Ritskoðun og eignarhald á fjölmiðlum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

13/01/2004

13. 1. 2004

Andrés Magnússon skrifar áhugaverðan pistil í Morgunblaðið í morgun þar sem hann fjallar um meint afskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af fréttamiðlum sínum. Ólíkt Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, gerir Andrés tilraun til að rökstyðja þá skoðun sína að Fréttablaðið og aðrir „Baugsmiðlar“ séu ritstýrðir af eigendum sínum. Minnist Andrés meðal annars á reynslu undirritaðs af ritskoðun af […]

Andrés Magnússon skrifar áhugaverðan pistil í Morgunblaðið í morgun þar sem hann fjallar um meint afskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af fréttamiðlum sínum. Ólíkt Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, gerir Andrés tilraun til að rökstyðja þá skoðun sína að Fréttablaðið og aðrir „Baugsmiðlar“ séu ritstýrðir af eigendum sínum. Minnist Andrés meðal annars á reynslu undirritaðs af ritskoðun af hálfu Jóns Ásgeirs, en um hana hefur verið fjallað hér á Skoðun.


Í ítarlegri grein Andrésar er þó aðeins eitt dæmi (ritskoðunin á Vísi) sem sýnir fram á það sem kalla mætti beina ritskoðun Jóns Ásgeirs á eigin miðli og annað dæmi sem bendir til þess að Baugur hafi reynt að hafa áhrif á útbreiðslu Séð og heyrt. Önnur dæmi sem Andrés tekur byggja mikið til á getgátum og samsæriskenningum.

Dæmið sem Andrés tekur af minni reynslu á vefnum Vísir.is er hins vegar rétt og get ég staðfest sannleiksgildi þess. Í grein Andrésar segir:

Skipaði blaðamönnum að eyða fréttum
Í nýliðnum nóvember birti Sigurður Hólm Gunnarsson, fyrrverandi blaðamaður á Vísi, greinina „Er Fréttablaðið ritskoðað?“, en Jón Ásgeir er einn helsti eigandi visir.is. Í pistli sínum sagði Sigurður meðal annars:

„Reynir Traustason, blaðamaður á Fréttablaðinu, fullyrti í gær að Jón Ásgeir hafi aldrei skipt sér af ritstjórn blaðsins. Ég myndi líklegast trúa Reyni ef ég vissi ekki af þeim afskiptum sem Jón Ásgeir hafði af ritstjórn www.visir.is á meðan sá vefur var enn á lífi.

Veit ég til þess að Jón Ásgeir skipaði blaðamönnum og yfirmönnum á Vísi að taka út ýmsar fréttir sem hann vildi ekki að yrðu birtar. Þó að blaðamenn (þar á meðal undirritaður) neituðu að fylgja þessum fyrirskipunum hurfu fréttirnar samt. Þegar blaðamenn kvörtuðu var einfaldlega sagt að hafa þyrfti í „huga hver eigandi miðilsins er“ áður en fréttir yrðu birtar.

Er það því skrítið að ég efist um hlutleysi eigenda Fréttablaðsins?“

Ritstjóri vefjarins Fréttir.com óskaði eftir nánari skýringum á þessu máli hjá Sigurði, sem svaraði að hann gæti sannað mál sitt: „Já, ég á ennþá allan tölvupóst til, þar sem mér var sagt aðeyða fréttum og að ég þyrfti að hafa í „huga hver eigandi miðilsins er“ áður en ég birti aðrar fréttir. Einnig þegar sagt var við mig: „Hafa ber í huga þessa einföldu reglu – hafa sambandi við Baug áður en svona fréttir eru birtar“.“

En Sigurður er ekki einn um að segjast hafa orðið fyrir ritskoðun Jóns Ásgeirs. Ágúst Borgþór Sverrisson, fyrrverandi samstarfsfélagi Sigurðar á Vísi segir m.a.:

„Ég starfaði á Vísir.is á umræddu tímabili og get staðfest allt sem komið hefur fram hjá Sigurði Hólm … á þessu tímabili komu upp tvö tilvik þar sem fréttum var eytt með þeim hætti sem Sigurður lýsir … ritskoðun var beitt a.m.k. tvisvar á þessu stutta tímabili og mér er tjáð að það hafi gerst a.m.k. einu sinni áður.“

Soffía Steingrímsdóttir, ritstjóri Vísis, staðfesti að frétt Sigurðar hefði verið tekin út að beiðni Jóns Ásgeirs, sem stangast algerlega á við það sem hann hélst sjálfur fram. Aðspurður 17. nóvember um afskipti sín af fréttaflutningi miðla sinna svaraði hann því til, að hann skipti sér aldrei af þeim, enda eyðilegðu slík inngrip trúverðugleika viðkomandi miðla. Þá vitum við það.“

Nokkru eftir að Fréttir.com birti frétt sína hafði fréttastofa Útvarps samband við mig til að fá frétt Fréttir.com staðfesta. Síðar sama dag var fjallað um greinar mínar í fréttum Rúv. Eftir að fréttin hafði verið spiluð í hádegisfréttum hafði blaðamaður DV samband við mig. Hann vildi einnig vita hvort saga mín væri sönn og aftur staðfesti ég það. Að lokum spurði ég blaðamanninn fullur efasemdar hvort hann teldi að DV myndi birta frétt um þetta mál þar sem það kæmi sér illa fyrir eigendur blaðsins. Hann sagðist eiga eftir að tala við ritstjórnina en hann byggist ekki við öðru. Mér vitandi var fréttin aldrei birt, þó kann að vera að hún hafi einfaldlega farið fram hjá mér.

Samsæri eða mannlegur breyskleiki?
Auðvitað hafa eigendur fjölmiðla áhrif á fréttaflutning þeirra. Oftast óbeint en eins og dæmin sanna einnig stundum beint. Fréttamaður sem veit hver vinnuveitandi sinn er hlýtur að hugsa sig tvisvar um áður en hann birtir fréttir sem koma vinnuveitandanum illa. Þetta hefur oft lítið með heiðarleika fréttamannsins að gera því oftast á slík sjálfsritskoðun sér stað án þess að fréttamaðurinn geri sér grein fyrir því sjálfur. Ef fréttamaðurinn veit um dæmi þar sem starfsfélagar hans hafa fengið skömm í hattinn eða lent í vandræðum vegna frétta sem eigendurnir voru ósáttir við magnast sjálfsritskoðunin enn frekar. Það er mannlegt eðli vilja komast hjá vandamálum og leiðindum.

Önnur tegund sjálfsritskoðunar er tilhneiging mannsins til að vilja „spila með liðinu“. Starfsmenn fyrirtækja vilja vera hluti af liðsheildinni og þeim þykir jafnvel vænt um vinnustað sinn. Þegar menn eru búnir að andlega skrá sig í eitthvað lið skekkist sýn þeirra á raunveruleikanum. Menn í liði A eru fljótir að sjá galla í fari B á meðan sambærilegir gallar í þeirra eigin liði eru nánast ósýnilegir. Rannsóknir hafa sýnt ótrúlega „hæfni“ manna til þess að blekkja sjálfan sig með þessum hætti.

Afar langsótt er að álykta sem svo að Jón Ásgeir sé höfuðpaur í einhverju mögnuðu samsæri um að ritstýra miðlum sínum beint af þeirri einföldu ástæðu að staðreyndir málsins benda ekki til þess. Mér vitanlega hefur aðeins einn blaðamaður kvartað yfir því að hafa verið ritskoðaður beint, og er það sá sem þetta skrifar. Ef blaðamenn Fréttablaðsins eða DV væru reglulega ritskoðaðir með beinum hætti væru þeir löngu búnir að segja frá því. Réttlætiskennd blaðamanna er oftast meiri en svo að þeir láti slíkt yfir sig ganga. Þar sem ég þekki vel nokkra góða menn sem vinna sem blaðamenn á Fréttablaðinu veit ég að þeir myndu aldrei sætta sig við slíka ritskoðun.

Lög um eignarhald nauðsynleg
Hvort sem ritskoðun fjölmiðla á sér stað vegna beinnar íhlutunnar eigenda eða vegna óbeinna áhrifa þeirra sýnir það nauðsyn þess að til séu einhverjar reglur um eignarhald á fjölmiðlum. Skiptir þá engu máli hverjir eiga fjölmiðlana í dag. Jafnvel þó eigendur skipti sér aldrei beint af fréttastofum í sinni eigu er líklegt og í raun afar líklegt að eignarhaldið eitt og sér muni hafa áhrif á fréttir. Eins og áður segir er sjálfsblekking og sjálfsritskoðun hluti af mannlegu eðli.

Í lýðræðisríkjum er fátt eins mikilvægt og fjölbreytt og gagnrýnin skoðanaskipti. Ef eignarhald fjölmiðla færist yfir á hendur fárra einstaklinga er ljóst að það dregur úr fjölbreyttri og gagnrýnni umræðu. Því er mikilvægt að tryggja að fjölmiðlar séu í eigu sem flestra.

Deildu