Afvegaleiddir menn

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

10/07/2000

10. 7. 2000

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra er með eindæmum hugmyndaríkur og skemmtilegur stjórnmálamaður. Um það er nýjasta hugmynd hans gott dæmi. Hann leggur til að virðisaukaskattur verði ekki lengur lagður á matvæli og framfærslukostnaður heimilanna þannig lækkaður. En auðvitað dettur honum ekki í hug að markaðsvæða landbúnaðarkerfið sem þó myndi skila mun meiri árangri. Hið dýra landbúnaðarkerfi Eins […]

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra er með eindæmum hugmyndaríkur og skemmtilegur stjórnmálamaður. Um það er nýjasta hugmynd hans gott dæmi. Hann leggur til að virðisaukaskattur verði ekki lengur lagður á matvæli og framfærslukostnaður heimilanna þannig lækkaður. En auðvitað dettur honum ekki í hug að markaðsvæða landbúnaðarkerfið sem þó myndi skila mun meiri árangri.


Hið dýra landbúnaðarkerfi
Eins og ég, og ótal fleiri, hef bent á áður leggur núverandi landbúnaðarkerfi álögur á skattgreiðendur sem fjármagna styrkjagreiðslur til íslenskra bænda, neytendur sem verða að greiða hærra vöruverð vegna innflutningstakmarkana og ef til vill ekki síst bændur sem hafa dregist aftur úr öðrum atvinnugreinum í tekjum (þó nýi búvöru”samningurinn” hafi væntanlega bætt eitthvað úr þessu).

Sú hugmynd að lækka eða afnema virðisaukaskatt sem lagður er á matvæli er ekki svar við þessum vandamálum. Ef landbúnaðarráðherra væri alvara í því að lækka matvælaverð myndi hann leggja til að íslenskur landbúnaður yrði markaðsvæddur. Með því að afnema ríkisstyrki og opna fyrir raunverulega samkeppni erlendis frá mætti bæta afkomu íslensku þjóðarinnar um 15 til 20 milljarða króna á ári. Þar væri komin raunveruleg kjarabót. Því miður er lítil ástæða til að ætla að stjórnvöld hafi hug á að gera þetta. Í það minnsta er nýgerður búvörusamningur ekki til þess fallinn að auka bjartsýni þeirra sem velta þessu fyrir sér.

Hvers vegna rökin réttlæta ekki núverandi kerfi
Rökin fyrir núverandi landbúnaðarkerfi hafa verið margvísleg í gegnum tíðina. Þessa stundina eru þau þó einna helst þau að styðja þurfi við bakið á bændum og að tryggja þurfi neytendum góða vöru (grínistarnir í flokki stuðningsmanna núverandi landbúnaðarkerfis bæta reyndar við “á góðu verði”).

Þrátt fyrir óhemju háa ríkisstyrki til landbúnaðar hafa forystumenn bænda löngum kvartað undan bágum kjörum bænda. Þrátt fyrir ákall þeirra um meiri stuðning er vandinn ekki ónógir ríkisstyrkir heldur ef eitthvað er of miklir ríkisstyrkir. Með endalausum fjáraustri úr ríkissjóði hefur verið haldið uppi of mikilli atvinnu og of mörgum bóndabýlum til þess að von sé að þau beri sig öll. Ríkisstyrkirnir hafa haldið fólki í landbúnaði sem með réttu hefði átt að leita í önnur störf fyrir mörgum áratugum síðan. Afraksturinn hefur verið skattpíning almennings og bág kjör margra bænda.

Þrátt fyrir viðvaranir bænda og stuðningsmanna þeirra er ekki ástæða til að ætla að hálf íslenska þjóðin myndi þjást af matareitrun þó opnað yrði fyrir innflutning erlendra landbúnaðarafurða. Matvælaframleiðendur þurfa að uppfylla gæðakröfur í fleiri löndum en á Íslandi og eins og lesendur hafa orðið varir við hafa íslenskar landbúnaðarvörur ekki verið alveg lausar við leiðindapestir að undanförnu. Rökin falla því um sig sjálf.

Markaðsvæðum landbúnaðinn
Ef landbúnaðarráðherra er alvara með að lækka matarreiking heimilanna ætti hann að beita sér fyrir því að markaðsvæða landbúnaðarkerfið. Fjöldi íslenskra bænda myndi vissulega bregða búi en það þarf hvorki að skaða þá né aðra verulega. Með lækkandi matvælaverði og meiri eyðslu almennings í aðra vöru og þjónustu myndi störfum í öðrum greinum fjölga og þeir bændur sem þurfa að bregða búi því ekki að óttast að lenda á vonarvöl sé rétt að málum staðið. Helstu breytingarnar yrðu þær að almenningur hefði meira fé á milli handanna og að forystumenn bænda hefðu ekki sama vald yfir misvitrum stjórnmálamönnum og þeir hafa hingað til haft. Hvoru tveggja tel ég til mikilla framfara.

Deildu