Hversu ódýrt getur það verið að múta Íslendingum?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

16/03/2001

16. 3. 2001

Það er merkilegt hversu auðvelt og ódýrt er að múta Íslendingum. Fyrir rétt rúmri viku fékk ég ekki betur séð en að þúsundir Íslendinga væru brjálaðir yfir ranglátri gjaldtöku á geisladiskum og tölvubúnaði. Svo var gjaldið lækkað um helming og öllum virðist vera sama. Helst mætti halda að með þessu álíti einhverjir að þeir spari […]

Það er merkilegt hversu auðvelt og ódýrt er að múta Íslendingum. Fyrir rétt rúmri viku fékk ég ekki betur séð en að þúsundir Íslendinga væru brjálaðir yfir ranglátri gjaldtöku á geisladiskum og tölvubúnaði. Svo var gjaldið lækkað um helming og öllum virðist vera sama. Helst mætti halda að með þessu álíti einhverjir að þeir spari sér stórfé.


Þetta minnir reyndar á það þegar Landssíminn, gott ef hann hét þá ekki enn Póstur og sími, hækkaði gjaldskrá sína stórkostlega fyrir nokkrum árum. Þá ætlaði allt að verða vitlaust og stjórnendum fyrirtækisins og ráðamönnum var blótað í sand og ösku. Það þurfti hins vegar ekki meira til en að hafa lækkunina aðeins minni en upphaflega var ætlað til að sætta fólk. Nema auðvitað að forráðamenn fyrirtækisins hafi séð það fyrir að hækkuninni yrði mótmælt og því kynnt hana meiri í fyrstu til að geta lækkað hana síðar. Í það minnsta féll allt í dúnalogn og málið gleymdist á eins og einni kvöldstund að afloknum fréttatímum sjónvarps.

Enn er reynt
Nú notar Flugmálastjóri, samgönguráðherra og aðrir þeir sem vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni sömu aðferð til að koma í veg fyrir að reykvískir kjósendur kjósi völlinn á brott úr Vatnsmýrinni. Nú segjast þeir reiðubúnir að minnka völlinn ef hann má vera áfram. Þannig virðist loks orðið ljóst að það þurfti aldrei að fara svo mikið fyrir vellinum. En það var að sjálfsögðu ekki viðurkennt fyrr en hætta var á því að fólk veldi að losna alfarið við völlinn. Þá loks er viðurkennt að nýta megi svæðið betur. Það hlýtur samt að vekja spurningar um hversu sannfærðir sömu menn eru um að flugvöllurinn verði að vera áfram í Vatnsmýrinni en ekki úti á Lönguskerjum, á Álftanesi eða í Hvassahrauni.

Ég er einn þeirra sem voru lengst af þeirrar skoðunar að það væri firra að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Ég hef hins vegar skipt algjörlega um skoðun. Nú get ég ekki hugsað mér að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni um alla framtíð. Til þess er svæðið of verðmætt og öryggissjónarmið of mikilvæg. Ég er reyndar ekki frá því að margir þeir sem vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni skipti eins og ég um skoðun áður en ýkja langur tími er liðinn. Ég vona einfaldlega að þeir skaði okkur og sjálfa sig ekki of mikið í millitíðinni með því að kjósa með því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Deildu