Opinberi meðferðarfulltrúinn Jesús

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

19/01/2007

19. 1. 2007

Þessi grein var einnig birt í Fréttablaðinu 19. janúar 2007 Það virðist margt hafa verið athugavert við starfsemi Byrgisins sáluga. Fjölmiðlar hafa verið duglegir að benda á meinta fjármálaóreiðu og kynferðislega misnotkun sem auðvitað er viðurstyggileg. Færri hafa hins vegar bent á hversu óeðlilegt það er að ríkið ausi fjármunum í trúarlega meðferðarstarfsemi. Engum dettur […]

Þessi grein var einnig birt í Fréttablaðinu 19. janúar 2007

Það virðist margt hafa verið athugavert við starfsemi Byrgisins sáluga. Fjölmiðlar hafa verið duglegir að benda á meinta fjármálaóreiðu og kynferðislega misnotkun sem auðvitað er viðurstyggileg. Færri hafa hins vegar bent á hversu óeðlilegt það er að ríkið ausi fjármunum í trúarlega meðferðarstarfsemi. Engum dettur í hug að leggja til að ríkið styrki kristilega krabbameinsmeðferð eða tannlæknastofu Votta Jehóva, þar sem „fagaðilar“ eru prestar og forstöðumenn, en ekki læknar. Hvers vegna virðist öllum þá vera sama um að almennir skattgreiðendur séu látnir borga undir áfengis- og fíkniefnameðferð sem byggir á bókstafstrúarlegum forsendum?

Nú þegar Byrginu hefur verið lokað tilkynnir félagsmálaráðherra að kristilega meðferðarheimilið Samhjálp eigi að taka við skjólstæðingum Byrgisins. Hverjir borga? Jú að miklu leyti við, skattgreiðendurnir. Hvers vegna er hið opinbera að borga undir öll þessi trúarlegu meðferðarheimili? Er skortur á sálfræðingum, læknum, félagsráðgjöfum, iðjuþjálfum og öðru menntuðu fagfólki? Skýtur það ekki skökku við að á meðan yfirvöld neita að greiða niður þjónustu fagmanna eins og sálfræðinga reka þau trúarleg meðferðarheimili í stórum stíl?

Ef vefsíða Samhjálpar er skoðuð er hægt að finna fjölmargar greinar um Guð og Jesú, en nánast ekkert um læknisfræðilega nálgun á áfengis- og fíkniefnavandanum. Hjá Samhjálp eru prestar og forstöðumenn hvítasunnusafnaða reglulegir gestir á meðan læknar og annað fagfólk eru sjaldséðir fuglar.

Það getur ekki verið í lagi að hið opinbera, sem á að veita þjónustu fyrir alla óháð trúarskoðun, skuli borga undir meðferðaheimili eins og Samhjálp þar sem forstöðumaðurinn segir „Frelsið er gjöf til allra manna, gjöf sem við getum ekki öðlast fyrir verk, aðeins fyrir trú á Jesúm Krist.” Með öðrum orðum getum við samkvæmt Samhjálp aðeins losnað undan fíkn með því að trúa á kristna guðinn Jesú. Það skiptir litlu hvað menn gera, svo lengi sem þeir trúa á Jesú verður allt í lagi. Enn fremur segir forstöðumaðurinn skjólstæðingum sínum reglulega að syndgi þeir muni þeir deyja, ef þeir trúa á Jesú Krist muni þeir hins vegar öðlast eilíft líf. Um þetta er fjallað aftur og aftur á vefsíðu Samhjálpar. Ég mótmæli því harðlega að skattpeningar mínir séu notaði í svo augljóst trúboð.

Rökin fyrir stuðningi hins opinbera við trúarleg samtök sem þessi eru oft þau helst að það vanti úrræði fyrir fíkla og alkahólista og því eigi að styðja vel við „frjáls félagasamtök“. Þvílík vitleysa. Auðveldlega væri hægt verja peningum skattgreiðenda í fagleg meðferðarúrræði í staðinn, en yfirvöld kjósa að gera það ekki. Er ekki kominn tími til að taka Jesú út af launaskrá hins opinbera og forgangsraða í þágu skjólstæðinga?

Sigurður Hólm Gunnarsson
Höfundur er varaformaður Siðmenntar og nemandi í iðjuþjálfun við HA

Deildu