Kjaftæðisvaktin: Hómópatía gegn inflúensu?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

14/01/2013

14. 1. 2013

Inflúensan réðst inn á heimilið mitt í gær með nokkrum látum og ég ákvað því að fríska upp á þekkingu mína á bólusetningum og meðferð við þessari leiðindar veirusýkingu. Með hjálp dr. Google fann ég strax þessa fínu upplýsingasíðu hjá Landlækni en með sömu leit fann ég einnig upplýsingar á íslensku um hvernig hægt er […]

vatnsdropiInflúensan réðst inn á heimilið mitt í gær með nokkrum látum og ég ákvað því að fríska upp á þekkingu mína á bólusetningum og meðferð við þessari leiðindar veirusýkingu. Með hjálp dr. Google fann ég strax þessa fínu upplýsingasíðu hjá Landlækni en með sömu leit fann ég einnig upplýsingar á íslensku um hvernig hægt er að koma í veg fyrir/lækna/draga úr einkennum inflúensu með hómópatíu.

Á vefsíðunni Htveir er talað um að hómópatía sé mild og áhrifamikil náttúrumeðferð gegn hinum og þessum kvillu. Á sérstakri undirsíðu um inflúensu er bent á fjölmargar remedíur sem geta hjálpað gegn inflúensu. Á þessari merku síðu eru eftirfarandi skilaboð til þeirra sem eru með bráðatilfelli inflúensu: „Því er áríðandi fyrir þá að leita sér aðstoðar hjá hómópata eða lækni.“

Nú má fólk auðvitað trúa hverskyns þvælu en það að hvetja fólk með mikil sjúkleg einkenni að leita til hómópata er alvarlegt mál. Hómópatía er fullkomlega ósönnuð aðferð og má með sanni kalla gervivísindi. Það sem meira er þá hefur hómómatía verið rannsökuð nokkuð og niðurstöður benda til þess að meðferð hómópata hafi enga virkni umfram lyfleysuáhrif. Þrátt fyrir þetta eru hómópatískar remedíur seldar í sumum apótekum, fjölmiðlar fjalla um þessi efni gagnrýnislaust og hómópatarnir sjálfir duglegir við að kynna og auglýsa töfralækninguna út um allt.

Nú kann að vera að ég sé hundleiðinlegur og ferkantaður en ég er þeirrar skoðunar að það sé siðferðilega rangt að auglýsa og selja gervilyf með þessum hætti. Peningar eru hafðir af veiku fólki auk þess sem það er auðvitað stórhættulegt að letja fólk með beinum eða óbeinum hætti að leita til læknis og nýta sér gagnreyndar meðferðir.

Deildu