Gömul hugsjón – Menntun með markmið

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

11/09/2010

11. 9. 2010

Stundum, þegar ég hef ekkert að gera, skoða ég gömul skrif sem leynast í tölvunni minni eða á www.skodun.is. Það getur verið áhugaverð reynsla. Svolítið eins og að ferðast aftur í tímann. Sumar skoðanir hafa breyst, aðrar ekki. Fyrir tilviljun fann ég um 20 blaðsíðna greinargerð sem ég skrifaði fyrir menntanefnd Ungra jafnaðarmanna (þá ungliðahreyfing […]

Stundum, þegar ég hef ekkert að gera, skoða ég gömul skrif sem leynast í tölvunni minni eða á www.skodun.is. Það getur verið áhugaverð reynsla. Svolítið eins og að ferðast aftur í tímann. Sumar skoðanir hafa breyst, aðrar ekki.

Fyrir tilviljun fann ég um 20 blaðsíðna greinargerð sem ég skrifaði fyrir menntanefnd Ungra jafnaðarmanna (þá ungliðahreyfing Alþýðuflokksins) árið 1998. Hef verið 22 ára gamall og uppfullur af hugsjónum og bjartsýni.  Greinargerðin kallast „Menntun með markmið“. Sumt svolítið barnalegt, annað um of háfleygt en margt bara ansi gott. Er nokkuð stoltur af þessum unga dreng sem skrifaði þetta.  Margt af því sem þarna er skrifað stenst tímans tönn og á virkilega vel við enn þann dag í dag.

Kaflinn um grunnskólann er bara ansi góður:

II- Grunnskólinn

Grunnskólakerfi það sem nú er við lýði er óásættanlegt kerfi, það er andlega bælandi og því mannskemmandi. Ástæðan fyrir því er sú að núverandi skólakerfi er, að miklu leyti, byggt upp á úreltum forsendum. Í þessum kafla viljum við kynna tillögur okkar um nýtt og betra skólakerfi og draga fram þá kosti sem við teljum það hafa umfram það kerfi sem er nú við lýði.

Við erum þess fullvissir að ef þú, lesandi góður, lest þennan kafla með opnu en jafnframt gagnrýnu hugarfari munir þú komast að sömu niðurstöðu og við (og fjölmargir aðrir) höfum komist að, að núverandi skólakerfi þarf að breyta verulega ef það á að skila af sér nemendum sem eru jákvæðir, umburðarlyndir og upplýstir einstaklingar sem kunna þær lífsleiðir sem stuðla að þeirra eigin hamingju og annarra.

Menntun, til hvers?
Grunnskólinn á að auka möguleika einstaklingsins til þess að öðlast hamingjusamt líf. Þetta reynir grunnskólinn í dag að gera með því að mennta einstaklinginn þannig að hann sé betur í stakk búinn til þess að starfa í nútímasamfélagi. Menntun þessi felst m.a. í því að kenna börnum að lesa, skrifa og reikna, auk þess sem börnin eru látin læra íslensku, stærðfræði, sagnfræði, ensku, dönsku, íþróttir, smíði, saumar, myndmennt, heimilisfræði og sitt hvað fleira sem almennt er talið að auki þroska og möguleika einstaklingsins.

Skólakerfið í dag vanrækir hins vegar það sem mikilvægast er og ætti að vera aðaltilgangur með námi. Það er að kenna börnum að vera manneskjur. Að kenna þeim að bera umhyggju hvert fyrir öðru (siðfræði), að hvetja þau til þess að leita sannleikans með því að hugsa sjálfstætt og um leið að vera gagnrýnið á eigin skoðanir (rökhugsun) og að hjálpa þeim til þess að geta tjáð skoðanir sínar og hugsanir á fimlegan og röklegan hátt jafnt sem hlustað á skoðanir annarra (tjáning). Skólakerfið vanrækir algjörlega að kenna börnum hvernig þau eiga verða að góðum manneskjum. Skólinn kennir börnum okkar ekki hvernig best sé að lifa.

Flest þau vandamál sem hrjá nemendur í núverandi skólakerfi, þ.e. agavandamál (í flestum skólum er a.m.k. einn bekkur í hverjum árgangi sem enginn kennari ræður við), áhugaleysi (allt of mörgum nemendum finnst leiðinlegt í skólanum og námið tilgangslaust), vanlíðan (mörgum börnum líður illa af ýmsum félagslegum aðstæðum), einelti (sem er allt of algengt og er oft hræðileg lífsreynsla fyrir þá sem í því lenda) og slakur árangur þeirra eru tilkomin vegna þess að núverandi skólakerfi leggur litla sem enga áherslu á að þroska og efla mannshugann með heimspekilegum aðferðum (rökhugsun, siðfræði, tjáning, o.s.frv.). Þess í stað sér núverandi skólakerfi aðeins um að mata einstaklinginn með misáreiðanlegri þekkingu, en gefur honum um leið nær engin tækifæri til þess að tjá sig um námsefnið og gagnrýna það.

Nýr grunnskóli
Menntun er eins og næring og nemendurnir eru eins og aldintré, ef aldintréð fær ekki næga næringu þá vaxa engir ávextir. Ef aldintréð fær næringu en ekki þá réttu þá gefur það ekki af sér þá heilbrigðu ávexti sem því var ætlað að gefa af sér. Því er ljóst að nauðsynlegt er að börn fái bæði rétta og næga næringu sem stuðlar að því að þau verði að sterkum einstaklingum sem kunna af þekkingu að takast á við lífið. Þessa næringu hefur núverandi skólakerfi mistekist að veita. Því er það ekkert nema eðlilegt að mörg börn verði við slíkar aðstæður að ráðvilltu ungu fólki sem kunna ekki að takast á við vandamál lífsins. Þetta er til að mynda öðru fremur ástæðan fyrir því að jafn mörg börn og unglingar falla fyrir hinum margumtöluðu vímuefnum (þar með talið áfengi) og raun ber vitni.

Í nýju skólakerfi leggjum við áherslu á að menntun sé byggð á skynsamlegum grunni. Til þess að læra að lesa þarf maður fyrst að kunna stafrófið. Til þess að geta lært þarf maður fyrst að kunna að hugsa. Því leggjum við til að allt nám verði byggt upp út frá heimspekilegum aðferðum. Þessum heimspekilega grunni verður svo skipt í tvær aðalgreinar: siðfræði og rökfræði.

Heimspeki – nýr grunnur að námi
Umræður, tjáning og gagnvirk samskipti nemenda við kennara þurfa að vera eins og rauðir þræðir í gegnum allt nám. Mötun sem byggist á því að nemendur sitji og þegi og gera lítið annað en að hlusta á kennarann, hlýða honum í einu og öllu og glíma síðan við mis markviss verkefni er aðferð sem samræmist engan veginn lýðræðislegum hugmyndum um jafnrétti, frelsi og bræðralag.

Fyrsta markmið hvers kennara ætti að vera að öðlast traust og vináttu nemenda sinna. Þegar þessu markmiði er náð er hægt að hefjast handa við að kenna börnunum. Kennari sem kennir börnum sem virða hann á mun auðveldara með að ná til þeirra en ef þessi virðing er ekki fyrir hendi. Gagnkvæm virðing er því ein af forsendum árangurríks náms.

Rökfræðin
Inn í hverju einasta mannsbarni leynast ómetanleg náttúruleg auðævi sem geta, ef þau eru rétt virkjuð, fært hvaða samfélagi sem er ómælda velmegun. Velmegun sem ekki aðeins lýsir sér í auknum veraldlegum þægindum, heldur einnig í formi ánægðra samfélagsþegna sem byggja, af þekkingu, réttlátt og skynsamlegt samfélag.

Ef við viljum að börnin okkar læri stærðfræði, raungreinar, málfræði, tungumál og aðrar greinar sem krefjast þess að notuð sé rökræn hugsun, þá er nauðsynlegt að kenna börnum okkar að hugsa sjálfstætt og rökrænt. Þetta er hægt að gera með því leggja tíma í það að kenna börnum að tjá skoðanir sínar og hugsanir. Þannig eru börnin virkjuð í heimspekilegum umræðum sem krefjast þess að þau færi rök fyrir skoðunum sínum og hlusti á rök og skoðanir annarra. Nauðsynlegt er að börn séu hvött til þess að spyrja spurninga og rannsaka allt sem fyrir þau er lagt með opnu en gagnrýnu hugarfari.

Mikilvægt er að áhersla sé lögð á að ýta undir áhugahvöt barnsins. Námsefnið verður að gera spennandi og skýra verður út fyrir nemendunum hvers vegna mikilvægt sé að viðkomandi námsefni sé kennt.

Með því að draga úr mötun áhugalítilla nemenda og þess í stað nýta tímann til þess að tala við börnin, en ekki einungis tala til þeirra, er hægt að auka skilning þeirra á eiginleikum og tilgangi námsefnisins. Best er að tengja námsefnið við reynsluheim nemendanna sem að sjálfsögðu er mismunandi eftir því á hvaða aldri/þroskastigi þeir eru. Það gengur einfaldlega ekki að kenna börnum lestur, skrift, stærðfræði, raungreinar, tungumál o.s.frv. „af því bara“, „vegna þess að allir þurfa að læra það“ eða „vegna þess að þetta er talin góð almenn menntun“ því að börn og unglingar vilja skilja af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru, rétt eins og við hin. Maðurinn er forvitinn að eðlisfari og það er gott því að forvitni gefur af sér þekkingu og þekking gefur af sér framfarir sem svo gefa af sér aukna hamingju. Því er það með öllu óverjandi þegar náttúruleg forvitni barna er bæld niður í skólum vegna þess að lítill sem enginn tími er úthlutaður til þess að svala henni.

Siðfræðin
Það að innræta börn okkar með siðferðisvitund hlýtur að vera eitt af höfuðmarkmiðum menntunar. Það að kenna börnum okkar hvernig á að koma fram við aðra og hvers vegna, er lykillinn að bjartri framtíð. Þetta hlýtur öllum þeim sem hafa kynnt sér sögu samfélaga að vera augljóst.

Siðfræði er hægt að kenna á ýmsa vegu. Hjá yngri deildunum væri t.d. hægt að kenna hana með því að kennarinn lesi upp dæmisögu, sem inniheldur miserfiðar siðferðisþrautir, fyrir börnin sem þau fá svo tækifæri til þess að glíma við. Dæmisögur þessar yrði vitanlega að sníða að hverjum aldurshóp fyrir sig og ættu siðferðisspurningarnar að þyngjast smátt og smátt þangað til að nemendurnir eru orðnir færir um að takast á við flóknar siðferðisþrautir á rökrænan hátt. Eftir að nemendurnir eru komnir á ákveðinn aldur verða tilbúnar dæmisögur óþarfar því að þá ættu þeir að fá tækifæri til þess að glíma við sannar „dæmisögur“ sem eru að finna í gegnum alla mannkynsöguna.

Siðfræðina verður því að samflétta við allar samfélagsgreinar og þá helst sagnfræðina.

Lærum af sögunni
Sagnfræðina er tilgangslaust að kenna, ef hún er ekki kennd út frá siðferðislegum forsendum. Sögukennsla er gulls ígildi aðeins ef tilgangurinn með henni sé að sýna orsakir og afleiðingar verka mannanna. Sögukennsla, ef hún er rétt notuð, er ein besta siðferðiskennsla sem völ er á. Sögukennarinn ætti að leggja allt kapp á það að gera nemendum sínum ljóst hvers vegna mennirnir gerðu afglöp sín og hvers vegna þeir stigu framfaraspor í gegn um tíðina, en ekki aðeins hverjir, hvar og hvenær. Mikilvægt er einnig að nemendur þekki raunverulegar hetjur mannkynssögunar, en ekki aðeins skúrkana. Varla getur talist eðlilegt að allir viti hverjir Alexander „mikli“, Napóleon „mikli“ og Hitler (ekki mikli af því hann tapaði) voru en hafi svo kannski aldrei heyrt um menn eins og Plato, Aristóteles, Voltaire, Thomas Paine og aðra þá sem hafa gert Jörðina að betri stað.

Helst þyrfti að kenna alla söguna, þ.e. allt frá upphafi siðmenningar til dagsins í dag þannig að nemendur fái heildarmynd yfir það hvernig samfélögin hafa þróast. Það að segja sannleikann verður að vera æðsta takmark sögukennslunnar og sagan verður því að vera sögð frá sjónarhorni heimsborgarans, Jarðarbúans, en ekki frá sjónarhorni Íslendinga, kristintrúarmanna, eða annarra sérhagsmunahópa, því slíkir hópar segja sögu sína á hlutdrægan og oft jákvæðari hátt en efni er til og leyna þar með sannleikanum. Ef við leynum sannleikanum er auðvitað ekki hægt að læra af honum. Ekki er hægt að byrgja brunnana þegar við vitum ekki hvar þá er að finna.

Sjá nánar:
Menntun með markmið

Deildu