Helsta ógn jafnaðarstefnunnar

Skoðun-Logo
Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

12/03/2001

12. 3. 2001

Jafnaðarstefnan er göfug stefna að mati undirritaðs. Í henni felst sú einarða lífsskoðun að allir menn séu fæddir jafnir og hafi sama rétt til þess að láta að sér kveða í þjóðfélaginu algerlega óháð þjóðfélagslegri stöðu sinni og efnahag. Jafnaðarstefnan hefur lengi verið gagnrýnd ómaklega af pólitískum andstæðingum jafnaðarmanna. Þeir hafa líkt jafnaðarstefnunni við kommúnisma […]

Jafnaðarstefnan er göfug stefna að mati undirritaðs. Í henni felst sú einarða lífsskoðun að allir menn séu fæddir jafnir og hafi sama rétt til þess að láta að sér kveða í þjóðfélaginu algerlega óháð þjóðfélagslegri stöðu sinni og efnahag. Jafnaðarstefnan hefur lengi verið gagnrýnd ómaklega af pólitískum andstæðingum jafnaðarmanna. Þeir hafa líkt jafnaðarstefnunni við kommúnisma og jafnaðarmanninum við fjöldamorðinga á borð við Stalín. En það er ekki þessi barnalega aðför þeirra sem ráða ekki við rökstuðning sem er helsta ógn jafnaðarstefnunnar. Heldur eru það hinir ýmsu talsmenn jöfnuðar sem hafa fyrir löngu síðan gleymt hugsjónum sínum eða fórnað þeim á forugu altari pólitískra vinsælda.


Einkarekstur er ekki það sama og einkavæðing
Síðan meirihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar opinberaði þá ágætu hugmynd sína að gera tilraun með að bjóða út rekstur eins grunnskóla í bænum hafa ýmsir stjórnarandstæðingar nánast froðufellt af vandlætingu yfir þessum áformum.

,,Eðalkratinn“ Guðmundur Árni Stefánsson og aðrir sjálfskipaðir talsmenn jafnaðarstefnunnar hafa gert sig að fíflum með öfgakenndri og illa rökstuddri andstöðu á þessum áformum Hafnarfjarðarbæjar. Stjórnarandstæðingarnir hafa margir hverjir talað gegn betri vitund um þetta mál og gefið í skyn að hér sé stigið fyrsta skrefið í því að einkavæða íslenskt menntakerfi, en því fer fjarri. Hér er aðeins verið að athuga hvort ekki sé hægt að nýta sér kosti markaðarins til að bæta menntun og aðbúnað nemenda.

Margir kunna að vera vantrúaðir á að aðild einkaaðila að skólastarfi geti bætt menntun, en ég fullyrði að ef rétt er staðið að málum geti einkarekstur skilað miklum árangri.

Hugsanlegir kostir einkareksturs
1.Samkeppni
Ef við gefum okkur að einkaaðilar sjái sér hag* í því að bjóða í kennslu í grunnskólum landsins eru meiri líkur en minni að þeir geri allt sem í valdi þeirra stendur til þess að reka skólana á sem fagmannlegastan hátt. Því ef óánægja myndast á starfsemi einkaaðilans, annað hvort af hálfu ríkisins eða að hálfu foreldra (og nemenda) á rekstraraðilinn augljóslega það á hættu að missa verkefnið þegar samningstímanum líkur. Ef rétt er að málum staðið mun myndast samkeppni um rekstur skóla sem þýðir að einkaaðilar neyðast til að reka skólana vel ef þeir vilja halda verkefnum sínum og skila hagnaði.

Hér verður þó að vera skýrt að árangur rekstraraðila sé ekki aðeins mældur útfrá fjárhagslegum forsendum. Þ.e. hvernig rekstur viðkomandi skóla hafi gengið peningalega séð. Árangur, líðan og aðbúnaður nemenda er það sem verður að skipta höfuðmáli þegar árangur rekstraraðila er metinn.

2. Sérhæfing
Skóli er stór og flókin stofnun og við rekstur skóla þarf að huga að mörgum mismunandi rekstrarþáttum. Kennslan er þar augljóslega mikilvægasti þátturinn í hverju skólastarfi, en huga þarf að fleiru. Það þarf hæfa einstaklinga til að stjórna skólanum. Einhverjir verða að sjá um ræstingu í stofnuninni. Enn aðra þarf til þess að reka mötuneyti (þar sem það á við) og á upplýsingaöld þarf einhverja sérfræðinga til að sjá um tölvukerfi skólans. Fleiri sérhæfða þætti í starfsemi skóla væri hægt að nefna en ég læt þetta nægja að svo stöddu.

Þegar stofnun eða fyrirtæki þarf að huga að svo margþættum verkefnum getur oft verið skynsamlegt að bjóða hin og þessi sérhæfð verkefni út til þriðja aðila. Það getur til að mynda reynst hagkvæmt að láta sérstakt ræstingarfyrirtæki sjá um ræstinguna og láta tölvufyrirtæki sem sérhæfir sig í rekstri tölvukerfa sjá um að reka tölvukerfið o.s.frv. Þetta er einmitt leið sem að mörg fyrirtæki, bæði hér á landi og erlendis, hafa farið í sínum rekstri með góðum árangri. Því ættu menntastofnanir ekki að fara sömu leið í sínum rekstri?

Ýmsir hafa lýst áhyggjum sínum yfir því að með einkarekstri muni allt snúast um að skera niður og spara til þess að skila meiri hagnaði og þar af leiðandi muni þjónustan við nemendur sjálfkrafa versna. Vissulega má leggja rök fyrir því að einkaaðilar, sem þurfa að sýna hluthöfum sínum árangur og ágóða, séu líklegri til þess að fara betur með peninga og draga úr óþarfa bruðli. En ef árangur rekstraraðila er ekki aðeins metinn útfrá fjárhagslegum forsendum heldur einnig og aðallega útfrá árangri í skólastarfi ættu áhyggjur af versnandi þjónustu að vera óþarfar.

3. Aukið sjálfstæði
Útboð á rekstri skóla getur skilað auknu sjálfstæði til skólanna. Sjálfstæðir rekstaraðilar eru líklegri en ríkisstarfsmenn til þess að prófa nýjar leiðir í skólastarfi. Ég viðurkenni að einkarekstur er ekki forsenda aukins sjálfstæðis en um leið og rekstraraðilar skólanna hafa beinan hag af því að reksturinn gangi vel er líklegra að nýjar hugmyndir og framsýni fái að njóta sín.

Tilraunir á börnum?
Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur haldið því fram að með útboði á kennslu sé verið að gera tilraunir með börn og slíkt sé siðlaust.

Það er alveg rétt hjá Guðmundi Árna og skoðanabræðrum hans að með þessu sé verið að gera tilraun með börn. Í hvert sinn sem nýr kennari er ráðinn, ný námsskrá er sett í framkvæmd og nýtt námsefni er samið er verið að gera tilraunir með börn. Kannski er kennarinn lélegur, námsskráin gölluð og námsefnið ekki við hæfi. Með hverri breytingu er einhver áhætta tekin en án breytinga og tilrauna staðnar skólastarfið og fer í raun aftur vegna þess að það nær ekki að sinna kröfum breyttra tíma.

Jafnaðarstefnan skilgreind
Jafnaðarstefnan gengur út á það að allir hafi sem jöfnust tækifæri til þess að láta að sér kveða og virkja hæfileika sína óháð þjóðfélagsstöðu og efnahag. Jafnaðarmenn vilja því að ríkið tryggi öllum þegnum sínum aðgang að góðri menntun, heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og löggæslu.

Sökum þess að flestir Íslendingar eru jafnaðarmenn hefur lengi verið sátt í þjóðfélaginu um stefnu jafnaðarmanna í velferðarmálum. Ég fæ ekki séð að Hafnarfjarðarbær sé að gera tilraun til þess að rjúfa þessa sátt. Yfirvöld bera enn ábyrgð á því að allir hafi aðgang að menntun og yfirvöld eiga enn að sjá til þess að kennt verði eftir námsskrá.

Ég styð þessa tilraun Hafnarfjarðarbæjar því mér er ekki aðeins kappsmál að allir hafi aðgang að menntun. Ég vil líka að allir hafi aðgang að góðri menntun. Ef yfirvöld eru ekki tilbúin til að reyna allar leiðir til þess að bæta þá menntun sem börnum er boðið upp á eru þau einfaldlega að bregðast hlutverki sínu.

Það er líka mín skoðun að þegar svokallaðir jafnaðarmenn setja sig á upp á móti því að prófa nýjar leiðir til þess að bæta skólastarf sé fokið í flest skjól og auðskilið af hverju svo fáir treysta sér til að kjósa þá.

*Ef enginn sér neinn hag í því að taka að sér rekstur grunnskóla falla þessi áform augljóslega um sig sjálf.

Deildu