Aumkunarverðasti skósveinn íhaldsins

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

05/03/2001

5. 3. 2001

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er augljóslega bráðskýr og efnilegur maður. Því geta fáir mótmælt. En hann er jafnframt einn sá aumkunarverðasti skósveinn sem íhaldið hefur eignast. Af hverju segi ég þetta? Jú því það er álíka erfitt að finna mótsagnir í málflutningi hans og það er að finna sandkorn á sólbaðsströnd. Rógburður og aumingjaskapur Í Silfri […]

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er augljóslega bráðskýr og efnilegur maður. Því geta fáir mótmælt. En hann er jafnframt einn sá aumkunarverðasti skósveinn sem íhaldið hefur eignast. Af hverju segi ég þetta? Jú því það er álíka erfitt að finna mótsagnir í málflutningi hans og það er að finna sandkorn á sólbaðsströnd.


Rógburður og aumingjaskapur
Í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag gerði stjórnandi þáttarins ágæta tilraun til þess að fá Hannes Hólmstein til að útskýra þann ógeðfellda rógburð sem hann hefur haft um ýmsa þjóðþekkta aðila og ættmenni þeirra.

Þrátt fyrir að Egill Helgason hafi reynt ítrekað að fá Hannes til þess að leggja fram haldbær rök fyrir ásökunum sínum tókst frjálshyggjupostulanum alltaf að komast hjá því að svara. Í staðinn hélt Hannes áfram að stunda rógburð sinn og talaði fjálglega um hvað það væri hættulegt þegar háttsettir menn í viðskiptalífinu tengdust um of stjórnmálaflokkum eða -mönnum.

Þessi yfirlýsing hins sjálfsyfirlýsta ,,óháða þjóðfélagsgagnrýnanda“ var auðvitað ekkert annað en illa saminn brandari. Hannes hefur nefnilega alltaf verið á móti því að sett verði sérstök lög um fjárreiður stjórnmálaflokka, en slík lög myndu augljóslega auðvelda almenningi að átta sig á tengslum stjórnmálaflokkanna við viðskiptalífið.

Hannes lét einnig hafa eftir sér í Silfri Egils að hann væri íhaldsmaður í siðferðilegum málum og sagði hann þá loks eitthvað sem sannleikskorn er í. Því greina má oft siðferði gamla testamenntsins í málflutningi Hannesar. ,,Þú skalt ekki aðra Guði hafa en Davíð Oddsson“ er augljóslega fyrsta og mikilvægasta boðorðið í augum Hannesar og hefur þessi annars glaðlyndi háskólaprófessor tekið að sér það mikilvæga verkefni að refsa öllum þeim sem dirfast að brjóta þetta boðorð. Hannes er því ekki aðeins skósveinn heldur einnig refsiengill íhaldsins.

Hannes Hólmsteinn eða Hrói Höttur?
Mótsagnir í málflutningi Hannesar eru út um allt. Fyrir nokkru virtist Hannes Hólmsteinn t.d. vera andvaka af áhyggjum útaf öryrkjadómnum margumtalaða. Þessum misskilda jafnaðarmanni fannst nefnilega svo ósanngjarnt að þeir sem hagnast mest á niðurstöðu Hæstaréttar séu þeir sem hafa mestar heimilistekjur.

Það sem Hannes, vinur litla mannsins, vill er að peningum skattgreiðenda verði frekar varið í að bæta stöðu þeirra öryrkja sem verst eru settir. Hannesi finnst líka óverjandi að ekki sé hægt að bæta kjör þeirra öryrkja sem hafa það verst nema með því að bæta hag þeirra öryrkja sem eiga vel stæða maka.

Þarna kann Hannes að hljóma eins og nútímaútgáfan af Hróa Hetti en þegar betur er að gáð er þessi umhyggja hans fyrir lítilmagnanum í hrópandi mótsögn við flest annað það sem hann hefur áður sagt.

Í fyrsta lagi muna menn ekki eftir að Hannes hafi nokkurn tímann áður fjallað á slíkan hátt um kjör öryrkja. Í öðru lagi man undirritaður vel eftir því þegar Hannes útskýrði fyrir þjóðinni hvers vegna Bush yngri yrði betri forseti Bandaríkjanna en Al Gore. Ein af þeim ástæðum sem Hannes nefndi var sú að Bush færi ekki í manngreinaálit þegar kemur að því að bæta kjör almennings. Bush vildi nefnilega lækka skatta allra Bandaríkjamanna jafn mikið á meðan Gore fannst heppilegra að lækka skatta láglaunamanna meira en skatta hátekjufólks. Þá fannst Hannesi eðlilegt að ekki væri hægt að bæta kjör láglaunafólks með skattalækkunum nema með því að bæta kjör hátekjufólks í leiðinni.

Hér var því ekki hinn umhyggjusami Hannes sem tjáði sig heldur hafði hann aftur brugðið sér í hlutverk skósveinsins íhaldssama.

Hannes talar svo mikið í hringi að það er ekki nema von að hann og í raun þjóðin öll sé orðin ringluð og viti ekki alveg lengur hvort maðurinn er hörku frjálshyggjumaður eða vonlaus jafnaðarmaður? En ég get sagt ykkur að hann er hvorugt. Hannes er bara einn sá aumkunarverðasti skósveinn sem íhaldið hefur eignast.

Deildu