Gamla fólkið getur ekki beðið

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/02/2007

21. 2. 2007

Í febrúar á síðasta ári skrifaði ég grein um ömmu mína og afa sem var stíað í sundur á gamals aldri vegna þess að þau voru mis heilsuhraust. Afi var það veikur að hann þurfti að flytja á hjúkrunarheimili á meðan amma þótti ekki nægilega veik til þess að fá að fylgja honum. Þar sem […]

Í febrúar á síðasta ári skrifaði ég grein um ömmu mína og afa sem var stíað í sundur á gamals aldri vegna þess að þau voru mis heilsuhraust. Afi var það veikur að hann þurfti að flytja á hjúkrunarheimili á meðan amma þótti ekki nægilega veik til þess að fá að fylgja honum. Þar sem heilbrigðiskerfi okkar virðist leggja meiri áherslu á meðhöndlun sjúkdóma en að viðhalda heilbrigði eru þessir starfshættir staðreynd. Það tók ömmu og afa um tveggja ára baráttu að sameinast á ný og ég fullyrði að þessi langi aðskilnaður hafði veruleg neikvæð áhrif á heilsu þeirra beggja. Amma komst ekki til afa fyrr en hún var orðin það veik að annað var ekki hægt. Gömlu hjónin höfðu deilt kjörum saman í meira en hálfa öld en fengu ekki að njóta samvistar og stuðnings hvors annars þegar þau þurftu mest á honum að halda. Er það skrítið að heilsu þeirra hafi hrakað?


Nú fyrir stuttu bárust fregnir af eldri hjónum á Akureyri sem eru í svipuðum aðstæðum. Hjónin Sumarrós Sigurðardóttir, 88 ára og Sigurður Ringsted Ingimundarson, 94 ára, hafa verið gift í rúm 60 ár en nú geta þau ekki verið lengur saman. Í þeirra tilfelli er Sumarrós orðin það veik að hún þarf á vist á stofnun að halda á meðan Sigurður er talinn of hress til að fá að búa með konu sinni á hjúkrunarheimili. Sú staðreynd að þeim líður illa hvort án annars virðist ekki skipta neinu máli. Í fréttum kom fram að Sigurði hefur hrakað verulega eftir að konan hans fór og hefur hann lést um nokkur kíló. Er óeðlilegt að álykta að viðskilnaður hans við konu sína hafi haft þar áhrif?

Ég hef rætt við fjölmarga aðila, þar með talið starfsmenn hjúkrunarheimila og hjúkrunarforstjóra, um aðskilnað eldri hjóna og eru allir sammála því að slíkur aðskilnaður getur haft veruleg áhrif á heilsu og lífsgæði þeirra sem lenda slíkum aðstæðum. Ef það eru markmið heilbrigðiskerfis okkar að tryggja heilbrigði og aukin lífsgæði þá mega svona starfshættir ekki eiga sér stað.

Í fréttum af máli Sigurðar og Sumarrósar, sem ég tek fram að ég þekki ekki persónulega, kom fram að ef aðstæður Sigurðar breyttust ekki sérstaklega á næstu átján mánuðum yrðu aðstæður hans endurskoðaðar ef „þörf væri á“. Það þarf varla að útskýra að átján mánuðir í lífi 88 ára og 94 ára einstaklinga er langur tími. Þegar fólk er komið á þennan aldur er ekki hægt að búast við að það eigi langan tíma eftir við bærilega heilsu. Þetta er gangur lífsins. Það getur því ekki verið sæmandi í „velferðarsamfélagi“ að eldra fólk sé svipt möguleikanum á bærilegum lífsgæðum á ævikvöldinu með þessum hætti. Stjórnvöld eiga að skammast sín fyrir slíka framkomu og lagfæra þjónustuna hið snarasta. Eldra fólk í þessum aðstæðum hefur einfaldlega ekki tíma til að bíða eftir því að stjórnvöld setji málið í nefnd og lofi breytingum eftir kosningar. Gamla fólkið á skilið að mál þeirra verði leyst strax.

Þessi grein var einnig birt í Morgunblaðinu laugardaginn 17. febrúar 2007.

Deildu