Rasistinn Ásgeir Hannes Eiríksson segist hafa fengið hótunarbréf frá “útlendingi” sent til sín vegna skoðana sinna. Ljótt ef satt er. Menn eiga aldrei að þurfa að líða hótanir vegna skoðana sinna, sama hversu gagnrýnisverðar skoðanir þeirra annars eru. Ásgeir sagði í DV í gær að lögreglan hefði brugðist skjótt við og “haft hendur í hári Ganaverjans”. Það er að vissu leyti ánægjulegt að lögreglan skuli nú bregðast við hótunum. Þegar ég reyndi fyrir nokkrum árum að leggja fram kæru gegn íslenskum rasista sem hringdi heim til mín og hótaði mér öllu illu þá ráðlagði lögreglan mér sérstaklega að kæra ekki!* Ég ætti ekki að taka slíka hótun alvarlega. Þegar ég óskaði eftir því að koma mín á lögreglustöðina yrði þá bókuð var mér sagt að slíkt gerði lögreglan ekki. Kannski hefur litarháttur þess sem hefur í hótunum áhrif á aðgerðir lögreglu?
Ganabúar og íslenskir rasistar
Kannski eru Ganabúar taldir hættulegri menn en íslenskir rasistar? Mér skilst að Ganabúar séu flestir svartir á meðan íslensku rasistagreyin eru hvít. Kannski hefur það áhrif? Sumir eru þó þeirrar skoðunar að allar hótanir eigi að taka alvarlega. Sérstaklega í þeim tilfellum þar sem brotamaðurinn er þekktur ofbeldisseggur eins og rasistinn sem hafði samband við mig.
Sjá: Formaður Félags íslenskra þjóðernissinna hefur í hótunum
Og þú getur tekið þessu sem hótun
“Ég krefst þess einfaldlega að þú dragir þessi orð þín til baka opinberlega annars mun ég sjá til þess að komið verði í veg fyrir frekari frama þinn hér á landi… Og þú getur tekið þessu sem hótun.Hvað ertu að gefa í skyn? Ertu í alvörunni talað að hóta mér? Hvernig þykist þú ætla að koma í veg fyrir minn ,,frama“ eins og þú orðar það?
Já þetta er hótun. Þú veist fullvel hvernig fólk stendur á bak við mig í þessu og þú veist hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í þessum heimi.
Hvers konar hótun er þetta?
Það kemur bara í ljós þegar að því kemur. Ég skil ekki hvernig þér er stætt á þessu. Þú sem hefur sjálfur talað um að við séum ofbeldisfullir nasistar.
Já og hvað með það?
Bara það að ef þú dregur ekki orð þín til baka opinberlega þá tökum við til okkar ráða.”
Hart tekið á hótunum?
Í umræðuþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, þar sem alltof oft er rætt gagnrýnislaust við rasista, var í gær talað við Hjört nokkurn sem er tengdur Framfaraflokknum (sem hefur sérstaka andstyggð á útlendingum)**. Hann sagðist einnig hafa fengið hótanir vegna skoðana sinna (líklegast frá sama manni og hótaði Ásgeiri). Hjörtur sagðist í viðtalinu hafa farið til lögreglu og látið sérstaklega bóka þessar hótanir. Lögreglan tók víst vel í þessa beiðni Hjartar og sagði að alltaf þyrfti að taka svona hótanir alvarlega.
Úr viðtali við Hjört í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni 12. október 2004.
“Eins og lögreglan sagði við mig þá er þetta eitthvað sem ekki er hægt að líða, þetta er bara lögbrot, brot á almennum hegningarlögum og eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við hér á landi.”
“Eins og lögreglan sagði við mig þá veit maður aldrei. Þó það séu ekki nema fimm prósent líkur á því að það sé einhver alvara á bak við þetta þá er það nóg.”
Þetta kom mér á óvart þar sem lögreglan harðneitaði að bóka áhyggjur mínar og hvatti mig sérstaklega til að kæra ekki.
Sjá: Hugleiðingar um réttarríkið
“Af einhverjum ástæðum geta íslenskir þegnar ekki lagt fram kæru um helgar þar sem rannsóknarlögreglan er í fríi. Að þessu komst undirritaður þegar hann gerði tilraun til þess að kæra áðurnefnda hótun daginn eftir að hún barst. Rannsóknarlögreglan var auk þess í páskaleyfi fram á þriðjudag og urðu fórnarlömb ofsókna því einfaldlega að bíða þar til helgihaldi lauk. Það var þó ekki aðeins fjarvera rannsóknarlögreglu þennan laugardagsmorgun sem hefur valdið mér hugarangri. Það sem mér þykir verst er að gefið var í skyn að jafnvel þótt að rannsóknarlögreglan hefði verið á staðnum hefði ekkert verið gert. Mér var beinlínis sagt að ég hefði líklegast ekkert upp úr því að kæra.
Máttleysi lögreglu
Vinalegi lögreglumaðurinn sem ég ræddi við benti mér á að ef formaður FÍÞ myndi hringja aftur yfir páskana gæti ég látið opna fyrir símann minn á þriðjudeginum og þá gæti lögreglan rekið símtalið ef formaðurinn myndi hringja í ÞRIÐJA SINN eftir þann tíma. Ég reyndi að segja lögreglumanninum að ég óttaðist nú ekki beinlínis símhringingar frá títtnefndum formanni en það hafði engin áhrif. Hann sagði mér að ég hefði ekkert að óttast og að ég gæti komið aftur á þriðjudaginn ef ég vildi enn kæra. Ég spurðist þá fyrir um hvort það væri ekki hægt að bóka komu mína á lögreglustöðina þennan daginn en svo var ekki. Lögreglumaðurinn lofaði því þó að hann skyldi ,,muna eftir mér“.Ég kann að vera of kröfuharður á þjónustu lögreglunnar en ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna lögreglustöðin var yfirleitt opin þessa páskahelgi. Ekki var hægt að kæra og ekki heldur hægt að bóka komu mína. Það eina sem ég hafði upp úr þessari heimsókn var vinalegt spjall. Ég hefði alveg eins getað hringt í vinalínuna.”
Hvers vegna hótanir frá Ganabúum eru teknar alvarlegar en ekki hótanir frá íslenskum rasistum veit ég ekki. Kannski einhver frá lögreglunni geti svarað því?
Eru rasistar saklaus fórnarlömb?
Svo það sé á hreinu þá tel ég allar ofbeldishótanir óafsakanlegar, líka gagnvart rasistum. Sá sem hefur sent íslenskum rasistum hótunarbréf ætti að skammast sín og biðjast afsökunar. Rasistar hafa gerst sekir um að breiða út fordóma gagnvart útlendingum og þar með valdið fjölmörgum saklausum einstaklingum vanlíðan og jafnvel óbætanlegu tjóni. Reiði er skiljanleg en hún afsakar ekki ofbeldishótanir.
Það fer hins vegar svolítið í taugarnar á mér að nú keppast fjölmiðlar við að tala við Ásgeir Hannes, Hjört og aðra rasista eins og þeir séu saklaus fórnarlömb sem vilja bara “fjalla um innflytjendamál á málefnalegan máta”. Það þarf ekki mikla blaðamennsku til að komast að því að umfjöllun rasista um innflytjendamál hefur verið allt annað en málefnaleg. Nóg er að kíkja á greinar, vefsíður og annað efni sem þessir menn bera ábyrgð á.
*Ég reyndar ákvað samt að kæra. Eftir nokkra mánuði var mér svo tilkynnt að málið hefði verið látið niður falla.
**Sjá Rasistar styðja útlendingafrumvarpið
Nánar:
Formaður Félags íslenskra þjóðernissinna hefur í hótunum
Hugleiðingar um réttarríkið