Hugleiðingar um réttarríkið

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

18/04/2001

18. 4. 2001

Síðastliðinn laugardagsmorgun gerði ég, undirritaður, tilraun til þess að kæra formann Félags íslenskra þjóðernissinna fyrir hótun sem ég fékk í símtali frá honum. En rannsóknarlögreglan var í fríi og enginn vildi taka við kvörtun minni. Þessi reynsla hefur valdið mér vissu hugarangri og velti ég því nú fyrir mér hvort nægilega vel sé staðið að […]

Síðastliðinn laugardagsmorgun gerði ég, undirritaður, tilraun til þess að kæra formann Félags íslenskra þjóðernissinna fyrir hótun sem ég fékk í símtali frá honum. En rannsóknarlögreglan var í fríi og enginn vildi taka við kvörtun minni. Þessi reynsla hefur valdið mér vissu hugarangri og velti ég því nú fyrir mér hvort nægilega vel sé staðið að löggæslu hér á landi.

Af einhverjum ástæðum geta íslenskir þegnar ekki lagt fram kæru um helgar þar sem rannsóknarlögreglan er í fríi. Að þessu komst undirritaður þegar hann gerði tilraun til þess að kæra áðurnefnda hótun daginn eftir að hún barst. Rannsóknarlögreglan var auk þess í páskaleyfi fram á þriðjudag og urðu fórnarlömb ofsókna því einfaldlega að bíða þar til helgihaldi lauk. Það var þó ekki aðeins fjarvera rannsóknarlögreglu þennan laugardagsmorgun sem hefur valdið mér hugarangri. Það sem mér þykir verst er að gefið var í skyn að jafnvel þótt að rannsóknarlögreglan hefði verið á staðnum hefði ekkert verið gert. Mér var beinlínis sagt að ég hefði líklegast ekkert upp úr því að kæra.

Máttleysi lögreglu
Vinalegi lögreglumaðurinn sem ég ræddi við benti mér á að ef formaður FÍÞ myndi hringja aftur yfir páskana gæti ég látið opna fyrir símann minn á þriðjudeginum og þá gæti lögreglan rekið símtalið ef formaðurinn myndi hringja í ÞRIÐJA SINN eftir þann tíma. Ég reyndi að segja lögreglumanninum að ég óttaðist nú ekki beinlínis símhringingar frá títtnefndum formanni en það hafði engin áhrif. Hann sagði mér að ég hefði ekkert að óttast og að ég gæti komið aftur á þriðjudaginn ef ég vildi enn kæra.* Ég spurðist þá fyrir um hvort það væri ekki hægt að bóka komu mína á lögreglustöðina þennan daginn en svo var ekki. Lögreglumaðurinn lofaði því þó að hann skyldi ,,muna eftir mér“.

Ég kann að vera of kröfuharður á þjónustu lögreglunnar en ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna lögreglustöðin var yfirleitt opin þessa páskahelgi. Ekki var hægt að kæra og ekki heldur hægt að bóka komu mína. Það eina sem ég hafði upp úr þessari heimsókn var vinalegt spjall. Ég hefði alveg eins getað hringt í vinalínuna.

Réttarstöðu fórnarlamba ógnað?
Fyrir því má færa nokkuð sannfærandi rök að réttarstöðu almennings sé beinlínis ógnað ef fórnarlömb geta ekki leitað til lögreglu og kært afbrot, eða í það minnsta látið taka skýrslu af sér, strax eða stuttu eftir að það á sér stað. Fjöldamörg afbrot verða aðeins upplýst með frásögn aðila af atburðum og í slíkum tilfellum skiptir tíminn miklu máli. Minni manna er brigðult og menn eru fljótir að gleyma og afbaka einföldustu atriði ef ekki er brugðist við á réttan hátt, t.d. með því að skrifa niður lýsingu á atburðinum strax eftir að hann á sér stað. Afbrot eiga sér augljóslega ekki aðeins stað á virkum dögum og því ljóst að maður sem verður vitni að atburði á föstudagskvöldi en fær ekki að segja lögreglu frá því fyrr en í fyrsta lagi á mánudegi verður nokkuð auðveldlega gagnrýndur í réttarsalnum.

Frásagnir vitna eru sérstaklega mikilvægar þegar aðeins tveir aðilar, gerandi og þolandi, eru til frásagnar um atburð. Í slíkum tilfellum stendur aðeins orð gegn orði og því hlýtur mat lögreglu á áreiðanleika vitna að vera sérstaklega mikilvægt. Dæmi um slík afbrot eru t.d. hótun á borð við þá sem undirritaður fékk síðastliðinn föstudag en einnig má nefna mjög alvarlegan glæp eins og t.d. nauðgun.

Ég hef áður rætt og efast um réttarstöðu þolenda kynferðisafbrota hér á þessum síðum og hefur reynsla mín undanfarna daga fullvissað mig um að hún sé alls ekki nógu góð. Segjum sem svo að konu sé nauðgað eða hún beitt annars konar kynferðislegu ofbeldi á föstudagskvöldi. Daginn eftir ákveður konan að fara niður á lögreglustöð og kæra atburðinn en þegar þangað er komið er henni tjáð að enginn rannsóknarlögreglumaður sé á vakt og hún geti bara komið aftur eftir helgi. Enn fremur er henni tjáð að þar sem hún hafi ekkert annað vitni að atburðinum og að á henni séu engir líkamlegir áverkar sé lítill tilgangur með því að kæra. Slíkt hafi einfaldlega ekkert upp á sig, en hún geti þó leitað til lögreglu aftur ef maðurinn sem hún sakar um nauðgun angrar hana frekar í framtíðinni. Slík viðbrögð hljóta að hafa mjög neikvæð áhrif og letja fórnarlambið til þess að kæra málið.

Nú er ég ekki að segja að viðbrögð lögreglu við nauðgunarkærum séu eins og ég hef lýst hér. Að mér læðist þó sá grunur að ef viðbrögð lögreglu við nauðgunarkærum séu eitthvað í líkingu við þau viðbrögð sem undirritaður fékk síðastliðinn laugardagsmorgun að þá sé komin ein skýring á því hvers vegna kynferðisofbeldi er eins sjaldan kært og raun ber vitni.

Afbrot er afbrot jafnvel þótt það geti reynst erfitt að sanna það fyrir rétti og eiga því allir að hafa skýlausan rétt á því að kæra ef þeir telja að á sér sé brotið. Lögreglan er mikilvægari starfstétt en svo að þýðingarmikill hluti starfsemi hennar liggji bara niðri stóran hluta vikunnar. Því afbrot, ekki frekar en eldsvoðar, eiga sér ekki aðeins stað á skrifstofutíma.

Ég velti því upp þeirri spurningu hvort réttarstaða fórnarlamba sé ekki óþarflega skert, meintum sakborningum í hag, hér á landi og hvort dómsmálayfirvöld telji núverandi ástand viðunandi? Ég hlýt einnig að spyrja að því í hvers konar réttarríki við búum ef lögreglan leggst nánast í dvala á frídögum á meðan, veitingastaðir, sjoppur og kvikmyndahús eru í fullri starfsemi?

*Að gefnu tilefni skal tekið fram að undirritaður lagði fram kæru á þriðjudaginn. Var mér mjög vel tekið á lögreglustöðinni og vinnubrögð lögreglu til fyrirmyndar þann daginn að mínu mati.

Deildu