Ekki benda á mig

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

13/07/2000

13. 7. 2000

Stjórnmálamenn eru, eins og svo margt annað fólk, þeirrar náttúru gerðir að neita að játa ábyrgð sína á því sem illa fer – en um leið afskaplega fljótir að eigna sér heiðurinn af því sem vel heppnast hvort sem þeir eiga þar einhvern heiður skilinn eður ei. Um þetta eru landbúnaðarmál gott dæmi. Að vinna […]

Stjórnmálamenn eru, eins og svo margt annað fólk, þeirrar náttúru gerðir að neita að játa ábyrgð sína á því sem illa fer – en um leið afskaplega fljótir að eigna sér heiðurinn af því sem vel heppnast hvort sem þeir eiga þar einhvern heiður skilinn eður ei. Um þetta eru landbúnaðarmál gott dæmi.


Að vinna gegn okkur sjálfum
Séra Hjálmar Jónsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins fellur í þá gildru að fara að verja landbúnaðarkerfið í fjölmiðlum í dag. Segir hann meðal annars að meðan aðrar þjóðir styrki sinn landbúnað getum við Íslendingar ekki farið að vinna gegn okkur sjálfum með því að gera ekki það sama.

Þarna tekst þingmanninum hvoru tveggja að koma ábyrgðinni yfir á aðra og snúa staðreyndum gjörsamlega við. Það er svo sem ekki skrýtið að hann grípur til svona málflutnings enda virkar hann því sem næst alltaf. Fjölmiðlar ganga vart á menn og almenningur nennir oft á tíðum ekki að hlusta á þreytta menn tala um leiðinleg málefni. Svona málflutningur er hins vegar ekki til fyrirmyndar. Í fyrsta lagi hlýtur það að vera vafasamt að gera eitthvað einvörðungu vegna þess að aðrir gera það. Það mælir ekkert gegn því að taka aðra sér til fyrirmyndar og nýta sér reynslu þeirra. Það á hins vegar ekki að gera hugsunarlaust og ekki að nota sem rök fyrir því að gera einhverja vitleysu sem liggur í augum uppi að er skaðleg íslensku þjóðfélagi í heild. Sem leiðir mig aftur að orðum þingmannsins um að við eigum ekki að vinna gegn okkur sjálfum. Ég er hjartanlega sammála þessum orðum hans. Ég vildi bara óska þess að hann færi eftir þeim sjálfum. Landbúnaðarkerfið kostar okkur á annan tug milljarða á ári hverju. Með því að afnema ríkisstyrki og innflutningshöft sparar íslenska þjóðin þennan pening árlega og viðbúið að þetta fé fari úr hnignandi atvinnuvegi og leiti í vaxandi atvinnugreinar sem auka á hagvöxt, atvinnu og bæta lífskjör. En slíkt á víst ekki upp á pallborðið hjá þingmönnum sem maður fær óneitanlega á tilfinninguna að hugsi of oft um það eitt að friða öfluga sérhagsmunahópa til að tryggja sér áframhaldandi stuðning. Slíkir þingmenn eiga ekkert erindi á þing.

Að segja satt
Ég held að okkur hafi öllum verið kennt það í æsku að segja satt og rétt frá. Ég geri mér grein fyrir því að margir eru þeirrar skoðunar að það eigi að viðhalda störfum í landbúnaði með ríkisstyrkjum og of háu afurðaverði. Þeir sem eru þeirrar skoðunar eiga hins vegar að hafa kjark til þess að segja satt og rétt frá ástæðunum að baki afstöðu sinni frekar en að reyna að telja fólki trú um að það sé því fyrir bestu að borga hærri skatta og hærra vöruverð fyrir matvælin sín heldur en að fá góða vöru á lágu verði.

Deildu