram foreldrar sem berjast fyrir því að fá frekari réttindi hvað varðar uppeldi og ábyrgð barna sinna. Slík umræða þykir mér vera vísbending um að foreldrar vilji hafa jöfn tækifæri á að taka þátt í lífi sinna barna.

Ég gleðst yfir slíkri umræðu vegna þess að hún var ekki upp á pallborðinu þegar ég og jafnaldrar mínir vorum lítil börn. Þá voru umgengismál barna nánast undantekningarlaust með því formi að móðir hafði fulla forsjá barns og faðir naut aðeins umgengni aðra hvora helgi. Ég veit að þess konar umgengisform er ekki að öllu horfið úr þjóðfélaginu en það virðist vera á undanhaldi.

Þegar ég var lítil stelpa áttu flest skilnaðarbörn bara heima hjá mæðrum sínum. Sum fóru þó til föður síns aðra hvora helgi. Sum fóru bara stundum til föður síns eftir hentugleika. Yfirleitt var það þannig að feðurnir eignuðust svo konur og stofnuðu með þeim fjölskyldu með nýjum börnum. Þá eignuðust jafnaldrar mínir, skilnaðarbörnin, hálfsystkini. Það var auðvitað alltaf gaman að eignast lítið systkini. 

broke

En þá fóru aðstæður að breytast. Faðirinn, nýja konan og nýja hálfsystkinið urðu að kjarnafjölskyldu. Oft passaði það ekki vel inn í fjölskyldumyndina að fá eitt auka stjúpbarn um helgar. Skilnaðarbarnið varð að „auka“ barni.  Auka barnið fékk þó auðvitað að koma, umgengnin var jú bundin við samning og auðvitað þótti föðurnum vænt um barnið sitt.  Í sumum tilfellum fékk  auka barnið það á tilfinninguna að það væri að þvælast fyrir. Stjúpmóðirin var upptekin af nýju hálfsystkinum (eins og gefur að skilja) og hafði ef til vill ekki tíma til að rækta samband sitt við stjúpbarnið. Barnið úr gömlu fjölskyldunni. Einn vinur minn varð auka barn og fékk bara að fljóta með í nýju fjölskyldunni.

Mig langar að koma sögu hans á framfæri þar sem hún lýsir veruleika svo margra barna.

Þessi vinur minn hélt samt áfram að fara til nýju fjölskyldu föður síns þrátt fyrir nýjar aðstæður hennar. Nýja fjölskyldan átti sínar hefðir og venjur eins og gengur og gerist en hann fékk ekki að taka þátt í þeim. Hann átti ekki sitt glas eins og hálfsystkini sín og hann átti ekki heldur sitt sæti við borðið eins og allir hinir eða sinn stað til að sofa á. Hann svaf bara í sófanum eða á dýnu einhverstaðar. Honum var ekkert endilega boðið þegar einhver átti afmæli. Hann átti ekkert tilkall til heimilis fjölskyldunnar, átti hvorki leikfang, tannbursta, náttföt eða neitt sem hann gat kallað sitt. Hann þvældist með allt það dót sem hann þurfti með sér fram og til baka.

Það sem vini mínum fannst samt verst var að enginn í nýju fjölskyldunni lagði sig fram við að kynnast honum eða sýndi honum sérstakan áhuga. Hann fékk bara að vera þarna. Hann fékk eiginlega aldrei að gera neitt einn með föður sínum og aldrei sýndi stjúpmóðir hans að hún vildi kynnast honum betur og rækta sín tengsl við hann. Honum leið eins og hann væri annars flokks. Það hlyti að vera eitthvað að honum fyrst að föður hans og stjúpmóður þótti meira til hálfsystkina hans koma. Hann hlyti að vera eitthvað gallaður, ekki nógu klár, ekki nógu skemmtilegur, ekki nógu góður o.s.frv.

Og þannig ólst hann upp, hann ólst upp með þá vissu að það hlyti eitthvað að vera að honum. Því faðir hans var mjög gott foreldri hinna barna sinna. Svo það hlyti eitthvað að vera að honum sjálfum fyrst hann var ekki tekinn inn í fjölskylduna. Vinur minn þessi átti reyndar frábæra móður og móðurfjölskyldu. Með þeim leið honum vel. En hann upplifði alltaf höfnun þegar hann kom til föður síns.

Svona hélt þetta áfram þangað til að vinur minn var orðinn fullorðinn. Alltaf var þessi tilfinning innra með honum að hann væri einfaldlega ekki nógu góður. Faðirinn og fjölskyldan hans virtust heldur ekki vera neitt sérstaklega stolt af því sem hann tók sér fyrir hendur eða af því hvernig manneskja hann var. Stundum komu upp atburðir sem vini mínum fannst mjög erfitt að takast á við. Til dæmis þegar faðirinn og fjölskyldan fóru reglulega í fjölskyldumyndatökur. Jafnvel sýndu honum myndirnar í næstu heimsókn og spurðu hvort honum þætti myndirnar ekki góðar, ljósmyndarinn hafði verið svo frábær. Enginn virtist taka eftir því að það vantaði einhvern inn á fjölskyldumyndina. Enginn nema vinur minn.

Saga þessi er sönn, henni hefur lítillega verið breytt til að afmá persónumerki en allar staðreyndirnar eru réttar. Vissulega eru margar hliðar á hverri sögu. En þessi hlið er saga barnsins og upplifun þess á æsku sinni og uppvexti.

Með þessari sögu vil ég biðja þig foreldri gott um að passa að börnin þín verði ekki „auka börn“ þó þú búir ekki lengur með þeim. Ekki heldur ef þau eru „bara“ stjúpbörnin þín. Passaðu þig alltaf að mynda þín einkatengsl við þau börn sem þú „átt“ og og berð ábyrgð á. Í  stjúpfjölskyldum er það mikilvægt að stjúpforeldri myndi og byggi upp tengsl á milli sín og stjúpbarna. Ekki taka barninu þínu sem sjálfgefnu. Ef það kemur bara aðra hvora helgi leyfðu því þá að finna að það eigi líka heimili hjá þér. Fagnaðu komu þess. Láttu það vita hvað það er gott að fá það. Passaðu að barnið eigi sér sinn stað á heimilinu. Helst herbergi, ef ekki þá allavega fastan stað til að sofa á, leikföng sem það á sjálft. Búðu til venjur með barninu þínu sem þið kannski bara eigi tvö saman. Láttu því finnast það verðskuldað, mikilvægt og að það hafi sitt að leggja í að gera fjölskylduna betri. Umfram allt láttu því finnast það vera hluti af fjölskyldunni og að það eigi jafn mikinn sess og aðrir fjölskyldumeðlimir.

 

Deildu