Skólar án kennara

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

07/07/2000

7. 7. 2000

Vegna slakra launakjara kennara stefnir í að grunn- og framhaldsskólar landsins verði brátt án nokkurra faglærðra kennara. Fjárskortur til menntamála hér á landi er eitthvað sem við heyrum því miður um oft á hverju einasta ári. Ástarljóð stjórnmálamanna í annarri hverri hátíðarræðu til menntamála eru einskis virði ef þeir hafa enga langtímaáætlun um hvernig koma […]

Vegna slakra launakjara kennara stefnir í að grunn- og framhaldsskólar landsins verði brátt án nokkurra faglærðra kennara. Fjárskortur til menntamála hér á landi er eitthvað sem við heyrum því miður um oft á hverju einasta ári. Ástarljóð stjórnmálamanna í annarri hverri hátíðarræðu til menntamála eru einskis virði ef þeir hafa enga langtímaáætlun um hvernig koma eigi menntamálum þjóðarinnar í viðunandi horf.


Langtímamarkmið verði sett ofar skammtímamarkmiðum
Stjórnmálamenn eru veikir fyrir því að reyna að hækka í áliti hjá kjósendum með því að veita aukafjárframlög úr ríkissjóði til að redda aðkallandi vandamálum. Ekki misskilja mig. Það er oft nauðsynlegt að veita mikilvægum ríkisstofnunum og verkefnum aukafjárveitingu ef vel á að fara. En endalausar skammtímalausnir eiga það til að letja menn til þess að móta áætlanir um varanlegri lausnir.

Mér er það ljóst að við þurfum að verja mun stærri hlut þjóðartekna okkar til menntamála en við gerum nú ef ætlunin er að halda uppi öflugu menntakerfi hér á landi. Einnig þarf að reyna að koma á samkeppni á milli skóla, bæði um nemendur og starfsfólk. Án einhverskonar samkeppni eygi ég litla möguleika á miklum breytingum til batnaðar.

Eins og ég hef áður bent á þá tel ég að það sé engan veginn nóg að líta endalaust á fjárhagsvanda skólanna, það þarf einnig að auka umræðu um innri starfsemi skólanna. Enda tel ég að margt sé ábótavant bæði hvað varðar þá kennsluhætti og það kennsluefni sem nú er við lýði í skólum landsins.

Það er þó ljóst að ef fjárhagsvandi íslenska menntakerfisins verður ekki leystur með varanlegri hætti en hingað til hefur verið gert þá er til lítils að röfla um innri gæði skóla. Án metnaðarfulls, vel menntaðs og hæfileikaríks starfsfólks er varla hægt að ætlast til þess að gæði menntunar séu mikil.

Hvað segja stjórnarflokkarnir?
Það verður varla sagt að núverandi stjórnarflokkar hafi sýnt það mikið í verki að þeir hafi áhuga á að efla íslenskt menntakerfi. Björn Bjarnason, menntamálaráðherra og títt nefndasti alþingismaðurinn á Skoðun, hefur til dæmis sagt að hann telji að vandi íslenska menntakerfisins sé ekki fjárhagslegur.

Menn innan Framsóknarflokksins hafa sumir hverjir sýnt menntamálum mikinn áhuga og er skemmst að minnast tillögum Ólafs Arnar Haraldssonar um að láta ríkið greiða fyrir hið umdeilda MBA nám með aukafjárveitingu. En á meðan Sjálfstæðisflokkurinn teymir mennta- og fjármálamálaráðuneytið tel ég ólíklegt að miklum peningum verði varið til menntamála. Meiri samstaða virðist vera hjá stjórnarflokkunum um að eyða peningum í dragúldið landbúnaðarstyrkjakerfi og snobbhátíðir en í menntamál.

En stjórnarandstaðan?
Eins og alltaf talar stjórnarandstaðan mest og best um menntamál þjóðarinnar en orð og fagurgalar eru ekkert annað en orð og fagurgalar þar til þjóðin ákveður að leyfa þessum flokkum að spreyta sig í stjórn. Formaður Samfylkingarinnar hefur lagt gríðarlega áherslu á menntamál í ræðum sínum og eru stórar yfirlýsingar í þeim efnum nánast nægjanleg ástæða til að styðja Samfylkinguna. Samfylkingunni væri þó hollt að vinna heimavinnuna sína betur og vinna heildstæða áætlun um hvernig bæta má menntakerfið og hvaðan eigi að taka peningana. Það er nefnilega ekki nóg að segjast ætla að gera hlutina, það verður líka að segja hvernig á að framkvæma þá. Í það minnsta ef menn kæra sig um mitt atkvæði.

Deildu