Kaþólski menntamálaráðherrann yfirheyrður

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

12/01/2004

12. 1. 2004

Í viðtalsþættinum „Maður á mann“ sem sýndur var á Skjá einum í gær tók Sigmundur Ernir Rúnarsson viðtal við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir, nýja menntamálaráðherrann okkar. Þorgerður Katrín er kaþólsk en tilheyrir ekki Þjóðkirkjunni eins og mikill meirihluti þjóðarinnar og var ekki annað að heyra á spurningum Sigumundar en að hann hefði nokkrar áhyggjur af þessari […]

Í viðtalsþættinum „Maður á mann“ sem sýndur var á Skjá einum í gær tók Sigmundur Ernir Rúnarsson viðtal við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir, nýja menntamálaráðherrann okkar. Þorgerður Katrín er kaþólsk en tilheyrir ekki Þjóðkirkjunni eins og mikill meirihluti þjóðarinnar og var ekki annað að heyra á spurningum Sigumundar en að hann hefði nokkrar áhyggjur af þessari trúarafstöðu ráðherrans. Aldrei hef ég heyrt nokkurn íslenskan stjórnmálamann verið yfirheyrðan jafn ítarlega um trúarskoðun sína og gert var í þessum þætti.


Þorgerður Katrín, sem hefur staðið sig ágætlega í að berjast fyrir ýmsum frelsis- og framfaramálum, var að óþörfu látin svara því hvort hún væri á móti jafnrétti karla og kvenna, mannréttindum samkynhneigðra, réttinum til fóstureyðinga og svona má áfram telja. Hvers vegna? Jú, vegna þess að hún er kaþólsk og páfinn er á móti fóstureyðingum, réttindum samkynhneigðra, getnaðarvörnum og jöfnum rétti karla og kvenna. Ef verk og málflutningur Þorgerðar Katrínar hefðu í gegnum tíðina verið á þann veg að ætla mætti að hún væri íhaldsmaður í anda páfans hefðu spurningar þáttastjórnandans verið eðlilegar. En þar sem allir sem hafa eitthvað fylgst með pólitík vita að Þorgerður Katrín er saklaus af slíkri íhaldssemi var þetta spurningaflóð kjánalegt og lyktaði af fordómum gagnvart „framandi“ lífsskoðun.

Hefur íslenskur ráðherra sem er í Þjóðkirkjunni (líklegast allir aðrir en Þorgerður Katrín) verið spurður álíka spurninga? Ég held ekki. Álíka taktlaust væri að spyrja alla þá ráðherra sem tilheyra Þjóðkirkjunni hvort þeir séu gyðingahatarar af því að „stofnandi“ hinnar lútersku trúar var ofstækisfullur gyðingahatari. Lúter var reyndar líka á móti trúfrelsi, jafnrétti kynjanna og hvatti þar að auki til ofbeldis. Þarf virkilega að spyrja alla sem tilheyra Þjóðkirkjunni hvort þeir aðhyllist slíka vitleysu? Nei, vitaskuld ekki ef ekkert í framferði þeirra og málflutningi tengir þá við slíkar skoðanir. Flestir Íslendingar eru sem betur fer frjálslyndir í trú sinni og fordæma hverskyns kúgun og ofbeldi. Gildi þá einu hvort þeir eru lúterskir, kaþólskir, búddistar, múslimar eða hefðbundnir íslenskir andatrúarmenn.

Forðumst alhæfingar
Gagnleg leið til að draga úr fordómum sem eiga það til að blossa upp í fjölmenningarsamfélögum er að vanda allan málflutning um ólíkar lífsskoðanir og forðast það að dæma heilu hópana út frá einstökum tilvikum. Það eru ekki allir kaþólikkar á móti getnaðarvörnum, eða allir lúterstrúarmenn sem trúa á djöfulinn. Ekki allir múslimar vilja kúga konur og lifa eftir gömlum trúarlögum og svona má áfram telja. Þetta er ekki svona einfalt.

Það var augljóst að Þorgerði Katrínu leið ekki vel að sitja undir því að vera bendluð við þá afturhaldshyggju sem lýst hefur verið hér og rétt eins og mér fannst henni eflaust margar þær spurningar sem hún fékk óviðeigandi og taktlausar. Hún benti líka réttilega á að þó hún væri kaþólsk þyrfti hún ekki að vera sammála páfanum í einu og öllu.

Þorgerður Katrín var þó ekki alveg laus við trúarlega fordóma sjálf því hún sá sig tilneydda til að lýsa því sérstaklega yfir að siðferði væri skilgetið barn kristinnar trúar, sem vitaskuld er bæði alrangt og afar móðgandi gagnvart öllum þeim sem ekki trúa á Jesú Krist.

Ítarefni
Kirkjulegt siðferði afhjúpað
Fordómar eða umburðalyndi?
Marteinn Lúter – siðbótamaður eða siðleysingi?
Siðferði, trú og trúleysi
Trúarbrögð og siðmenning

Deildu