Ljóst er að stóri bróðir fylgist með þér. En hver fylgist með stóra bróðir?
Samkvæmt svari innanríkisráðherra við fyrirspurn á Alþingi þá hafa lögreglustjóraembætti landsins og og embætti sérstaks saksóknara óskað eftir heimild til hlerunar 875 sinnum frá ársbyrjun 2008. Nánast engum óskum embættanna hefur verið hafnað. Ekki hafa allir verið látnir vita eftir á að símar þeirra hafi verið hleraðir Stundum vegna þess að lögreglan segist ekki hafa fundið þá sem voru undir eftirliti. Mér sýnist þó að stóri bróðir gæti verið að fylgjast með þér án þess að þú komist nokkurn tímann að því.
Mér finnst þetta stórfrétt og ég velti fyrir mér nokkrum spurningum. Hverja er verið að hlera og hvers vegna? Er það gert vegna fíkniefnabrota, efnahagsbrota, af ótta við hryðjuverk eða af öðrum ástæðum? Hvers vegna hefur aðeins sex beiðnum um hlerarnir verið hafnað? Hvernig eru slíkar beiðnir metnar? Hlerun er auðvitað alvarlegt brot á friðhelgi einkalífsins og ætti aldrei að vera samþykkt án ríkra ástæðna (sem getur vel verið að sé tilfellið).
Getur almennur borgari haft samband við lögreglu og fengið upplýsingar um hvort hann hafi verið hleraður? Hvað með saklaust fólk sem er hlerað vegna þess að það hringir í eða fær símtal frá einhverjum sem er undir eftirliti? Hvað er gert við allar þessar upplýsingar? Fá þeir, þessir saklausu, að vita að samtöl þeirra hafi verið hleruð?
Er einhver sem „hlerar“ lögregluna? Ríkissaksóknari fer með eftirlit með símhlerunum en hver hefur almennt eftirlit með því að opinberar stofnanir fari varlega með vald sitt? Hvernig fer það eftirlit fram?
Þetta eru mikilvægar spurningar því um er að ræða vald sem getur verið stórhættulegt sé það misnotað.