Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar um vímuefnamál 2001

Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar um vímuefnamál 2001

Eftirfarandi ályktun, sem ég tók þátt í að móta, var samþykkt á landsfundi Samylkingar 2001. Er þetta ein framsæknasta stefna í fíkniefnamálum sem „stór“ stjórnmálaflokkur hefur mótað á Íslandi og reyndar líklegast um allan heim á þessum tíma. Lítið hefur verið farið eftir þessari ályktun en samþykkt hennar sýnir þó að stjórnmálaflokkar geta vel endurskoðað afstöðu sína í umdeildum málum (leturbreytingar eru mínar):

„Misnotkun vímuefna er alvarlegt félags- og heilbrigðisvandamál. Samfylkingin vill auka og bæta þjónustu við sjúka vímuefnaneytendur og berst gegn vaxandi fordómum í þeirra garð. Brýnasta verkefnið er að auka aðgang að meðferð og tryggja heimilislausum vímuefnaneytendum húsaskjól og heilbrigðisþjónustu, hvort sem þeir eru tilbúnir að hætta neyslu eða ekki. Nauðsynlegt er að umfjöllun um skaðsemi áfengisneyslu annars vegar og fíkniefna hins vegar fari fram af skynsemi og yfirvegun. Jafnhliða þeim sjúkdómi sem alkahólisminn er hafa flestir vímuefnaneytendur frá unga aldri glímt við félags- og sálfræðileg vandamál þar sem orsaka neyslunnar er að leita. Samfylkingin telur brýnt að lögð verði aukin áhersla á að efla félagsfærni og tilfinningaþroska nemenda frá upphafi skólagöngu.

Samfylkingin hafnar þeirri stefnu sem ríkt hefur í þessum málum fram að þessu. Ekkert bendir til að hún hafi skilað bættri lýðheilsu, skaðminni neyslu eða færri vímuefnasjúklingum. Þessi stefna hefur leitt til þess að fjöldi ungmenna eru brennimerkt til lífstíðar og möguleikar þeirra til náms og starfs þannig skert. Landsfundurinn beinir því til þingmanna flokksins að þeir flytji frumvarp sem tryggir að minniháttar fíkniefnabrot verði ekki færð á sakaskrá eða tekin út eftir skamman tíma. Samfylkingin krefst þess að um ólögleg vímuefni sé rætt af skynsemi og hafnar hræðsluáróðri á þessu sviði sem öðrum. Landsfundurinn felur formanni og framkvæmdastjórn að efna til opinnar umræðu um heildstæða endurskoðun á lögum um áfengi og önnur vímuefni.“

___
Nánar:
Umfjöllun um fíkniefnamál á Skoðun

 

Deildu