Á leið minni til Búdapest um daginn fjárfesti ég í metsölubókinni Da Vinci lykilinn (The da Vinci Code) til að hafa eitthvað að lesa á löngu ferðalagi. Margt forvitnilegt kemur fram í þessari bók og hvet ég alla þá sem hafa áhuga á trúarbrögðum til að næla sér í eintak. Því miður virðast fæstir vita nokkuð að viti um uppruna trúarbragða, sem í raun er ótrúlegt miðað við hvað margir segjast vera trúaðir. Hvernig er hægt að segjast vera trúaður án þess að vita fyrir hvað trúin stendur og hver uppruni hennar er?
Staðreyndum, goðsögum og skáldskap blandað saman
(ATH: Þeir sem hafa ekki lesið bókina, en ætla sér að gera það, ættu líklegast ekki að lesa það sem hér stendur)
Da Vinci lykilinn er vitanlega skáldsaga. Sögupersónurnar og söguþráðurinn eru hugverk höfundar. Efniviðurinn er hins vegar mikið til byggður á sagnfræðilegum staðreyndum og heimildum.
Fyrir þá sem ekki vita gengur bókin út á leitina af hinum heilaga kaleik (The holy grail). Í hefðbundinni merkingu táknar hinn heilagi kaleikur bikarinn sem Jesú kristur á að hafa drukkið úr með síðustu kvöldmáltíðinni. Í bókinni er kaleikurinn myndmál yfir fjársjóð sem geymir leyndarmálið, sannleikan um uppruna kristinnar trúar og um samband Jesú og Maríu Magdalenu.
Voru Jesú og María gift?
Dan Brown, höfundur bókarinnar, gefur í skyn að Jesú hafi verið giftur Maríu Magdalenu og að þau hafi eignast saman börn. Bókin snýst reyndar fyrst og fremst um þessa kenningu og tilraunir kaþólsku kirkjunnar til að leyna þessum “sannleik”. Ólíkt sögupersónum bókarinnar er þessi samsæriskenning ekki hugarsmíð höfundar, heldur er hún byggð á eldgömlum hugmyndum um samband Jesú og Maríu. Þó hugmyndin sé gömul þýðir það að sjálfsögðu ekki að hún sé sönn. Það er hún reyndar ekki. Sagnfræðilegar heimildir benda ekki til þess að Jesú og María hafi átt í ástarsambandi. Sagnfræðiheimildir benda í raun ekki til þess að Jesú Kristur hafi verið raunverulega til. Sagan um Jesú er goðsaga byggð á mun eldri goðsögum um guð og guðssyni og flestar eiga þessar sögur það sameiginlegt að eiga uppruna sinn til aðdáunar og trúar manna á sólinni.
Staðreyndir í Da Vinci lyklinum
Það kemur mörgum eflaust á óvart að margt sem fram kemur í bókinni um uppruna kristinnar trúar og tengsl kristninnar við önnur trúarbrögð er byggt á staðreyndum. Staðreyndum sem flestir fræðimenn eru reyndar sammála í dag. Meira að segja guðfræðingar og upplýstir þjónar kirkjunnar. Mig langar að telja upp nokkur áhugaverð dæmi:
1.
“More than eighty gospels were considered for the New Testament, and yet only a relative few were chosen for inclusion – Matthew, Mark, Luke and John among them.“ – Da Vinci lykilinn.
Fáir vita að Nýja Testamentið eins og við lesum það í dag var sett saman árið 397 á kirkjuþingi sem haldið var í Karþagó. Þar ákváðu nokkrir misvitrir biskupar hvaða guðspjöll skyldu teljast orð guðs og tilheyra heilagri ritningu. Með öðrum orðum þá var kosið um það hvaða boðskapur skyldi verða hin opinberi boðskapur guðs til manna. Öll önnur guðspjöll voru í kjölfarið bönnuð. Óvíst er hversu mörg guðspjöll voru bönnuð en talið er að fjöldi þeirra hafi í það minnsta verið 50.
Margir kunnað spyrja sig hvers vegna aðeins fjögur guðspjöll urðu fyrir valinu. Það var réttlætt með eftirfarandi orðum Irenaeusar kirkjuföður: “Fjórir stólpar bera himininn, horn heimsins eru fjögur, þar með er eðlilegast að guðspjöllin verði fjögur talsins.” Þar höfum við það.
2.
“In Constantie’s day, Rome’s official religion was sun worship – the cult of Sol Invictus, or the Invincible Sun – and Constantine was its head priest.” – Da Vinci lykilinn.
“Historians still marvel at the brilliance with which Constantine converted the sun-worshipping pagans to Christianity. By fusing pagan symbols, dates and rituals into the growing Christian tradition, he created a kind of hybrid religion that was acceptable to both parties.”
Ég vitna í grein mína „Fæðingu sólarinnar fagnað”:
Ólíkt því sem flestir halda er sagan um fæðingu Jesú, sem kristnir menn minnast á jólunum, ekki byggð á sagnfræðilegum staðreyndum. Sama má segja um líf hans, boðskap og kraftaverk. Alls óvíst er hvort Jesú hafi raunverulega nokkurn tímann verið til en ef hann var til þá má fullyrða að því sem næst ekkert er vitað um líf hans. Nánast allar þær sögur sem sagðar eru um Jesú í guðspjöllum Biblíunnar eru byggðar á eldri sögum um aðra sólguði og frelsara sem komu til jarðar til að færa mannfólkinu eilíft líf. Flestir eiga frelsararnir það sameiginlegt að móðir þeirra var hrein mey, þeir fæddust á afviknum og fátæklegum stað (í hlöðu, helli, undir tré o.s.frv.), þeir voru synir guðs, voru handteknir og dæmdir til dauða, voru kallaðir lambið og ljós heimsins og þeir voru sagðir hafa dáið fyrir syndir mannanna. Flestir áttu frelsararnir það sameiginlegt að hafa fæðst þann 25. desember, eða á vetrarsólstöðunum. Ástæðan er eins og fyrr segir sú að lífsgjafi jarðarinnar, sólin, hefur nýtt líf, „fæðist“, á þessum tíma.
Árið 46 f.o.t. ákvað Júlíus Sesar rómarkeisari að taka upp júlíaníska dagatalið í Rómarveldi. Vetrarsólstöðurnar og nýtt ár hófst þannig þann 25. desember og lýsti Sesar þann dag sem „Dag hinnar ósigruðu sólar“. Kristnir breyttu síðar nafni dagsins í „Dag hins ósigraða sonar“.
Í Rómarveldi, vöggu kristinnar trúar, var ár hvert haldin stórhátíð á vetrarsólstöðum. Hátíðin, Saturnalia, var kennd við Satúrnus, guð landbúnaðarins, og stóðu almenn hátíðarhöld yfir frá 17. til 24. desember. Þann 25. var síðan haldin mikil veisla (Brumalia) sem var hápunktur hátíðarinnar.
Heiðingjarnir sem héldu upp á jólin, löngu fyrir meinta fæðingu Jesú, gerðu sér glaðan dag með því að gefa gjafir, syngja, hengja upp mistilteina og með því að skreyta tré.
Líberíus biskup í Róm er talinn hafa ákveðið fyrstur manna árið 354 að 25. desember yrði gerður að opinberum fæðingardegi Jesús.
3.
“In 325 AD, he [Constantine] decided to unify Rome under a single religion. Christianity.” – Da Vinci lykilinn.
Sjá: “Fæðingu sólarinnar fagnað”:
Sú kristni sem lögtekin var í Rómarveldi af Kontantínusi keisara árið 325 var að mörgu leiti ekki ný trúarbrögð. Má frekar segja að með kristni hafi gömul trúarbrögð fengið nýtt nafn. Goðsögunnar áttu sér allar eldri fyrirmyndir og sama má segja um boðskapinn. Frelsisguðir heimsins hafa verið fjölmargir eða í það minnsta 17 talsins (líklegast fleiri) og er Jesú kristur sá sem nú seinast varð vinsæll.
4.
“Don’t get a symbologist started on Christian icons. Nothing in Christianity is original. The pre-Christian God Mithras – called the Son of God and the Light of the World – was born on December 25, died, was buried in a rock tomb, and then resurrected in three days. By the way, December 25 is also the birthday of Osiris, Adonis and Dionysus. The newborn Krishna was presented with gold, frankincense and myrrh. Even Christianity’s weekly holy day was stolen from the pagans” – Da Vinci lykilinn.
Sjá: “Fæðingu sólarinnar fagnað”:
Trúin á Mítra hófst líklegast í Persíu í kringum árið 2000 f.o.t. Mítra var rétt eins og Jesús sonur guðs og jarðneskrar konu sem einnig var hrein mey. Sagan segir að Mítra hafi fæðst á 25. desember ýmist í gripahúsi eða í helli og að fjárhirðar, sem urðu vitni að fæðingunni, hafi fært honum gjafir.
Mítra var kallaður frelsari, lambið, ljós heimsins, sól réttvísinnar. Hann á að hafa framið fjölmörg kraftaverk, þar á meðal reisti hann mann upp frá dauðum, læknaði lamaða, gaf blindum sýn og rak illa anda úr mönnum.
Rétt eins og Jesú borðaði Mítra síðustu kvöldmáltíð sína ásamt tólf lærisveinum áður en hann steig upp til himna. Á síðustu kvöldmáltíðinni neyttu þeir meðal annars sakramentis eða brauðs sem var skreytt með krossi.
Eftir að Mítra dó var líkneski af honum búið til úr steini og var það sett inn í gr afhýsi en síðan aftur fjarlægt þaðan þar sem því var trúað að Mítra hefði sigrast á dauðanum og stigið upp til himna. Þeir sem trúðu á Mítra trúðu því jafnframt að til þess að komast til himna eftir dauðann þyrftu menn að skírast. Samkvæmt trúnni mun Mítra koma aftur til jarðar fyrir heimsendi og dæma mannkynið.
Trúin á Mítra var afar útbreidd í Rómarveldi á fyrstu dögum kristninnar og voru þessi tvö trúarbrögð lengi álíka vinsæl, enda keimlík. Þannig var Mítra útnefndur „verndari rómverska heimsveldisins“ árið 307 e.o.t. Nokkrum árum síðar eða árið 325 tók Konstantínus þáverandi Rómarkeisari þá ákvörðun að kristni skyldi taka við sem ríkistrú Rómarveldis. Rétt rúmum 30 árum síðar eða árið 358 hófu kristnir að ofsækja þá sem trúðu á Mítra.
Margar af helstu athöfnum kristinnar trúar eru nákvæmlega þær sömu og voru stundaðar af fylgjendum Mítra. Má þar nefna sakramentið, skírnin, ýmsar hátíðir og það að halda upp á hvíldardaginn á sunnudegi, degi sólarinnar. Gyðingar og ýmsir kristnir „sértrúar“söfnuðir (t.d. Sjöunda dags aðventistar) halda þó enn upp á hvíldardaginn á laugardegi, enda er það hvíldardagurinn samkvæmt Biblíunni.
Það má því segja að með Da Vinci lyklinum færi Dan Brown lesendur sína nær hinum heilaga kaleik. Nær sannleikanum um uppruna kristninnar. Þó að sumt í bókinni sé byggt á vafasömum samsæriskenningum og þó ýmislegt sé hreinn skáldskapur þá er ansi margt byggt á staðreyndum. Staðreyndum sem fæstir lesendur hafa heyrt um áður. Með bókinni hefur Brown vakið forvitni margra um sögu kristinnar trúar og hlýtur það að teljast afar ánægjulegt.
Ítarefni og heimildir:
Fæðingu sólarinnar fagnað
Hvers vegna dó Bel?
Formaður Félags ungra jafnaðarmanna segir satt
“The Jesus Mysteries” – Timothy Freke & Peter Gandy
“Jesus and the Lost Goddess” – Timothy Freke & Peter Gandy“
The Age of Reason” – Thomas Paine
“Who Wrote The Gospels?” – Randel McCraw Helms
“Forgery in Christianity” – Joseph Wheless
“The Christ Conspiracy” – Acharya S
“The Jesus Puzzle” – Earl Doherty
“The History of the Decline and Fall of the Roman Empire” – Gibbon, Edward
“The Psychic Stream” og “The Curse of Ignorance” – Findlay, Arthur
Almanak Háskóla Íslands
The Winter Solstice & Christmas – Atheist Alliance International
Vísindavefur HÍ – Um jól
Vísindavefur HÍ – Um páska páskar
Fagnaðarerindi Da Vinci lykilsins – Karl Sigurbjörnsson
Dan Brown spurður um Da Vinci lykilinn