Stöndum saman gegn íhaldsöflunum – X-S

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/04/2013

25. 4. 2013

Ég ætla að kjósa Samfylkinguna á laugardaginn. Ég hef fylgst með kosningabaráttunni af athygli og lagt mig fram við að kynna mér ný sem gömul framboð. Íhaldsflokkarnir gömlu, xD og xB, koma ekki til greina og ég get satt að segja ekki fundið góð rök fyrir því að kjósa nýtt frjálslynt afl bara af því […]

xs samfylkinginÉg ætla að kjósa Samfylkinguna á laugardaginn. Ég hef fylgst með kosningabaráttunni af athygli og lagt mig fram við að kynna mér ný sem gömul framboð. Íhaldsflokkarnir gömlu, xD og xB, koma ekki til greina og ég get satt að segja ekki fundið góð rök fyrir því að kjósa nýtt frjálslynt afl bara af því það er nýtt.

Þjóðin sem elskar kvalara sinn
Ef marka má flestar kannanir ætlar annar hver Íslendingur að kjósa þá flokka sem bera höfuðábyrgð á hruninu (xD og xB)  en aðeins tæpur fjórðungur ætlar að kjósa þá flokka sem tóku til eftir vitleysuna (xS og xV).

Þetta ætla samlandar mínar að gera þrátt fyrir að ljóst sé að Ísland hefur náð undraverðum árangri í efnahagsmálum í stjórnartíð Samfylkingar og Vinstri grænna. Nær allar hagtölur benda til þess að hér hafi vel tekist til að byggja upp eftir hrun. Svo má ekki gleyma því að mikið hefur verið gert til að bæta mannréttindi í tíð „vondu“ vinstristjórnarinnar. Vil ég nefna þar sérstaklega breytingar á lögum um skráð trúfélög þar sem veraldleg lífsskoðunarfélög fengu loksins sama rétt og trúfélög. Það skiptir sannarlega máli hverjir stjórna þegar kemur að mannréttindum (önnur dæmi má finna hér).

Flestir Íslendingar ættu að vita að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn bera höfuðábyrgð á efnahagshruninu og kreppunni sem fylgdi í kjölfarið. Að sama skapi ættu flestir að sér grein fyrir því að stefna þessara flokka í gjaldeyrismálum er vonlaus, hörð afstaða gegn Evrópusambandinu kjánaleg og að loforð þeirra fyrir þessar kosningar muni að mestu gagnast þeim sem eiga mestu eignirnar og eru með hæstu tekjurnar.

Af hverju Samfylkingin?
Eftir að hafa skoðað flokkana sem eru í boði og stefnumál þeirra koma að mínu mati fimm framboð til greina fyrir frjálslynt og félagslega þenkjandi fólk: Björt framtíð, Lýðræðisvaktin, Samfylkingin, Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Píratar.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafnar frjálshyggjuþvaðrinu sem er mikilvægt og flokkurinn hefur staðið sig að mörgu leyti mjög vel í stjórn með Samfylkingunni. Í VG er fullt af góðu fólki sem ég ber virðingu fyrir. VG berst fyrir mannréttindum, umhverfisvernd, félagshyggju, nýrri stjórnarskrá og hefur þann þroska að vilja klára aðildarviðræður við ESB og leyfa þjóðinni að kjósa.  Stefna VG einkennist þó af of mikilli forsjárhyggju fyrir minn smekk en er góður kostur fyrir þá sem eru hvað lengst til vinstri í íslenskri pólitík.

Lýðræðisvaktin hefur einnig margt gott á stefnuskrá sinni sem er í anda jafnaðarstefnunnar. Afnám sérréttinda og krafa um að þjóðin fái réttláta hlutdeild af arði þjóðarauðlinda höfða sérstaklega vel til mín og auðvitað vil ég klára stjórnarskrármálið. Þorvaldur Gylfason er maður sem ég væri til í að sjá á þingi. Ég held reyndar að hann sé klassískur frjálslyndur jafnaðarmaður. Vandinn er að Lýðræðisvaktin er enn eitt dæmið um það að frjálslynt og félagslega þenkjandi fólk getur ekki ekki staðið saman gegn íhaldinu. Langflest stefnumál Lýðræðisvaktarinnar rúmast innan Samfylkingarinnar en ganga þvert gegn stefnumálum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Lýðræðisvaktin tekur fyrst og fremst fylgi frá óánægðum frjálslyndum kjósendum og styrkir þar með yfirburðarstöðu íhaldsflokkana. Ef þeirri ástæðu á ég mjög erfitt með að kjósa þann flokk.

Píratar bjóða upp á áhugaverða nýja pólitík og lausnir. Stefnan er samt svolítið ruglingsleg og ekki virðast Píratað hafa vandað sig nógu vel þegar þeir völdu inn á framboðslista. Þar er töluvert af sérstöku fólki með sérstakar hugmyndir svo vægt sé til orða tekið. Ég er þó að mestu leyti mjög ánægður með Birgittu og reyndar ýmsa aðra sem eru í framboði fyrir Pírata.  Óháð því hvernig Pírötum gengur á laugardaginn er ég viss um að góðar hugmyndir þeirra um upplýsingafrelsi, internetið og ný vinnubrögð muni hafa töluverð áhrif á stjórnmálin.

Björt framtíð er að mínu mati ekkert nema ný útgáfa af Samfylkingunni. Helstu talsmenn Bjartrar framtíðar tala eins og frjálslyndir jafnaðarmenn og stefna þeirra er eins og lélegt ljósrit af stefnu Samfylkingarinnar. Ég get ómögulega séð af hverju jafnaðarmenn, fólk sem vill sterkt mótvægi við íhaldsöflin, ætti að kjósa Bjarta framtíð í staðinn fyrir Samfylkinguna. Ég er sannfærður um að þessi dreifing á fylgi geri ekkert annað en að styrkja stærstu íhaldsflokka landsins. Björt framtíð talar fyrir nýrri og betri umræðuhefð á Alþingi en beitir óspart ódýrum frösum eins og „minna vesen“ og „minni sóun“.

Björt framtíð er með nánast nákvæmlega sömu áherslur í velferðarmálum og Samfylkingin, hefur stutt margt af því sem ríkisstjórnin hefur gert, vill klára aðildarviðræður við ESB og taka upp nýjan gjaldmiðil. Mér virðist að helsta ástæðan fyrir því að sumir jafnaðarmenn ætli að kjósa BF sé vegna þess að Samfylkingin hefur ekki staðist ýtrustu kröfur þeirra. Mér finnst það hálf barnaleg afstaða satt best að segja. Ég vil gjarnan hafa Guðmund Steingrímsson inn á þingi og í raun marga aðra sem eru í BF. Ég skil bara ekki af hverju félagslega þenkjandi fólk getur ekki staðið saman. Eina mögulega ástæðan fyrir því að ég gæti hugsað mér að kjósa BF væri sú að ég teldi að það þyrfti að refsa Samfylkingunni sérstaklega fyrir að hafa staðið sig mjög illa í stjórn. Staðreyndin er sú að Samfylkingin undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefur staðið sig að mestu mjög vel með aðstoð góðs fólks innan VG.

Ég ætla að kjósa Samfylkinguna vegna þess að flokkurinn hefur staðið sig vel að langmestu leyti í stjórn með Vinstri grænum. Ég er hundfúll yfir því að stjórnarskrármálið var ekki klárað og það er ýmislegt sem ég tel að hefði verið hægt að gera betur (eins og ég hef reglulega bent á í greinum undanfarin ár). Ég er alls ekki sammála Samfylkingunni í öllum málum. Staðreyndin er sú að besta leiðin til að halda íhaldsöflunum frá ríkisstjórn er að núverandi stjórnarflokkar fái góða kosningu á laugardag. Þá er sterk Samfylking afar mikilvæg.

Ekki síður skiptir miklu máli að stefna Samfylkingar fyrir þessar kosningar er að mestu leyti mjög góð og raunsæ. Samfylkingin hefur sem betur fer ekki tekið þátt í yfirboði og lýðskrumi. Samfylkingin ætlar að klára viðræður við ESB og taka upp nýjan gjaldmiðil. Samfylkingin hefur slegið á hugmyndir um flata skattlækkun og flata niðurfellingu skulda. Samfylkingin leggur áherslu á koma til móts við þá sem keyptu húsnæði á versta tíma og þá sem eru í greiðsluvanda. Þar á meðal leigjendur sem nánast alveg hafa gleymst.

Besta leiðin til að halda íhaldsöflunum frá er að félagshyggjufólk standi saman. Ekki refsa stjórnarflokkunum fyrir það eitt að þeim hefur ekki tekist að skapa paradís á Íslandi á aðeins fjórum árum. Hér varð hrun!

Fráfarandi vinstristjórn hefur gert ótrúlega margt gott og ég er henni þakklátur fyrir það góða sem hún hefur staðið fyrir. Ekki sammála öllu en maður á að þakka fyrir það sem vel hefur verið gert. Takk!

X-S!

Deildu