Íslenskt – Nei takk

Logo

08/03/2001

Höfundur:

8. 3. 2001

Áður en ég held mikið meira áfram, þá verður það að viðurkennast að ég hneigist lítið til lista. Helst er það nú þannig að maður hefur matarlyst en önnur menning og list er ekki í öndvegi af minni hálfu. En ég virði þó þau sjónarmið að list geti gefið lífinu gildi, a.m.k. fyrir suma. Oft […]

Áður en ég held mikið meira áfram, þá verður það að viðurkennast að ég hneigist lítið til lista. Helst er það nú þannig að maður hefur matarlyst en önnur menning og list er ekki í öndvegi af minni hálfu. En ég virði þó þau sjónarmið að list geti gefið lífinu gildi, a.m.k. fyrir suma. Oft vill það nú verða þannig að menn gleyma sér nokkuð í þessari sköpun og túlkun á list. En þar sem ég er nú ekki manna fróðastur, þá ætla ég ekki út í þá sálma.


Menn og konur búa eitthvað til og er það ekkert merkilegt við það. Listamenn hins vegar skapa eitthvað og er það mjög sérstakt og merkilegt. Og vegna þess að það er svo merkilegt þá var höfundarréttur fundinn upp. Reyndar virði ég höfundarréttinn. Ég sýni listamönnum þann skilning að þeirra verk, það sem þeir búa til, er eitthvað sérstakt. Jafnvel svo sérstakt að Pétur og Páll hafa ekki leyfi til að notast við það, laga það til eða afskræma nema með leyfi þess sem bjó listaverkið til. Eru þessi lög einnig skiljanleg út frá því að það hlýtur að vera óréttlátt að einhver geti tekið hugmynd sem maður hefur legið lengi yfir, stílfært hana með smá vinnu og eignað sér svo verkið. Jú það verður að viðurkennast, jafnvel af ólistrænum manni eins og mér að höfundarréttur er eitthvað sem við verðum að virða og á fullan rétt á sér.

Maggi Kjartans og Stef
Vegna þess hve höfundarréttur er svo merkilegur var ákveðinn hópur listamanna sem stofnaði STEF. Hver sem notar þeirra list skal greiða eitthvað ákveðið gjald. STEF samtök eru í mörgum löndum, sjálfsagt undir öðrum nöfnum, og þar gildir sama reglan. Menn skulu greiða fyrir afnotin. Þegar spiluð er tónlist í útvarpi eru STEFgjöld rukkuð svo eitthvað sé nefnt. Ekkert er óeðlilegt við þetta. Þetta er auðvelt í framkvæmdum, því auðvelt er að sanna það að lög með Bubba séu spiluð svona oft og lög með Magga Kjartans eru líka spiluð nokkuð oft.

Listamenn eru alltaf að skapa og tjá oftar en ekki skoðun almúgans, hins fátæka venjulega borgara. Stundum fjallar hún um ástina og það hvað gott er að vera til. Sjaldan fjallar listin um peninga, nema þá hvernig þeir geta flækst fyrir. Það er ekki gott að eiga of mikla peninga. Eða hvað?

Tímarnir breytast og listamennirnir með. Það sem Bubba Morteins þykir gott og gilt þykir Hauki frænda vera helst til vilt. Nú vilja Bubbi og Maggi ekki vera lengur fátækir, nú vilja þeir græða. Hamingjan felst ekki í því að eiga hvort annað, að elska Brynju eða að hafa samúð með litla manninum. Nú skal græða meira. Listin er svo merkileg að útvíkka þarf þetta sjónarmið með STEF gjöldin.

Rök Magga Kjartans
Magnús fer hamförum þessa dagana. Við, hinn almenni borgari, höfum svindlað of mikið hingað til. Við höfum stundað það til langs tíma að afrita verk listamannsins. Samkvæmt rökum hans Magga, þá á hinn meðalmaður, nokkrar hillur af íslenskri tónlist fengin með ólöglegum leiðum (upptökum). Ekki má gleyma því að við höfum líka tekið upp á videospólur alla íslenska tónlist sem sýnd hefur verið. Og tjón listamannana er því alveg gríðarlegt.

Ekki ætla ég að deila um upphæðir, en máski er það rétt hjá Magga að listamennirnir verði af nokkrum tekjum, þegar menn afrita tónlist á geisladisk, kasettur eða á videospólur.

En ranglætið skal leiðrétt þó það kosti annað ranglæti. Nú vill STEF með samþykki Björns Bjarnasonar, leiðrétta þessa skekkju. Björn og Maggi vilja leggja gjald (einkarekinn skatt) á geisladiska og tölvubúnað. Það er nefnilega svo að með þessum græjum er hægt að afrita tónlist Magga, Björgvins Halldórs og Bubba.

Skattinn burt
Ég vil þennan óréttláta skatt í burtu, og mín rök eru þessi..

Geisladiskar (og þ.a.l. geislaskrifarar) eru mest notaðir til að afrita gögn (önnur en tónlist). Ýmis skjöl starfsmanna fyrirtækja eru geymd á þessum diskum sem og gögn einkaaðila. Einnig nota ljósmyndarar diska til að geyma myndir á, arkitektar geyma sín gögn á diska (og eru arkitektar stundum flokkaðir sem listamenn)

Geisladiskar og skrifarar eru nú þegar skattlagðir erlendisfrá. Sem sagt að greiða skatt hér er tvísköttun. Hvert er réttlætið í því?

Gjaldið er svimandi hátt. 35 krónur pr. Disk* er alveg út úr öllu samhengi. Danir lögðu 10 kr. Skatt á (eru reyndar búnir að fella hann niður). Hvað réttlætir það að tónlist með Magga Kjartans sé rúmlega þrefalt verðmætari en t.d. Kim Larsen (sem er þó alveg ágætur).

Gjaldið sem Maggi talar um sem smáaura eru engir smáaurar. Þessi skattur þýðir að geisladiskar munu tvöfaldast í verði. Þessi skattur mun skila STEF 30-50 milljónum í sinn vasa. En hinn meinti stuldur er ekki nema brot af því.

Dæmisaga um ungan tónlistarmann
Að lokum vil ég segja ykkur smá sögu. Sögu sem ég hef búið til og er bara svona týpísk dæmisaga um ,,réttlætið“ í þessum skatti. Það skal tekið fram að þessi saga er eign höfundar og öll afritun án skriflegs leyfis er bönnuð og á það t.d. við með að ljósrita þessa sögu eða að afrita hana á disk.

Þessi saga er um ungan mann sem dreymir um að vera tónlistarmaður. Hann hefur reynt margt en ekkert gengur. Hann bregður því á það ráð að afrita sína tónlist á geisladisk til að dreifa henni ókeypis. Í þeirri von að verða uppgvötaður. Hann fer í verslun og gengur beint inn í tölvudeildina, starfsmenn tölvudeildar líta hornauga á þennan verðandi glæpamann (hann ætlar að kaupa sér disk). Ungi tónlistarmaðurinn kaupi sér 100 diska og gengur að búðarkassanumt til að greiða fyrir diskana. Stúlkan á kassanum stimplar inn þessa sölu, og bætir svo STEF gjaldinu við. Það er nokkuð ljóst að maðurinn er sekur, hann er dæmdur sem afritunarglæpamaður og borgar sína ,,sekt“ við búðarkassann. Maggi Kjartans stendur fyrir aftan og þakkar stúlkunni fyrir góð og vel unnin störf í þágu listarinnar. Hún fær koss á kinnina og er hún uppi með sér. Það er alveg ljóst að stúlkan á eftir að rukka fleiri um STEFgjöld ef hún á von á fleiri kossum.

Ungi tónlistarmaðurinn afritar sýna tónlist og gefur öllum útvarpsstöðvum sem og gangandi vegfarendum. Eftir nokkra bið, rætist draumurinn. Lögin hans verða vinsæl á FM 957 og á Útvapi Sögu. Þar eru lögin spiluð dag eftir dag, í sex mánuði. Hinn ungi listamaður fer þvínæst í heimsókn til Magga Kjartans til að fá greitt út úr STEFsjóðnum. Maggi brosir og hlær og segir; ,,Nei heyrðu vinur, það er reyndar rétt að FM 957 og Útvarp Saga borga STEFgjöld eins og aðrar útvarpsstöðvar. En það er ekki borgað nema eftir spilun á Bylgjunni og Rás2. Því miður ungi maður, þar sem þitt lag var ekkert spilað á Bylgjunni bara á FM957 og Útvarpi Sögu þá áttu engan rétt.“ Og Maggi heldur áfram ,, en haltu ótrauður áfram ungi maður, það er aldrei að vita nema þitt lag verði spilað á Bylgjunni“ Því næst kveður hinn ungi tónlistarmaður Magga, svekktur og sár. Hann veit að hann greiddi 3500 kr. Í STEFgjöld þegar hann keypti diskana. En samt á hann engan rétt. Og hann spyr sig að lokum ,,Hvert er réttlætið í því að aðrir græði á mínum tónverkum og minni tónlist?“

Íslenskt nei takk
Ég legg til að við sýnum samstöðu í verki. Kaupum ekki tónlistardiska fyrr en skatturinn verður lagður af að fullu. Látum ekki vaða yfir okkur með hroka og græðgi. Ranglæti verður aldrei leiðrétt með ranglæti.

Pétur Óli Jónsson

* Athugasemdir ritstjóra: Síðan þessi grein var skrifuð hefur Björn Bjarnason ákveðið að lækka umræddan skatt um helming.

Deildu