Fíkniefnastríðið er tapað – skaðaminnkun er málið

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/02/2013

21. 2. 2013

Stríðið gegn fíkniefnum er bæði mannskemmandi  og vita gagnslaust. Því fagna ég aukinni umfjöllun um skaðaminnkunarúrræði. Misnotkun vímuefna er heilbrigðisvandamál og við henni þarf að bregðast með félagslegum úrræðum. Heilbrigðisþjónustu, fræðslu, umhyggju og virðingu. Afskaplega erfitt getur verið að tjá sig um lögleiðingu vímuefna án þess að vera sakaður um að vera dópisti, glæpamaður eða […]

Stríðið gegn fíkniefnum er bæði mannskemmandi  og vita gagnslaust. Því fagna ég aukinni umfjöllun um skaðaminnkunarúrræði. Misnotkun vímuefna er heilbrigðisvandamál og við henni þarf að bregðast með félagslegum úrræðum. Heilbrigðisþjónustu, fræðslu, umhyggju og virðingu.

Afskaplega erfitt getur verið að tjá sig um lögleiðingu vímuefna án þess að vera sakaður um að vera dópisti, glæpamaður eða skeytingarlaus um þá eymd sem ávana- og vímuefni valda einstaklingum og samfélaginu. Svo er maður stundum sakaður um að vera frjálshyggjumaður, sem mér þykir næstum því verra.

En ekkert af þessu á við um mig. Ég styð afnám bannstefnunnar í skrefum vegna þess að ég er viss um að skaðinn sem bannstefnan veldur sé mun meiri meiri en ávinningurinn. Eina raunhæfa leiðin til að vinna gegn skaðlegum áhrifum vímuefna er að beita skaðaminnkunarúrræðum (Harm reduction).

Afstaða mín byggist í hnotskurn á eftirfarandi staðreyndum:

1)      Hið svokallaða stríð gegn fíkniefnum virkar ekki
Fátt bendir til þess að hertar refsingar við fíkniefnabrotum dragi úr neyslu svo nokkru nemi og aukin löggæsla hefur lítið gert til að draga úr framboði fíkniefna. Það er líklegast ekki hægt að stöðva dreifingu þessara efna án þess að fórna sjálfu frelsinu í leiðinni.  Ef það er ekki einu sinni hægt að koma í veg fyrir fíkniefnanotkun í rammgerðum fangelsum þá er heldur ekki hægt að stöðva dreifingu ólöglegra efna utan þeirra. Reynsla síðustu áratuga sýnir að stríðið er löngu tapað. Í heimildarmyndinni Breaking the Taboo kemur skýrt fram að bannstefnan skilar engu nema aukinni eymd. Þetta er ekki skoðun einhverra róttæklinga heldur einnig margra núverandi og fyrrverandi þjóðarleiðtoga.

2)      Bannstefnan skaðar fíklana (sjúklingana) sjálfa
Neytendur ólöglegra efna eru stimplaðir glæpamenn þar sem neysla þeirra er ólögleg. Stimplun og fordæming veldur því að þeir leita sér síður aðstoðar. Neytendur eru háðir glæpamönnum og glæpasamtökum sem sjá um að flytja inn og selja efnin á uppsprengdu verði og án alls eftirlits. Hætta á ofskömmtun og útbreiðslu sjúkdóma, til dæmis vegna óhreinna sprautunála, eykst með banni og fordæmingu. Því má svo ekki gleyma að fíklarnir sjálfir, þeir hinir sömu og verið er að vernda með banninu,  gerast svo margir sjálfir innflytjendur, sölumenn, þjófar og jafnvel ofbeldismenn í örvæntingafullri leið sinni til að fjármagna næsta skammt. Þar með eru fórnarlömbin orðin að brotamönnum, sjúklingarnir komnir á bak við lás og slá og hringekja fáránleikans fullkomnuð.

Ekki má heldur gleyma þeirri sorglegu staðreyndar að sjúkir neytendur á öllum aldri finna sig tilneydda til að selja líkama sinn til að fjármagna neyslu sína. Ég hygg að afnám bannstefnunar sé ein besta aðferðin til að draga úr mansali og vændi sem stundað er vegna neyðar.

3)      Ofbeldisfullt glæpahyski græðir á banninu
Ef við myndum afnema bannstefnuna yrðu margir helstu glæpamenn landsins „atvinnulausir“. Afbrotamenn og ofbeldishrottar byggja afkomu sína mikið til á því að selja ólögleg fíkniefni. Þetta er skiljanleg afleiðing þar sem gróðavonin getur verið afar mikil. Í lögleysu undirheimanna styrkja glæpamenn stöðu sína með ofbeldi og hótunum. Fórnarlömb ofbeldisins eru ekki „bara“ aðrir ofbeldismenn heldur einnig saklausir borgarar og sjúklingar.

4)      Borgaralegum réttindum almennings er ógnað
Baráttan gegn „fíkniefnadjöflinum“ bitnar á venjulegu fólki með margvíslegum hætti. Í nafni almannheilla er kallað á aukið eftirlit með borgurunum. Símhleranir, húsleitir og aðrar árásir á friðhelgi einstaklingsins fylgja fíkniefnastríðinu. Blásaklaust fólk verður stundum fyrir barðinu á lögregluaðgerðum og þarf að gera grein fyrir ferðum sínum og athöfnum án þess að hafa til nokkurs saka unnið.

Stríðið gegn fíkniefnum hefur áhrif á saklaust og oftast fátækt fólk um allan heim. Með því að styðja áframhaldandi bann erum við með óbeinum hætti að styðja mannréttindabrot og árásir á fátækt fólk. Það er mikið til fátækt fólk í fátækum löndum sem framleiðir ólöglegu fíkniefnin til að geta séð fjölskyldu sinni farborða. Þetta fólk verður fyrir ofbeldi bæði af hálfu glæpasamtaka og yfirvalda. Í sumum löndum eru heilu herdeildirnar sendar til að uppræta glæpasamtök með gríðarlegum fórnarkostnaði. Meðlimir glæpasamtaka hafa sjálfir margir hverjir alist upp við mikla fátækt.  Ofbeldið er gríðarlegt.  Þannig er talið að um 12 þúsund manns hafi verið drepnir í Mexíkó árið 2009 í baráttunni við fíkniefnin. Glæpasamtök myrða fólk í stórum stíl og að auki deyja margir og örkumlast í vonlausu stríði yfirvalda gegn fíkniefnunum. Eins og áður segir er býr stærstur hluti fórnarlambana við sárafátækt. Stríðið gegn fíkniefnum er stríð gegn venjulegu fólki.

5)      Bannið skekkir sýn okkar á samfélagsvandamál
Þó ólögleg fíkniefni geti augljóslega verið mjög skaðleg, eyðilagt fjölskyldur og gert marga að sjúklingum þá veldur bannið og fordæmingin því að margir, sérstaklega stjórnmálamenn í atkvæðaleit,  einblína um of á fíkniefnin sem slík sem orsakavald. Oft má auðvitað rekja óhamingju fólks beint til neyslu.  Í mörgum tilfellum má þó líklegast rekja skaðlega neyslu til félagslegra vandamála, aðstæðna og veikinda. Með því að eyða of mikilli orku í að framfylgja bannstefnunni skekkist sýn okkar og við eigum erfiðara með að sjá margvíslegar orsakir samfélagsvandamála. Að sama skapi dregur úr getu og vilja samfélagsins til beita félagslegum úrræðum sem gætu hjálpað svo mörgum.

6)      Fjárhagslegur kostnaður er mikill
Bannið hefur í för með sér gríðarlega mikinn kostnað fyrir lögreglu, tollayfirvöld og dómstóla. Þar sem bannið skilar litlum árangri (og veldur gríðarlegum skaða) er þessi kostnaður hrein sóun. Nær væri að verja fjármunum hins opinbera í að efla velferðarþjónustuna og draga úr félagslegum vandamálum.

Markmiðið er að draga úr eymd
Þar sem að ég er þeirrar skoðunar að helsta markmið stjórnmálana sé að draga úr eymd og auka velferð almennings er ég þeirrar skoðunar að afnema eigi bannstefnuna gagnvart fíkniefnum. Þess í stað á að stórefla mannúðlega aðstoð til þeirra sem verða vímuefnunum að bráð. Afstaða mín byggist ekki á einhverri einfaldri frjálshyggjuhugmyndafræði um frelsi einstaklingsins (enda ekki frjálshyggjumaður). Ég er einfaldlega sannfærður um að við getum skapað betra samfélag með því að einbeita okkur að félagslegum lausnum.

Skaðaminnkun er málið.

Sjá nánar:

Deildu