“Jón Ásgeir hafði samband og biður um að frétt sé eytt”

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

22/02/2013

22. 2. 2013

Ágæt grein Magnúsar Halldórssonar, viðskiptafréttastjóra Stöðvar 2 og Vísis, vekur upp gamlar minningar. Það er full ástæða til að taka undir áhyggjur Magnúsar. Langflestir blaðamenn láta ekki ritskoða sig með beinum hætti en töluverð hætta er á sjálfsritskoðun. Eitt sinn gerði ég tilraun til að verða blaðamaður og starfaði meðal annars á Vísi. Þar varð […]

Ágæt grein Magnúsar Halldórssonar, viðskiptafréttastjóra Stöðvar 2 og Vísis, vekur upp gamlar minningar. Það er full ástæða til að taka undir áhyggjur Magnúsar. Langflestir blaðamenn láta ekki ritskoða sig með beinum hætti en töluverð hætta er á sjálfsritskoðun.

Eitt sinn gerði ég tilraun til að verða blaðamaður og starfaði meðal annars á Vísi. Þar varð ég var við grófa ritskoðun. Orðsendingarnar frá mínum yfirmanni voru skýrar og sumar skriflegar. Augljóst var að Jón Ásgeir hafði bein áhrif á hvaða fréttir birtust og hvaða fréttir hreinlega hurfu af visir.is.

Þegar Jón Ásgeir var ósáttur við eina frétt sem ég skrifaði (reyndar beint upp úr kvöldfréttum Stöðvar 2 eins og venja var á þessum tíma) var mér beinlínis sagt að það kæmi ekki til mála að fá komment frá Jóni Ásgeiri, hann vildi fréttina út og það strax.

Yfirmaður sendi mér tölvupósta með skýrum reglum
“Jón Ásgeir hafði samband og biður um að frétt sé eytt vegna þess að fréttin er röng.”

„Hafa þarf í huga hver eigandi miðilsins er“

„Hafa ber í huga þessa einföldu reglu – hafa samband við forsvarsmenn Baugs áður en svona fréttir eru birtar.”

Fréttin sem ég skrifaði hvarf auðvitað samdægurs. Enginn viðurkenndi að hafa tekið fréttina út. Þegar ég spurði yfirmann minn hvort Jón Ásgeir væri með aðgang að fréttakerfi Vísis og hvort hann hefði sjálfur tekið fréttina út var svarið merkilegt: „Ég veit það ekki“.

Ég mótmælti þessum vinnubrögðum og stuttu síðar lauk starfsferli mínum á Vísi formlega af öðrum ástæðum. En andrúmsloftið á vinnustaðnum varð svolítið spes.

Sjá nánar:
Áfram um ritskoðun (Nákvæm lýsing á ofangreindu atviki)

Ritskoðun og eignarhald á fjölmiðlum (Ég er vantrúaður á samsæri. Sjálfsritskoðun er hættulegust)

Aðrar greinar um ritskoðun

Deildu