Full ástæða er til að hrósa Sigurði Guðmundssyni landlækni fyrir að koma fram í fjölmiðlum og vara sérstaklega við “orkunámsskeiði” sem hann segir “fjárplógsstarfsemi af verstu tegund”. Þar erum við sammála. Það er fátt eins svívirðilegt og þegar óprúttnir aðilar féletta veikburða og viðkvæmt fólk. Ég hvet landlækni til að láta frekar að sér kveða í þessum málum og veita þeim sem lenda í klóm á skottulæknum aðstoð.
Erfitt getur reynst að banna starfsemi þar sem líkamlega og andlega vanheilt fólk er misnotað. Sönnunarbyrðin er erfið og fórnarlömbin eiga oft erfitt með að leita réttar síns. Margir skammast sín fyrir að hafa verið plataðir af skottulæknum og aðrir gera sér enga grein fyrir því að þeir hafi verið hafðir að féþúfu.
Landlæknir gæti þó hjálpað mikið til með því að standa fyrir fræðslu um skottulækningar og bjóða þeim sem hafa lent í klónum á skottulæknum aðstoð. Nóg virðist vera til af misyndismönnum sem vilja misnota og féletta veikburða fólk. Nægir þar að nefna suma þá sem standa að sjónvarpsstöðinni Omega, en sú stöð virðist ganga meira eða minna út á það að hafa fé af veikum, öldruðum, öryrkjum og fáfróðum. Löglegt en siðlaust.
Sjá nánar:
Hættuleg fjárplógsstarfsemi – Fréttablaðið 18. september.
Segir starfsemina hættulega – Stöð 2 20. september.